Opnunartími um páskana

Hvalasafnið verður opið alla daga yfir páskahátíðina. Opið er frá 10 til 16 og verður sami opnunartími út apríl.

Í maí tekur við lengri opnunartími þar sem safnið verður opið alla daga frá kl. 9 til 18.

 

Safnafræðinemar í vettvangsheimsókn

Hvalasafnið tók á móti hópi mastersnemenda, ásamt kennurum, í safnafræði við Háskóla Íslands síðastliðinn fimmtudag.  Tilgangur heimsóknarinnar var samstarfsverkefni Hvalasafnsins og safnafræðinnar sem kennt var undir áfanganum ‘Söfn og samfélag’. Nemendum var við komuna skipt í fjóra hópa þar sem þau unnu með ákveðin viðfangsefni innan safnsins í þá þrjá daga sem heimsóknin varði.

Capture2

Fjallaði einn hópurinn um Hvalasafnið og nærsamfélagið og kannaði hópurinn þau tengsl sem fyrir eru við nærsamfélagið og lagði fram tillögur að frekari tengslum. Notast var við bæði rýnihóp og spurningakönnun. Annar hópur fór yfir sýningar safnsins og kom fram með mikilvæga og uppbyggilega gagnrýni á sýningarnar og hvernig mætti bæta þær. Þá tók þriðji hópurinn fyrir markaðs- og kynningarmál safnsins, kannaði markhópa og setti fram tillögur að kynningarmálum. Fjórði hópurinn fjallaði um safnið og mögulega samstarfsaðila og samstarfsverkefni. Allir hóparnir vinna verkefnin á fræðilegum forsendum og skilar nemendahópurinn í heild fullunninni, fræðilega rökstuddri skýrslu í apríl, þar sem fram koma niðurstöður heimsóknarinnar og hópavinnunnar.

Almenn ánægja var meðal þátttakenda verkefnisins, hvort sem um er að ræða starfsfólk Hvalasafnsins eða nemendur og kennara Háskóla Íslands. Fór vel á með hópunum og var unnið bæði í húsnæði Hvalasafnsins sem og í húsnæði Þekkingarseturs Þingeyinga.

 

Hvalasafnið og nærsamfélagið var viðfangsefni þessa hóps.

Hvalasafnið og nærsamfélagið var viðfangsefni þessa hóps.

Verkefnið er safninu afar mikilvægt og bindur stjórn og starfsfólk góðar vonir við að nýta skýrslu hópsins til frekari uppbyggingar safnsins. Þá býr slík fræðileg innsýn safninu faglegan grundvöll til frekari starfsemi í safnaheiminum, hér heima og erlendis.

 

hópur4

Á laugardaginn kynntu hóparnir frumniðurstöður vinnu sinnar sem síðan verður unnin áfram í lokaskýrslu.

Svona heimsókn er þó ekki möguleik án aðkomu og velvilja samfélagsins og vill Hvalasafnið fyrir hönd vekefnisins koma á framfæri þökkum til eftirfarandi aðila: Cape Hótel Húsavík fyrir að taka á móti hópnum og koma til móts við verkefnið með niðurgreiddu verði á gistingu, Samkaup Nettó fyrir að styrkja verkefnið með morgunverði, Fosshótel Húsavík, Hvalbakur og Salka Restaurant fyrir að koma til móts við verkefnið og bjóða upp á ljúffenga kvöld- og hádegisverði gegn vægu gjaldi. Þátttakendur í rýnihóp, auk þeirra sem svöruðu spurningakönnun nemenda á götum bæjarins fá einnig kærar þakkir fyrir.

Lærdómsrík heimsókn til Massachusetts

Starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík fór í síðustu viku utan til Massachusetts í Bandaríkjunum, í námsferð sem styrkt var af Safnasjóði. Hvalasafnið var eitt 21 viðurkenndra safna sem hlaut símenntunarstyrk fyrir starfsárið 2017. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Hvalveiðisafnið í New Bedford, en söfnin tvö hafa átt í farsælu samstarfi yfir um tveggja ára skeið.

