Hnísa

   Hnísa
(Phocoena phocoena)

Lengd

kýr 1,6 m/tarfar 1,5 m

Þyngd

kýr 77 kg/tarfar 52 kg

Blástur

Lítt áberandi

Öndun

 1 – 6 mín

Dýpi

kafar grunnt

Fæða

fiskur, smokkfiskur og smærri hryggleysingjar

Hámarksaldur

 6-20 ár, sjaldan eldri en 10 ár

Staða stofns

viðkvæm

Helstu einkenni

Hnísan er minnsti hvalurinn við Ísland og meðal minnstu hvala í heiminum. Skrokkurinn er fremur kubbslegur og ummál mikið miðað við lengd. Bak, sporður og bægsli eru dökkgrá en kviður ljós og teygir ljósi liturinn sig upp á síður. Dökk rák liggur frá bægsli að auga. Hornið er meðalstórt og þríhyrningslaga staðsett á miðju baki. Bægslin eru smá og ávöl, sporðblaðkan er sveigð og greinileg rauf í hana miðja. Tannapör í hvorum góm, efri og neðri, eru 19 til 28.

 

Hegðun

Hnísur eru hlédrægar og laðast ekki að bátum eins og höfrungar gera gjarnan. Þær stinga höfðinu rétt upp fyrir hafflötinn til að anda en stökkva ekki. Oftast eru hnísur einar á ferð eða í pörum, fyrir kemur að þær sjást í litlum hópum, allt að sex dýr í einu.

 

 

Veiðar og stofnstærð

Þar sem hnísur halda sig mest við strendur eru þær auðveld bráð og hafa verið veiddar í aldaraðir bæði skutlaðar og veiddar í grófriðin net, hnísur eru veiddar til manneldis við Grænland. Þó hnísur séu enn algengar við Ísland hefur þeim fækkað nokkuð. Hnísu stafar helst hætta af að flækjast í fiskinet, eyðileggingu búsvæða og mikilli skipaumferð. Stofnstærð í Norður Atlantshafi er áætluð um hálf milljón dýra.