Nú á dögunum sótti verkefnastjóri safnsins, Huld Hafliðadóttir, ráðstefnu í Mexíkó á vegum Alþjóðlegrar nefndar um verndarsvæði sjávarspendýra: International Committee on Marine Mammal Protected Areas. Þar tók Huld þátt í dagskrá ráðstefnunnar fyrir hönd safnsins og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík, en Huld hefur undanfarin misseri kynnt sér slík verndarsvæði í samvinnu við aðrar rannsóknastofnanir. Um er að ræða svæði sem heyra til mikilvægra búsvæða hvala og annarra sjávarspendýra, hvort sem um ræðir fæðustöðvar eða mökunar- og uppeldisstöðvar þeirra, sem vernda þarf gegn ágangi mannfólks.
Á flestum stöðum í heiminum, þar sem hvali er að finna yfir ákveðin tímabil og þá sérstaklega þar sem hvalaskoðun er stunduð má finna einhvers konar ákvæði eða umgengnisreglur af þessu tagi, þá í formi fjölda- og hraðatakmarkana báta, en einnig er ákveðinni fjarlægð viðhaldið þegar nálgast á dýrin.
Aðilar frá 14 löndum sóttu ráðstefnuna og er hún í minni kantinum samanborið við margar aðrar alþjóðlegar ráðstefnur, en rúmlega 100 manns sóttu hana, á Sheraton ráðstefnuhótelið í Puerto Vallarta. Þá var fjallað um hvað hefur áunnist í vinnu við verndarsvæði og hvað hefur miður farið í reynslu ýmissa landa af slíkum svæðum, ýmis tæki og tól gerð aðgengileg fyrir skipulag verndarsvæða, auk þess sem reynsla af ábyrgri hvalaskoðun (e. passive whale watching) var kynnt. En ábyrg hvalaskoðun snýst um að mæta þeim dýrum sem skoðuð eru á forsendum dýranna. Þá er gjarnan farið út á tiltekin svæði og drepið á vél og beðið eftir að dýrin láti sjá sig, í stað þess eltingaleiks, við einn eða fleiri einstaklinga, sem virðist oftar en ekki raunin, þar sem náttúran á til að gleymast í eltingaleik og hraða. Þá var reynslan sú að dýrin væru almennt rólegri og upplifun gesta dýpri ef slík aðferð var notuð og oftar en ekki sýndu dýrin bátunum áhuga þegar bátar voru kyrrir um stund. Reynsla gestanna einskorðast ekki aðeins við fjölda ljósmynda sem teknar eru með heim, heldur er um að ræða einstaka upplifun sem erfitt er að færa í orð.
Þá flutti Huld erindi um sögu Hvalasafnsins og sögu og þróun hvalaskoðunar í Skjálfanda og vakti fræðslustarf safnsins sérstaka athygli. Vinnustofan sem Huld kynnti safnið á snerist um mismunandi fræðsluaðferðir og hvernig hægt er að ná til nærsamfélags með fræðslu.