Laugardaginn 12. mars sl. opnaði Hvalasafnið á Húsavík aftur dyrnar fyrir gestum og gangandi eftir sex mánaða lokun. Safnið hefur gengið í gegnum miklar breytingar síðustu sex mánuði. Steypireyðin sem rak á land við jörðina Ásbúðir á Skaga árið 2010 er komin upp til sýningar og var gestum boðið að skoða nýju sýninguna sem vakti mikla lukku þeirra 300 gesta sem áætlað er að hafi lagt leið sína inn á safnið þann dag. Gestum var boðið upp á veglagar veitingar í tilefni enduropnunar safnsins þar sem hvalatertan sló í gegn. Þar sem ekki eru til margar beinagrindur af steypireyði í heiminum er þetta einstakur fengur fyrir safnið að vera með slíka grind til sýningar og við vonum að sem flestir sjái sér fært að koma og skoða nýju sýninguna. Það er opið á safninu frá klukkan 9-14 alla virka daga og einnig verður frítt inn á safnið dagana 14-18 mars.
Með fréttinni fylgja myndir sem Egill Ingibergsson sviðshönnuður tók af sýningunni. Smellið á myndirnar til að stækka þær