Bjarni Benediktsson breytti afstöðu sinni til afgreiðslu á umsókn Hvals hf. um hvalveiðileyfi

Samkvæmt frétt RÚV frá 8. apríl 2025 taldi Bjarni Benediktsson sig upphaflega vanhæfan til að afgreiða umsókn Hvals hf. um hvalveiðileyfi vegna tengsla við fyrirtækið. Síðar breytti hann afstöðu sinni og taldi sig hæfan til að taka ákvörðun í málinu. Þetta vakti athygli og umræður um hæfi ráðherra til að taka ákvarðanir í málum þar sem persónuleg tengsl kunna að vera til staðar.


Hvalasafnið á Húsavík hefur á síðustu vikum unnið að uppfærslu á sýningu sinni um sögu Hvalveiða á Íslandi, enda hefur sú saga verið í mikilli þróun síðustu árin. Við hvetjum fólk sem hefur áhuga á að heimsækja okkur og skoða nýju sýninguna.

Friðun hnúfubaks

Formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS, áður LÍÚ), Ólafur H. Marteinsson, sagði við Morgunblaðið 14. mars að „Hvað loðnustofninn varðar þá liggur algerlega í augum uppi að menn þurfa að taka miklu meira tillit til afráns hvalastofna en gert hefur verið.“ En bætir við að hnúfubakur sé reyndar friðaður og því bannað að skjóta hann.

Alþjóðahvalveiðiráðið friðaði hnúfubak í Norður-Atlantshafi haustið 1954. Ísland gerði ekki fyrirvara við þá ákvörðun Hvalveiðiráðsins og er því bundið af henni. Á hinn bóginn mótmælti Ísland friðun steypireyðar í Norður-Atlantshafi þegar Hvalveiðiráðið friðaði þá tegund ári síðar, en íslensk stjórnvöld drógu þau mótmæli til baka árið 1960 þegar 37 steypireyðar höfðu verið skotnar í trássi við samþykkt ráðsins.

 

Breytingar á vísindaáætlun 1986

Á fundi Alþingis 17. mars 1986 gerði þáverandi sjávarútvegsráðherra grein fyrir breytingum á fyrirhugaðri áætlun um veiðar á hvölum í vísindaskyni. Ein breytingin, númer 9, var að „Áætlanir um hugsanlegar tilraunaveiðar á friðuðum hvalategundum, svo sem hnúfubak og steypireyði, hafa verið felldar úr áætluninni.“

Ísland varð aðili að Alþjóðahvalveiðiráðinu á ný árið 2002 eftir 10 ára fjarveru. Við inngönguna setti Ísland einhliða skilyrði um að landið skyldi ekki bundið af ákvörðun ráðsins frá árinu 1982 um bann við hvalveiðum (núllkvóti), sem tók gildi árið 1986 í Norður-Atlantshafi. Engin fyrirvari var þó gerður við fyrrgreinda ákvörðun Hvalveiðiráðsins frá árinu 1954 um friðun hnúfubaks. Hið sama gilti um friðun steypireyðar, sem Ísland féllst á árið 1960.

Það er því tómt mál að tala um veiðar á hnúfubak til að telja loðnur í maga dýrsins. Slíkar aðferðir hafa ekki gefið góða raun. Til dæmis má benda á svar sjávarútvegsráðherra, Einars K. Guðfinnssonar,  í september 2008 við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um um „vísindaveiðar [svo] á hrefnu“.

Hið stutta svar ráðherrans var: „Ekki er tímabært að setja fram tölur um heildarafrán hrefnunnar á einstökum fæðutegundum fyrr en að lokinni fullnaðarvinnslu sýna og að teknu tilliti til svæðisbreytileika o.fl. í fjölstofnalíkani. Þó er ljóst að þorskur, ýsa og annar bolfiskur virðist vera mun hærra hlutfall á matseðli hrefnunnar en áður var talið, a.m.k. á umræddu árabili.“

Ráðherrann upplýsti Alþingi einnig um, að frumkvæði Jóns Gunnarssonar, að ekki lægi fyrir „hvenær niðurstöður birtast, enda um flókið verkefni að ræða þar sem m.a. þarf að taka tillit til breyttra aðstæðna á Íslandsmiðum undanfarin missiri.“

Mörg hundruð milljóna króna rannsóknir á magainnihaldi hrafnreyða liggja enn ekki fyrir, nú 17 árum síðar. Enn síður hafa vísindamenn Hafró lagt fram tölur um hversu margar hrefnur verður að veiða til að auka fiskgegnd á Íslandsmiðum.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra upplýsti Alþingi 29. janúar 2019 um að ekkert væri hægt að fullyrða um málið:

Eins og Hafrannsóknastofnun hefur sagt … hafa sérfræðingar okkar á þessu sviði innan Hafrannsóknastofnunar margítrekað að spurningar varðandi afránið eru stærðir sem mjög erfitt er svara. Vitneskjan um samspil þessara þátta í lífríkinu er af mjög skornum skammti. Nýtingarstefna Íslendinga hefur verið og er raunar enn í dag hugsuð út frá stöðu og ástandi einstakra stofnana, ekki af samspili lífkerfisins í heild.

