Eva Björk Káradóttir ráðinn framkvæmdastjóri Hvalasafnsins

Stjórn Hvalasafnsins á Húsavík hefur ráðið Evu Björk Káradóttur í starf framkvæmdastjóra safnsins frá og með 1. september nk. Hún tekur við starfinu af Valdimari Halldórssyni, sem lætur af störfum í lok vikunar. Alls bárust sjö umsóknir um stöðuna. Eva er með M.A. gráðu í menningarstjórnun og hefur á undanförnum árum starfað við verslunar- og viðburðastjórnun, ásamt ferðaþjónustu. Eva, sem er uppalin á Neskaupsstað, er nýlega flutt til Húsavíkur ásamt eiginmanni sínum.

Um leið og stjórn býður Evu velkomna til starfa hjá Hvalasafninu þakkar hún öðrum umsækjendum um stöðu framkvæmdastjóra fyrir sýndan áhuga. Þá þakkar stjórn fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf í þágu safnsins og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

 

 

Ný sýning í listarými Hvalasafnsins

Spænska listakonan Renata Ortega hefur nú sett upp sýningu þar sem hún hefur málað og teiknað sínar eigin útgáfur af helstu hvölum sem eiga heimkynni sín í Íslandshöfum.

Renata hefur einnig séð um hönnun á nýjum bæklingi Hvalasafnsins og skreytt tvo aðra veggi safnsins með sínum áhugaverða stíl.
Sýning Renötu ber heitið „Ocean & the Whales“ og verður opin í a.m.k. eitt ár fram til júlí 2019.

Í listarými safnsins hafa nokkrir aðrir listamenn sýnt verk sín á síðustu árum. Síðast var það Marine Rees sem vann úr hvalbeinum grindhvala. Þar áður sýndi Sonia Levy verk sín. Sýning Renötu er opin á opnunartíma Hvalasafnsins.

Safnið er opið alla daga frá kl 8:30-18:30 í sumar.

Renata í listarými safnsins

Glæsilegt Íslandskort Renötu

Hafmeyjur hinna ýmsu þjóða skreyta vegginn

Renata í listarými safnsins

Heiðar ráðinn til Hvalasafnsins

Heiðar Hrafn Halldórsson hefur ráðinn verkefnastjóri hjá Hvalasafninu á Húsavík þar sem hann mun sinna hinum ýmsu störfum.
Heiðar er með B.Sc próf í Ferðamálafræði og sálfræði frá Háskóla Íslands. Hann er einnig málari að mennt.
Undanfarin ár hefur Heiðar gegnt stöðu verkefnisstjóra hjá Húsavík Adventures sem og stjórnarformennsku í Húsavíkurstofu þar sem hann var einnig forstöðumaður árin 2015-2016.
Starfsfólk og stjórn Hvalasafnsins býður Heiðar velkominn til starfa – hann mun hefja störf um miðjan júlí nk.

Hvalaskoðunarvertíðin frá Húsavík fer líflega af stað

Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík hófust í byrjun marsmánaðar.  Veður hefur verið þokkalegt og aðsókn með ágætum.  Tvö hvalaskoðunarfyrirtæki, Norðursigling og Gentle Giants, sigla nú daglega með ferðamenn útá Skjálfanda. Vertíðin fer vel af stað og margar tegundir hafa sést síðustu daga enda hefur æti verið mikið í flóanum og t.a.m. mikil loðna verið á ferðinni undanfarið.  Í dag sáust þrjár stórhvalategundir í einni og sömu ferðinni, langreyðar, hnúfubakur og sandreyð. Þá hafa einnig sést háhyrningar og höfrungar á Skjálfanda síðustu daga.

