Hvalreki í Skjálfandaflóa

Hræ af ungri andarnefju (Hyperoodon ampullatus) rak nýverið á land við Skeifárbás, rétt fyrir neðan Skeifárfoss í landi Ytri-Tungu.
Starfsmaður Hvalasafnsins á Húsavík fór á vettvang og staðfesti að dýrið hefði legið dautt í einhvern tíma, miðað við ástand hræjarins.

Andarnefjur eru meðalstórir tannhvalir sem geta náð tæplega 10 metra lengd. Þessi einstaklingur mældist einungis um 3,3 metrar, sem bendir til að um kálf hafi verið að ræða. Athygli vekur að andarnefjur eru fremur sjaldséðar við Ísland, þó svo að hér verði vart við þær nánast árlega. Venjulega staldra þær þó stutt við.

Sumarið í ár hefur hins vegar verið undantekning. Reglulega hefur sést til andarnefjuhóps í Skjálfandaflóa og virtist sem svo að særður kálfur væri meðal þeirra. Síðast sást til kálfsins 1. september, en hann virtist þá veikburða og með áverka sem mögulega má rekja til áreksturs við bát.

Talið er líklegt að hræið sem nú hefur rekið á land sé einmitt af þessum kálfi. Hafrannsóknarstofa hefur verið látin vita af hvalrekanum og mun starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík og Rannsóknarstofu HÍ fara á næstu dögumog taka sýni og mæla hvalinn.