Upphaflega var aðalinngangurinn í safnið þar sem nú er staðsett setustofa með litlu bókasafni. Árið 2010 var farið í miklar framkvæmdir í austurenda hússins en þar hafði áður verið geymsla. Um sumarið opnaði safnið hinn nýja inngang með minjagripasölu en einnig upplýsingamiðstöð sem Húsavíkurstofa sá um að reka. Rekstri formlegrar upplýsingamiðstöðvar var hætt árið 2016 og Húsavíkurstofa flutti úr Hvalasafninu í kjölfarið.

Gamla minjagripabúðin

Nýja minjagripabúðin í austurenda hússins

 

Árið 2010 strandaði steypireyður á Ábúðum á Skaga. Þetta var í fyrsta sinn sem steypireyður strandaði á Íslandi. Nokkrar deilur urðu því um framtíðarstaðsetningu beinagrindarinnar, fyrst og fremst milli Húsavíkur og Reykjavíkur. Í Reykjavík var uppi hugmynd um að hengja grindina upp í Perlunni. Þó nokkuð var um viðtöl og greinar í fjölmiðlum vegna þessa. Ein af stærstu áskorunum Hvalasafnsins á Húsavík við að fá grindina norður var sú að ekki var talið að beinagrind af þessarri stærð passaði inn í sýningarými safnins. Því var fenginn arkitekt til þess að teikna upp viðbyggingu við norðvesturenda safnsins. Hönnunin var vegleg og vitamál að slík bygging yrði áhættusöm fyrir safnið, enda reksturinn að langmestu leyti háður góðri afkomu úr ferðaþjónustu. Sviðsmyndin breyttist þó umtalsvert þegar að grafíski hönnuðurinn Þórarinn Blöndal lagði til að steypireyðargrindin yrði sett saman liggjandi á bakinu í fjörulíki. Þetta þýddi að grindinni mátti koma fyrir á fyrstu hæð safnsins, í salnum þar sem líffræðisýningin hafði verið. Eftir góða samvinnu margra aðila fékkst loks úrskurður frá ríkisstjórninni og tilkynnti forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson um að steypireyðargrindin færi til Hvalasafnsins á Húsavík. Beinagrindin kom til Húsavíkur í september 2015. Safnið var lokað í hálft ár eða allt þar til í mars 2016 vegna uppsetningarinnar. Í upphafi voru bein út um öll gólf og þurfti að hugsa hvert skref vel í samsetningunni enda mátti ekkert út af bregða.

Viðbyggingin sem aldrei varð

Tillaga að innri útliti viðbyggingar

Hönnun Þórarins Blöndal

Samsetning steypireyðargrindarinnar var flókið verk en var afar vel heppnuð