langreyður

Langreyður á Skjálfanda. Mynd: Garðar Þröstur Einarsson

Fréttir af ársfundi 2018

Ársfundur Hvalasafnsins
Ársfundur Hvalasafnsins fór fram 8. mars 2018.  Framkvæmdastjóri flutti skýrslu um starfsemi safnsins á árinu 2017.  Þar kom fram að starfsemin gekk heilt yfir vel á árinu. Safnastarfsemin var fjölbreytt og bar hæst opnun á nýrri sýningu um sögu hvalveiða og hvalaskoðunar í október 2017.  Árlega Hvalaráðstefnan fór fram í lok júní og tókst vel. Hvalaskólinn starfaði að venju og heimsóttu krakkar úr Borgarhólsskóla og frá leikskólanum Grænuvöllum Hvalasafnið og unnu verkefni af því tilefni. Ýmislegt annað bar á góma í starfsemi safnsins, t.d. ýmsir fundir og heimsókn sendiherra Bankaríkjanna og loks fór starfsfólk safnsins í tvær kynnisferðir erlendis á árinu.

Viðhald og framkvæmdir
Í upphafi árs 2017 var hafist handa við að steypa nýtt gólf og endurnýja lagnir í kjallara safnsins vegna vatnsleka.  Verkið reyndist umfangsmikið og þurfti að steypa sérstakan styrktarvegg við burðarvegg vegna vatnsskemdanna. Í júnímánuði seldi Hvalasafnið hluta jarðhæðar safnsins til Steinsteypis ehf að undangenginni auglýsingu.  Um er að ræða laus rými sem áður hýstu frystigeymslur.  Í ljós kom við niðurrif á einangrun á þessum hluta hússins að burðurinn í húsinu var lítill.  Það þýddi að eigendur hússins, Hvalasafnið og Steinsteypir, tóku höndum saman og fjármögnuðu miklar steypustyrkingar á húsinu í hlutfalli við eignarhlut hvors aðila. Þessi vinna var unnið eftir ráðgjöf frá Mannvit.
Tvær viðbyggingar við Hvalasafnið sem snéru til norðurs voru rifnar undir lok árs 2017 enda var ástand þeirra slæmt.  Þessar viðbyggingar eru staðsettar á framtíðarbyggingarreit í eigu Hvalasafnsins. Til stendur að ganga frá þessari lóð til norðurs og verður hún nýtt sem bílastæði og aðkeyrsla að geymslum safnsins að norðanverðu.


Afkoma og gestafjöldi
Aðsókn á safnið var góð á árinu og var áþekk frá árinu áður og voru gestir ríflega 34.000.  Rekstur Hvalasafnsins gekk vel á árinu 2017.  Tekjur námu ríflega 75 m.kr og hagnaður ársins nam 10,7 m.kr.  Til samanburðar nam hagnaður ársins 2016 um 8 m.kr.  Eigið fé Hvalasafnsins hefur aukist á síðustu árum og nam í árslok 2017 um 90 m.kr. Hér má sjá afrit af ársreikningi 2017.


Stjórn kjörin
Stjórn Hvalasafnsins var á ársfundinum kjörin fyrir árið 2018. Samkvæmt samþykktum Hvalasafnsins skulu Menningarmiðstöð Þingeyinga, Norðurþing, Húsavíkurstofa og Rannsóknarstofnanir í Þingeyjarsýslum skipa fulltrúa í stjórn.  Eftirtaldir skipa stjórnina fyrir árið 2018:
Þorkell Lindberg Þórarinsson, formaður
Heiðar Hrafn Halldórsson
Sif Jóhannesdóttir
Jónas Einarsson

Ársfundur Hvalasafnsins

Ársfundur Hvalasafnsins á Húsavík verður haldinn fimmtudaginn 8. mars kl 10:00 í fundarsal Hvalasafnsins.

Dagskrá:

Hefðbundin aðalfundarstörf

Önnur mál

Fundurinn er opinn öllum.

