Fleiri hvalrekar á Norðurlandi

Tvær fullvaxta andarnefjur (Hyperoodon ampullatus) rak á land í Öxarfirði í gærkvöldi, við Lónsós í landi Auðbjargarstaða.

Starfsmaður Hvalasafnsins á Húsavík, Garðar Þröstur Einarsson, fór á vettvang ásamt Dr. Charla Basran frá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands. Þá voru einnig viðbragðsaðilar frá Lögreglunni á Norðurlandi eystra og Björgunarsveitinni Garðari mættir á staðinn.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu barst tilkynning um hvalreka um klukkan 19:00. Viðbragðsaðilar voru þegar kallaðir út og opinberir aðilar látnir vita. Þegar að var komið voru dýrin enn á lífi, en létust skömmu síðar.

Við athugun kom í ljós að um var að ræða tvö fullvaxta karldýr. Rannsóknarnemi frá Háskóla Íslands gat staðfest að sömu einstaklingar hefðu sést í sumar í Skjálfandaflóa.

Ekki liggur fyrir hvað olli strandinu. Síðar í dag mun starfsfólk Rannsóknarseturs Háskóla Íslands, í samstarfi við Hafrannsóknastofnun, framkvæma sýnatökur til að afla frekari upplýsinga.