Litið yfir árið 2021

Aðalfundur Hvalasafnsins fór fram í síðustu viku þar sem ársreikningur 2021 var lagður fram til samþykktar og farið yfir starfsemi safnsins á árinu sem leið.

Starfsemi í heimsfaraldri.

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á starfsemi safnsins á síðustu tveim árum, en í mótlæti myndast svigrúm til að koma auga á ný skapandi tækifæri. Tími sem einkenndist af samkomutakmörkunum og lokunum var nýttur í uppbyggingu og endurbótum á jarðhæð safnsins sem hafði ekki verið í notkun í áratugi. Ráðist var í metnaðarfullar endurbætur þar sem veggir voru rifnir út og endurbyggðir, gólf flotuð, drenað meðfram húsinu, múrverk lagað, lagt nýtt rafmagnskerfi, nýtt brunavarnakerfi og fleira.

Í kjölfarið var gerður var leigusamningur við Þekkingarnet Þingeyinga og Fab Lab smiðja hóf starfsemi í nýja rýminu nýlega. Fab Lab kemur af enska orðinu Fabrication Laboratory og er einskonar framleiðslu tilraunastofa. Smiðjan er búin tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og er opin öllum sem vilja þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Samstarf milli Hvalasafnsins og Þekkingarnets Þingeyinga mun halda áfram að vaxa á komandi tímabili en nú standa yfir miklar framkvæmdir sem felast í því að sameina byggingarnar við Hafnarstétt 1 og 3. Með sameiningu verður faglegt samstarf milli stofnana eflst sem mun leiða til nýrra tækifæra á sviði rannsókna og miðlunar.

Hvalaskólinn tók aftur til starfa á árinu við mikla ánægju nemenda sem og starfsmanna safnsins auk þess sem unnið er að því að þróa hvalaskólann og gera hann aðgengilegan á netinu fyrir stærri hóp nemenda um allt land. Safnið leitar nú að samstarfsaðila til þess að þróa stafrænt námsefni fyrir komandi tímabil.

Í Maí heimsótti Eva Björk, framkvæmdastjóri safnsins,  Mjaldragarðinn í Vestmanneyjum og fundaði með Audrey Padgett um möguleika á samstarfi í tenglum við sýningu sem tengist Mjöldrunum.

 

Hömlur í faraldrinum leiddu til þess að Hvalaráðstefnan var í fyrsta sinn send út í beinni útsendingu í gegn um Facebook, þar sem ráðstefnan er enn aðgengileg og hafa 570 mann horft á fyrri útsendingu og 325 á þá seinni. Vanalega hafa um 40-50 manns geta fylgst með ráðstefnunni í sal safnsins.

Safnið fékk styrkveitingar frá Safnaráði fyrir mörgum verkefnum á árinu og gengur vel að vinna að þeim, má þar nefna endurbætur í safnageymslu, skráningu og ljósmyndun á gripum, uppsetning á nýrri sýningu um gróður og líf á grunnsævi og verkun á beinagrind af hnísu sem verður notuð sem kennsluverkfæri.

Hvalasafnið í samstarfi við Whale Wise hélt Ocean Film Festival í fyrsta sinn og voru sýndar myndir sem eru innblásnar af hafinu, bæði valdar heimildamyndir og myndir sem voru gerðar af aðilum sem tengjast vísindasamfélaginu á Íslandi. Viðburðurinn var vel sóttur og skemmtilegur. Á árinu verður hátíðin haldin í annað sinn og verður stærri í sniðinu en áður. Hátíðin er í ár skráð í gagnagrunn fyrir kvikmyndahátíðir og tekur við umsóknum alstaðar að úr heiminum.

Um sumarið var loksins var hægt að prufukeyra sýndarveruleikaupplifun safnsins og gekk það mjög vel. Starfsmaður leiðbeindi gestum í gegn um upplifunina þar sem þeir upplifa að synda í hafinu umhverfis háhyrninga, búrhvali, hnúfubaka, grindhvali, seli og mjaldri. Nú er upplifunin aðgengileg innan safnsins og geta gestur gengið að henni og prófað án aðstoðar starfsmanna.

Í október var sett upp ný listasýning eftir þau Katrina Davis og Jack Cowley og er blanda af list og ljóðum innblásin af reynslu þeirra sem leiðsögumenn í hvalaskoðun við Skjálfanda.

Í desember var haldin jólamarkaður í safninu í samstarfi við Húsavíkurstofu og vakti sá viðburður mikla lukku, bæði meðal söluaðila sem og þeirra sem komu til að versla jólavarning og skoða safnið.

Árið í tölum.

Á árunum fyrir covid var aðsókn í safnið í kring um 30.000 manns á ári. Þegar heimsfaraldurinn skall á féll gestafjöldi niður í 11.000 árið 2020, og jókst upp í 22.000 manns árið 2021.

21% gesta kom frá Bandaríkjunum, 18% voru Íslendingar, 13% Þjóðverjar, 9% frá Frakklandi, 5% frá Ítalíu og 34% frá öðrum löndum.

 

Eins og við var að búast er rekstrarniðurstaðan töluvert betri en árið 2020. Sala aðgöngumiða og minjagripa er að aukast um 32,4 m.kr. milli ára og verkefnastyrkir eru að aukast um 3,5 m.kr. Alls eru tekjur félagsins að aukast um 118%.

EBITDA ársins er 12,7 m.kr. en í fyrra var EBITDA neikvæð um 6,1 m.kr.

Ársreikningur safnsins er nú aðgengilegur á heimasíðu.