Sumarið er loksins komið

Sumarið er hafið á Hvalasafninu og opnunartíminn lengist samhliða því. Í maí verður opið frá kl 9-18 alla daga vikunnar. Í júní, júlí og ágúst verður hins vegar opið frá kl 8:30-18:30. Í september verður svo opið frá kl 9-18 alla daga. Verið velkomin á safnið!

opnunartíminn 2

Hvalasafnið selur hluta frystirýma

Hvalasafnið á Húsavík og Steinsteypir ehf hafa komist að samkomulagi um kaup þess síðarnefnda á um 255 fm af lausum rýmum á 1. hæð (jarðhæð) í húsakynnum Hvalasafnsins.  Um er að ræða þau rými sem snúa að hafnarstéttinni og voru áður frystirými um árabil en hafa að undanförnu staðið tóm. Kaupfélag Þingeyinga átti og rak frystirýmin lengst af en síðasti leigjandi þeirra var Norðlenska hf.  Hvalasafnið mun áfram eiga rými á jarðhæð sem hýst hafa geymslur safnsins og nú er unnið að endurbótum á.  Auk þess mun Hvalasafnið áfram eiga annað geymslurými á jarðhæð sem áður var leigt út.

Ferðaþjónustutengd starfsemi
Að hálfu Steinsteypis ehf stendur til að gera upp þessi rými á vandaðan hátt og nýta hluta þeirra í rekstur á salernisaðstöðu fyrir ferðamenn. Önnur rými verða hönnuð fyrir ýmsa ferðaþjónustutengda starfsemi. Staðsetning rýmanna við hafnarstéttina er góð og með þessu kemst líf í umrædd rými sem staðið hafa tóm um nokkurt skeið.

Viðbyggingar verða rifnar
Samhliða þessum viðskiptum mun Steinsteypir ehf taka að sér niðurrif á tveimur viðbyggingum (samtals um 160 fm) við hús Hvalasafnsins sem báðar eru eign safnsins. Þessar viðbyggingar tilheyrðu frystirýmastarfsemi og eru þær nú í mjög lélegu ásigkomulagi. Við þetta mun byggingaréttur Hvalasafnsins til norðurs stækka umtalsvert.

House outside 1

Steypireyður í Skjálfanda

Undanfarin ár hafa steypireyðar gert sig heimakomna í ætisleit á Skjálfanda síðla vetrar og á vorin. Besti tíminn til að sjá steypireyðar á Skjálfanda hefur verið í maí og júní en eftir það synda þær út úr Skjálfanda. Þeir sem fara í hvalaskoðun frá Húsavík á vorin og snemmsumars eru í þeirri einstöku stöðu að geta mögulega séð lifandi steypireyði í nágvígi á Skjálfanda og farið svo á Hvalasafnið á eftir og séð hvernig beinagrind þessa stærsta spendýrs í heimi lítur út. Húsavík er því eins konar heimastaður steypireyðarinnar hvað þetta varðar.

Síðustu daga hefur steypireyður sést á Skjálfanda. Í dag sáu t.d. gestir á hvalaskoðunarbát Norðursiglingar steypireyði á miðjum Skjálfanda. Til gamans má geta þess að steypireyður sást nánast á sama degi marsmánaðar í fyrra.

 

17239817_10154914559216183_1063177554057721316_o

Ljósmynd fengin frá Norðursiglingu, tekin 13.03.2017

 

Gott ár að baki hjá Hvalasafninu

Ársfundur Hvalasafnsins á Húsavík ses. fór fram í dag, þar sem ársreiknungur  fyrir árið 2016 var samþykktur.  Reksturinn gekk vel á árinu. Rekstrartekjur námu tæpum 80 milljónum kr. og hagnaður ársins nam 8 milljónum kr.  Rekstrartekjur jukust um 30% á árinu 2016.  Það skýrist af stærstu leyti af aukinni aðsókn á safnið. Gestafjöldinn á safnið var ríflega 36.000 á árinu 2016 en var 26.000 árið 2015. Tekjur af miðasölu og minjagripasölu jukust umtalsvert vegna þessa. Styrkir vegna einstakra samstarfsverkefna jukust einnig en þeim verkefnum fylgja einnig talsverð rekstrarútgjöld. Hagnaður ársins (8,0 m.kr) var eilítið lægri en árið á undan (10,5 m.kr).  Rekstrargjöld jukust á heildina litið á árinu 2016. Ný steypireyðarsýning var opnuð á árinu. Uppsetning og hönnun á þeirri sýningu var kostnaðarsöm eins og vitað var. Hluti kostnaðarins var eignfærður en hluti gjaldfærður. Starfsmönnum á heilsársvísu var fjölgað á árinu. Sú ákvörðun var nauðsynleg í ljósi aukinna umsvifa á safninu. Þá fylgdi því nokkur kostnaður þegar slökkt var á frystirýmum á jarðhæð og þau tæmd.