Mynd1

Vel var tekið á móti starfsfólki Hvalasafnsins og átti það fundi með framkvæmdastjóra safnsins, auk fjölda annarra starfsmanna og yfirmanna safnsins og má segja að ferðin hafi verið lærdómsrík í alla staði.

Mynd3

Gist var í Boston, sem er í rúmlega klukkustundar fjarlægð frá New Bedford og þar fékk starfsfólkið einnig góðar móttökur af fyrrum sendiherra Bandaríkjanna og stórvini safnsins Robert C. Barber. Barber fór með gestina á hina ýmsu staði í og við Boston er tengjast Íslandi, auk þess að bjóða upp á góða fræðslu um svæðið.

Mynd2

 

mynd4

Laust rými í Hvalasafninu

Hvalasafn_auglýsing_final(1)-page-001

Hvalasafnið lokað fimmtudag og föstudag vegna framkvæmda

Hvalasafnið verður lokað fimmtudaginn 5. janúar og föstudaginn 6. janúar vegna framkvæmda á safninu.

Safnið opnar aftur mánudaginn 9. janúar og er opnnunartími sem fyrr;
10 – 16 alla virka daga fram í apríl en þá lengist opnunartíminn.

 

 

Hvalasafnið á Húsavík hlýtur símenntunarstyrk safnaráðs

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur að fenginni umsögn safnaráðs úthlutað símenntunarstyrkjum úr safnasjóði til viðurkenndra safna árið 2016 í samræmi við ákvæði 7. gr. safnalaga nr. 141/2011.

Alls fékk að þessu sinni 21 viðurkennt safn símenntunarstyrk og var Hvalasafnið á Húsavík þeirra á meðal, en heildarúthlutun styrkja var alls 4.6 milljónir króna.

Styrkur Hvalasafnsins verður nýttur til kynnisheimsóknar til New Bedford, Massachusetts í Bandaríkjunum, þar sem Hvalveiðisafnið verður sótt heim. Starfsfólk safnsins fer utan nú í lok janúar, með það að markmiði að styrkja núverandi tengsl safnanna tveggja, en þó einnig til að fræðast um starfsemi safnsins með sérstaka áherslu á fræðslu til skólahópa, tengsl við nærsamfélagið, miðlun upplýsinga (sýningar og munir) og varðveislu muna eins og beina og beinagrinda.

new-bedford-whaling-museum-sprem-whale

Hvalveiðisafnið í New Bedford er yfirgripsmikið og býr yfir mismunandi deildum. Fræðslustarf í safninu er öflugt, auk þess sem gagnaöflun er virk og stuðningur við rannsóknir mikill. Safnið er samfélagsmiðað og heldur árlega tugi viðburða sem ætlaðir eru nærsamfélaginu.

Hér má sjá lista yfir úthlutun símenntunarstyrkja fyrir árið 2017.

2016 – viðburðaríkt ár á Hvalasafninu

Árið 2016 er búið að vera viðburðaríkt á Hvalasafninu. Safnið var lokað í janúar og febrúar vegna uppsetningar Steypireyðarsýningarinnar, en opnaði aftur um miðjan mars. Þessi nýja Steypireyðarsýning er stærsta einstaka verkefni sem unnið hefur verið á safninu á síðustu árum. Flutningur beinanna, uppsetning, hönnun og tilheyrandi vinna við sýninguna reyndist kostnaðarsöm, en þrátt fyrir það sýnir reynslan frá sýningaropnun að þessi framkvæmd muni reynast safninu vel til framtíðar litið. Hvalasafnið gerði langtíma varðveislusamning við Náttúrufræðistofnun Íslands um steypireyðargrindina. Slíkur samningur er þýðingarmikill fyrir safnið.

