01.03.2019
Í morgun 1. mars hófst hvalaskoðunarvertíðin á Húsavík. Það voru Gentle Giants og Norðursigling sem riðu á vaðið á eikarbátum sínum Sylvíu og Náttfara. Ferðirnar voru ágætlega sóttar og sjólag hið þokkalegasta miðað við árstíma.
Þetta er 25 árið í röð sem skipulagðar hvalaskoðunarferðir eru í boði frá Húsavík. Fyrsta árið komu afar fáir en líkt og alþjóð veit hefur greinin vaxið gríðarlega og hafa mest komið 110 þúsund manns í hvalaskoðun á sömu vertíðinni.
Í tilefni af þessum tímamótum veitti Eva Björk Káradóttur forstöðumaður Hvalasafnins á Húsavík forsvarsmönnum fyrirtækjanna blómvönd og vatnslitamynd af hnúfubak eftir spænsku listakonuna Renu Ortega. Hvalasafnið hefur ávallt verið í góðu samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin. Meðal annars fá gestir í hvalaskoðun 20% afslátt af aðgöngumiða inn á safnið. Margir nýta sér þau kjör og eru því hagsmunir Hvalasafnsins af góðu samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin óumdeildir. Ætla má að 2/3 af heildargestum safnsins yfir árið séu að koma úr hvalaskoðun á Skjálfandaflóa.