tafla

Góð aðsókn
Góð aðsókn var á safnið á árinu 2016 og eru ýmsar skýringar á því.   Ný steypireyðarsýning sem opnuð var á árinu vakti mikla athygli og fékk safnið mikil jákvæð viðbrögð safngesta í kjölfar opnunar sýningarinnar í marsmánuði 2016.  Þá hafði almenn aukning í komum á erlendum ferðamönnum til Húsavíkur jákvæð áhrif á aðsóknina. Hvalasafnið á í góðu samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík þar sem viðskiptavinir þeirra fá afslátt á aðgöngumiðum á Hvalasafnið gegn því að vísa fram miða í hvalaskoðun. Þetta fyrirkomulag hefur skilað auknum fjölda gesta á safnið. Loks skipti miklu máli að Hvalasafnið jók á árinu tengsl og samstarf við helstu ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir erlendra ferðamanna um landið.

Fræðslustarf
Fræðslustarf á safninu hefur verið í blóma og gekk vel á árinu 2016. Fjölmargir skólahópar á öllum skólastigum heimsóttu safnið og var Hvalaskólinn á sínum stað með sína árlegu fræðslu og sýningu á verkum nemenda á vormánuðum. Svokallað New Bedford verkefni, þar sem Hvalasafnið og Hvalveiðisafnið í New Bedford, í Massachusetts, Bandaríkjunum unnu saman í gegnum safnasamstarf og ungmennaskipti gekk vel. Í apríl heimsótti Bandaríski nemendahópurinn Húsavík og í lok maí fór Húsvíski hópurinn utan. Má segja að verkefnið hafi gengið vonum framar og munu söfnin tvö halda áfram að styrkja tengslin sín á milli. Þá var árleg Hvalaráðstefna haldin í 3ja sinn og var hún afar vel sótt, en yfir 70 gestir mættu.

Framkvæmdir
Í janúar og febrúar í ár er vinna í gangi á safninu við að uppfæra svokallaða hvalveiðisýningu á safninu. Sýningunni verður breytt í hvalnýtingarsýningu þar sem hvalaskoðun verður gerð betri skil við hlið hvalveiðisýningar þar sem sögu hvalveiða við Ísland verður áfram rakin. Þórarinn Blöndal sýningarhönnuður hefur umsjón með þessari nýju sýningu líkt og með steypireyðarsýningunni í fyrra. Þá eru nú í gangi framkvæmdir í geymslurými safnsins á jarðhæð. Skipta þarf um gólf og jarðveg þar sem vatn hafði um árabil lekið inn í gegnum burðarvegg og gert það að verkum að rýmið var orðið ónothæft. Á næstu árum mun áfram þurfa að sinna viðhaldi af ýmsu tagi í sýningum á safninu.  Auk þess mun áfram þurfa að sinna viðhaldi af ýmsu tagi á á ytri byrði hússins.

Stjórn kjörin
Hvalasafnið er viðurkennt safn samkvæmt ákvörðun Safnaráðs og er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin á hagnaðarskyni.  Samkvæmt samþykktum safnsins er kjörið í stjórn eftir tilnefningu frá sveitarfélaginu Norðurþingi, aðilum í ferðaþjónustu á Húsavík, rannsóknarstofnunum á svæðinu og loks tilnefnir Menningarmiðstöð Þingeyinga fulltrúa í stjórn.

Á ársfundinum voru eftirtaldir kjörnir í stjórn:
Margrét Hólm Valsdóttir
Sif Jóhannesdóttir
Heiðar Hrafn Halldórsson
Þorkell Lindberg Þórarinsson