IMG_0397

Fræðslustarf í blóma
Í lok árs 2015 hófst svokallað New Bedford verkefni, þar sem Hvalasafnið og Hvalveiðisafnið í New Bedford, í Massachusetts, Bandaríkjunum unnu saman í gegnum safnasamstarf og ungmennaskipti. Tíu nemendur úr Framhaldsskólanum á Húsavík tóku þátt í verkefninu og 18 nemendur frá New Bedford, en verkefnið hlaut styrk frá Bandarísku safnasamtökunum (AAM) og að auki styrkti Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna verkefnið í gegnum Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Er þetta umfangsmesta einstaka fræðsluverkefni sem safnið hefur ráðist í frá upphafi. Verkefnið miðaði að því að kynna annars vegar Húsavík og Skjálfanda og hins vegar New Bedford-svæðið fyrir nemendunum, auk almennrar fræðslu um hvali, lífíki hafsins og þær ógnir sem steðja að hafinu. Nemendur áttu samskipti að lágmarki einu sinni í viku í gegnum skype, en stóðu auk þess fyrir ýmis konar viðburðum. Í apríl heimsótti Bandaríski nemendahópurinn Húsavík og í lok maí fór Húsvíski hópurinn utan. Má segja að verkefnið hafi gengið vonum framar og munu söfnin tvö halda áfram að styrkja tengslin sín á milli. Þá lögðu fjölmargir  skólahópar á öllum skólastigum leið sína í safnið og var Hvalaskólinn á sínum stað með sína árlegu fræðslu og sýningu á verkum nemenda á vormánuðum.

2016-05-29-10-55-26

 

Gestum fjölgaði hratt
Heildar gestafjöldi á árinu 2016 er ríflega 36 þúsund.  Til samanburðar var gestafjöldinn um 26 þúsund árið 2015. Þessi mikla aukning skýrist af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi hefur nýja Steypireyðarsýningin slegið í gegn og á sinn þátt í aukningunni. Í öðru lagi hefur ferðafólki sem heimsækir Húsavík fjölgað mikið árið 2016. Í þriðja lagi hefur markaðsstarf Hvalasafnsins og samvinna með t.d. ferðaskrifstofum skilað góðum árangri – ekki síst á liðnu hausti.

Þjóðverjar fjölmennastir
Við komuna á safnið eru gestir spurðir um þjóðerni. Þær upplýsingar sem þar fást koma að góðu gagni, m.a. fyrir markaðsstarf og áherslur safnsins.  Á árinu 2016 voru erlendir gestir um 90% af heildar gestafjölda og íslenskir gestir  um 10%.  Þetta hlutfall íslenskra gesta er hátt í sögulegu samhengi og skýrist að hluta til af opnun steypireyðarsýningarinnar í mars þar sem t.d. heimafólki var boðið að skoða sýninguna.

Af einstökum þjóðum voru gestir frá Þýskalandi flestir – það er ekkert nýtt miðað við fyrri ár. Á árinu hafa komið 7.100 gestir frá Þýskalandi eða um 20% af heildarfjölda. Næst koma Bandríkjamenn, gestafjöldinn þaðan er 12% af heild. Í ár hafa komið ríflega 3.600 íslenskir gestir.  Þar á eftir koma Frakkar, Svisslendingar, Bretar og Hollendingar. Gestum frá hinum ýmsu löndum Asíu hefur fjölgað en eru þó enn einungis tæp 4% af heildar gestafjölda.

tafla2016

LNS Saga í heimsókn

Jarðgangnaflokkur verktakafyrirtækisins LNS Saga heimsótti Hvalasafnið í gær. Hópurinn var áhugasamur um safngripina og allt sem viðkemur hvölum. Það var ánægjulegt að finna fyrir áhuga starfsmanna LNS á þeirri afþreyingu sem í boði er á Húsavík. Starfsmennirnir dvelja í vinnubúðum á Húsavík í allt að tvö ár við vegtenginguna frá iðnaðarsvæðinu að Bakka að hafnarsvæðinu og einnig við hafnargerðina sjálfa. Það var Sturla Fanndal Birkisson sem fór fyrir starfsmönnum LNS Saga en hann er bæði ættaður úr Mývatnssveit og Húsavík.

img_2209_2

Tvö ný rit eftir Marinu Rees

Út eru komin tvö rit eftir Marinu Rees. Annars vegar C-E-T-A-C-E-A, bæklingur sem fylgir eftir vinnu Marinu við samnefnda sýningu í Hvalasafninu. Formáli er eftir Jan Aksel Harder Klitgaard og viðtal við Richard Sabin. Hitt ritið, Bones of a Long-Finned Pilot Whale / Bein grindhvals, útlistar hverju og einu beini grindhvals og byggir á verkun Marinu á grindhval sem strandaði í fjöru við Húsavíkurslipp í byrjun árs 2016.
Bæði ritin fást í minjagripaverslun Hvalasafnsins.
marina

