Öndun og köfun

Framúrskarandi kafarar

Flest sjávarspendýr kafa lengi og niður á mikið dýpi í leit að fæðu. Einkum eru tannhvalir framúrskarandi kafarar, sumar tegundir þeirra kafa niður á 3.000 m dýpi og eru neðansjávar lengur en 2 klst.

 

 Öndun og blástur

Menn anda um 15 sinnum á mínútu en hvalir einungis þrisvar á mínútu í hvíld. Þeir halda andanum lengur og nýta súrefni mjög vel eða um 90% úr hverjum andardrætti, landspendýr nýta einungis 4% til 20%. Hvalir koma upp á yfirborðið eftir djúpköfun til að draga andann þrisvar til fimm sinnum í röð. Heitur andardráttur þeirra þéttist þegar hann kemur út í andrúmsloftið og myndar gufustróka  sem kallast blástur. Hæð og lögun blásturs skíðishvala er einkennandi og má nota til að greina milli tegunda.

 

 Sund

Hvalirnir knýja sig áfram með sporðinum sem þeir hreyfa upp og niður með sterkum vöðvum sem eru rétt framan við sporðblöðkuna. Hreyfingin nær til alls neðrihluta líkamans. Lögun sporðblöðkunnar dregur úr mótstöðu vatns og stuðlar að lyftingu í uppsveiflu.