Hvalveiðar nú

Veiðar hefjast aftur í upphafi árs 2009

Í lok janúar 2009 gaf  Einar K. Guðfinnsson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra út heimild til veiða á allt að 150 langreyðum og 100 hrefnum á ári til fimm ára eða 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013. Jafnframt var gefin út eftirfarandi reglugerð:

27. janúar 2009

REGLUGERÐ

um breyting á reglugerð nr. 163, 30. maí 1973, um hvalveiðar, með síðari breytingum.

1. gr.

2. ml. 1. gr. orðist svo:

Leyfi til veiða á hrefnu árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013 skal veita þeim íslensku skipum, sem eru í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila, sem hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni á árunum 2006-2008 eða félaga sem þeir hafa stofnað um slíka útgerð. Einnig er heimilt að veita leyfi þeim einstaklingum eða lögaðilum sem að mati ráðherra hafa sambærilega reynslu af útgerð á hrefnuveiðum í atvinnuskyni. Eingöngu þeim skipum sem sérútbúin eru til veiða á stórhvölum er heimilt að taka þátt í veiðum á langreyði árin 2009, 2010, 2011, 2012 og 2013.

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 4. gr. laga nr. 26 3. maí 1949, um hvalveiðar, til að öðlast þegar gildi. Sjá jafnframt viðauka sem birtur er sem fylgiskjal við reglugerð þessa.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 27. janúar 2009.

Einar K. Guðfinnsson.

B-deild – Útgáfud.: 27. janúar 2009

Dóms- og kirkjumálaráðuneytið – Stjórnartíðindi – Skuggasundi, 150 Reykjavík
Sími 545 9000 – Bréfasími 552 7340 – Netfang: stjornartidindi@dkm.stjr.is
Skömmu síðar tók Steingrímur J. Sigfússon við ráðuneytum sjávarútvegs og landbúnaðar, hann gagnrýndi ákvörðun fyrirrennara síns harðlega og leitaði leiða til að snúa henni við. Þann 18. febrúar tilkynnti Steingrímur J. Sigfússon að  ákvörðun Einars K. Guðfinnssonar stæði varðandi árið 2009 en allt væri óvíst um veiðiheimildir komandi ári. Grundvöllur hvalveiðanna yrði endurmetinn fyrir undirbúning vertíðar ársins 2010. Skipuð var þriggja manna nefnd til að endurskoða lög um hvalveiðar en núgildandi lög eru frá 1949. Afmörkuð verða svæði til hvalaskoðunar, þar sem með öllu verður óheimilt að stunda hvalveiðar.

 

Veiðar í atvinnuskyni á Íslandi 2006-2007
Þann 17. október 2006 tilkynnti sjávarútvegsráðherra að Ísland hæfi hvalveiðar í atvinnuskyni að nýju. Gefinn var út kvóti til veiða á 9 langreyðum og 30 hrefnum í þeirri von að flytja mætti kjötið til Japan.  Fljótlega eftir tilkynninguna lögðu tuttugu og fimm þjóðir fram formleg mótmæli við ákvörðuninni. Þó þessir hvalir séu fremur algengir við Ísland eru þeir á alþjóðlegum válista um dýr í útrýmingarhættu. Þrátt fyrir öll mótmæli höfðu 7 langreyðar og 7 hrefnur verið veiddar í lok vertíðar.
Á meðan að beðið var niðurstöðu rannsókna á mögulegum eiturefnum í þessu nýveidda hvalkjöti fullyrtu forsvarsmenn Hvals að Japanskir kaupendur biðu í röðum. Ári eftir að fyrsti hvalurinn var veiddur voru öll 100 tonnin af langreyðarkjötinu enn óseld. Kjötið seldist að lokum á árinu 2008. Í ágúst 2007 tilkynnti sjávarútvegsráðherra skyndilega að ekki yrðu gefnir út kvótar vegna hvalveiða í atvinnuskyni vegna ársins 2008 þar sem enginn markaður væri fyrir hvalkjöt. Í kjölfar gagnrýni frá hvalveiðisinnum endurskoðaði hann ákvörðun sína daginn eftir og gaf út heimildir til takmarkaðra hrefnuveiða fyrir innanlandsmarkað.

 

 

Veiðar í vísindaskyni 2003-2007

Ísland hefur lagt fram tvær áætlanir  um hvalveiðar í vísindaskyni í samræmi við sérstaka heimild frá Alþjóðahvalveiðiráðinu (IWC). Nýjasta áætlunin gerði ráð fyrir veiðum á 100 langreyðum, 100 hrefnum og 50 sandreyðum á árunum 2003 og 2004. Þessi áætlun olli miklum umræðum innan vísindanefndar Alþjóðahvalveiðiráðsins. Vísindamenn rökræddu gildi þessara rannsókna, aðferðafræðina og hvaða áhrif veiðarnar hefðu á hvalastofnana. Að endingu var gefin út heimild til veiða á 200 hrefnum á fimm ára tímabili eða frá 2003 til 2007 að báðum árum með töldum. Taflan sýnir fjölda hvala sem voru veiddir árlega.

Hvalir veiddir samkvæmt sérstakri heimild 2003 – 2007

Ár

Hrefnur

2003

37

2004

25

2005

39

2006

60

2007

39

Alls

200

Í júní 2006 fór vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins yfir skýrslu um vísindaveiðar Íslendinga. Þá var búið að veiða 101 hrefnu. Aðferðir við sýnatöku ullu áhyggjum þar sem nær öll dýrin höfðu verið veidd nærri landi. Forsvarsmenn rannsóknarinnar skelltu skuldinni á slæmt verður sem gerði það ómögulegt að veiða fjær landi. Vísindanefndin samþykkti að þau 99 dýr sem eftir var að veiða samkvæmt heimildinni yrði að veiða fjær landi til þess að tryggja trúverðugleika og nákvæmni rannsóknarinnar. Upphaflegu  veiðisvæðin voru ákvörðuð út frá stofnstærðarmati sem byggði á talninga úr lofti á árunum 1986 til 2001. Þéttleiki hrefnu fjær ströndinni var þó ekki eins mikill og talningar höfðu bent til. Annað áhyggjuefni var hversu oft hvalir sem búið var að skjóta töpuðust. Árið 2005 töpuðust 5 af 39 dýrum sem voru veidd  (13%) og ekki tókst að rannsaka þá.

Á heimasíðu Alþjóðahvalveiðiráðsins má sjá skýrsluna í heild sinni. Kaflin um Ísland er um 3 bls. langur og hefst á bls. 72, Vísindaveiðum Íslendinga lauk árið 2007 með veiðum á 39 hrefnum.

Við upphaf vísindaveiðanna 2003 var því lofað að hvalveiðibátarnir héldu sig fjarri hvalaskoðunarsvæðum. Ljóst er að sú varð ekki raunin. Þar sem hvalaskoðun við Ísland byggir að stórum hluta á hrefnum hafa menn verulegar áhyggjur af áhrifum veiðanna á fjölda hvala og hegðun þeirra á einstökum svæðum.

Innanlandsmarkaður

Könnun sem gerð var af Gallup 2007 sýndi að þá höfðu 86% íslendinga ekki keypt hvalkjöt síðustu 12 mánuði. Hlutfallið hækkaði í 96% væri miðað við aldurshópinn 16 til 24 ára sem bendir til að í framtíðinni verði íslenskur markaður fyrir hvalkjöt jafnvel enn minni en hann er í dag.