Ritin eru til sölu í minjagripaverslun Hvalasafnsins

 

15267876_548879321975253_1686014630267168080_n

Úr C-E-T-A-C-E-A

 

15253406_548879388641913_2224045166858743791_n

C-E-T-A-C-E-A byggir á samnefndri sýningu Marinu Rees í Hvalasafninu á Húsavík

 

15178115_548879588641893_6456530914964951943_n

Úr ritinu Bones of a Long-Finned Pilot Whale

 

Starfsemi Hvalasafnsins kynnt á ráðstefnu í Mexíkó

Nú á dögunum sótti verkefnastjóri safnsins, Huld Hafliðadóttir, ráðstefnu í Mexíkó á vegum Alþjóðlegrar nefndar um verndarsvæði sjávarspendýra: International Committee on Marine Mammal Protected Areas. Þar tók Huld þátt í dagskrá ráðstefnunnar fyrir hönd safnsins og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, en Huld hefur undanfarin misseri kynnt sér slík verndarsvæði í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir. Um er að ræða svæði sem heyra til mikilvægra búsvæða hvala og annarra sjávarspendýra, hvort sem um ræðir fæðustöðvar eða mökunar- og uppeldisstöðvar þeirra, sem vernda þarf gegn ágangi mannfólks.

 

img_8070

Setning ráðstefnunnar í Puerto Vallarta

Á flestum stöðum í heiminum, þar sem hvali er að finna yfir ákveðin tímabil og þá sérstaklega þar sem hvalaskoðun er stunduð má finna einhvers konar ákvæði eða umgengnisreglur af þessu tagi, þá í formi fjölda- og hraðatakmarkana báta, en einnig er ákveðinni fjarlægð viðhaldið þegar nálgast á dýrin.

 

map

Kort yfir þau svæði sem þegar hafa verið merkt sem mikilvæg búsvæði sjávarspendýra

Aðilar frá 14 löndum sóttu ráðstefnuna og er hún í minni kantinum samanborið við margar aðrar alþjóðlegar ráðstefnur, en rúmlega 100 manns sóttu hana, á Sheraton ráðstefnuhótelið í Puerto Vallarta. Þá var fjallað um hvað hefur áunnist í vinnu við verndarsvæði og hvað hefur miður farið í reynslu ýmissa landa af slíkum svæðum, ýmis tæki og tól gerð aðgengileg fyrir skipulag verndarsvæða, auk þess sem reynsla af ábyrgri hvalaskoðun (e. passive whale watching) var kynnt. En ábyrg hvalaskoðun snýst um að mæta þeim dýrum sem skoðuð eru á forsendum dýranna. Þá er gjarnan farið út á tiltekin svæði og drepið á vél og beðið eftir að dýrin láti sjá sig, í stað þess eltingaleiks, við einn eða fleiri einstaklinga, sem virðist oftar en ekki raunin, þar sem náttúran á til að gleymast í eltingaleik og hraða. Þá var reynslan sú að dýrin væru almennt rólegri og upplifun gesta dýpri ef slík aðferð var notuð og oftar en ekki sýndu dýrin bátunum áhuga þegar bátar voru kyrrir um stund. Reynsla gestanna einskorðast ekki aðeins við fjölda ljósmynda sem teknar eru með heim, heldur er um að ræða einstaka upplifun sem erfitt er að færa í orð.

 

whale_photo_safari-big-1

Mynd: Puerto Vallarta tours

Þá flutti Huld erindi um sögu Hvalasafnsins og sögu og þróun hvalaskoðunar í Skjálfanda og vakti fræðslustarf safnsins sérstaka athygli. Vinnustofan sem Huld kynnti safnið á snerist um mismunandi fræðsluaðferðir og hvernig hægt er að ná til nærsamfélags með fræðslu.

capture