Loðnubrestur er grafalvarlegt mál

Útgerðarmenn, sjómenn, verkafólk, sveitarfélög og landið í heild verða af miklum tekjum vegna loðnubrestsins. Ekkert bendir þó til að hnúfubakurinn sé sökudólgurinn, frekar en til dæmis selir eða sjófuglar. Miklu líklegra er að breytingar á hitastigi sjávar skýri breytingar í göngu loðnunnar. Það stendur hins vegar í stjórnendum útgerðarfyrirtækjanna að ræða loftslagsógnina og taka ábyrgð á eigin losun.

Nú er spurningin hvort ekki sé kominn tími fyrir forystumenn í sjávarútvegi að hysja upp um sig brækurnar og ræða ástand sjávar út frá þeim staðreyndum sem liggja fyrir, í stað hjáfræði um um ofát hvala á nytjastofnum.

Grein þessi var birt í Morgunblaðinu, laugardaginn 29. mars 2025

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands

Sumarvertíðin hafin – lengri opnunartími og hvalaskoðun hafin á ný

Nú er sumarvertíðin formlega gengin í garð hjá Hvalasafninu í Húsavík og hefur opnunartími safnsins verið lengdur. Safnið er nú opið alla daga vikunnar frá kl. 9:00 til 18:00.

Apríl markar jafnframt tímamót í hvalaskoðun á Húsavík, en öll helstu hvalaskoðunarfyrirtæki bæjarins – Friends of Moby Dick, Gentle Giants og North Sailing  – hafa nú hafið reglulegar siglingar á Skjálfandaflóa í leit að hvölum.

Gestir sem fara í hvalaskoðun með einhverjum af þessum frábæru samstarfsaðilum okkar fá 20% afslátt af aðgangseyri í Hvalasafnið gegn framvísun miða. Við bjóðum einnig afslátt fyrir gesti sem hafa farið í hvalaskoðun annars staðar á Íslandi – það eina sem þarf er að sýna miða við komu.

Við hlökkum til að taka á móti gestum í sumar – velkomin í Hvalasafnið í Húsavík.

Kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík fer vel af stað

Kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík er hálfnuð og hefur aldrei verið jafn stór og vegamikil og nú. Hátíðin er haldin í fjórða sinn í ár og er skipulögð af Whale Wise í samstarfi við Hvalasafnið.

Fyrstu tveir dagarnir fóru fram í Hvalasafninu á Húsavík þar sem sjö kvikmyndir voru til sýningar. Sú mynd sem er í uppáhaldi hjá mér eftir fyrstu tvo dagana er Ocean Seen from the Heart sem er heimildarmynd eftir Iolande Cadrin-Rossignol og Marie-Dominique Michaud. Myndin fjallar um ástand sjávarins og áhrif mannsins á líffræðilegan fjölbreytileika og hitastig hans. Hubert Reeves leiðir áhorfendur ásamt vísindamönnum og könnuðum og sýnir fram á endurhæfingarhæfni hafsins og mikilvægi þess að vernda það. Ocean Seen from the Heart, ásamt mörgum kvikmyndum sem eru á dagskrá hátíðarinnar, er aðgengileg á Vimeo-síðu Ocean Films Húsavík.

Næstu tvo daga heldur hátíðin áfram í Leikhúsi Húsavíkur og er aðgangur ókeypis. Gestum er frjálst að heimsækja hátíðina eins og þeim hentar. Þeir sem vilja styðja við hátíðina geta gert það með því að kaupa popp og gos í leikhús sjoppunni. Dagskrá 19. og 20. júlí er fjölbreytt og vegleg, hana má finna hér að neðan.

Verið hjartanlega velkomin að njóta þessarar kvikmyndaveislu með okkur í leikhúsinu á Húsavík!

19. Júlí

20. júlí

Umboðsmaður Alþingis gagnrýnir frestun hvalveiða

Umboðsmaður Alþingis hefur skilað álitinu sitt vegna kvörtunar Hvals hf. um frestun hvalveiða. Hann telur að reglugerð um frestun hvalveiða hafi ekki nógu skýra stoð í lögum og hafi ekki uppfyllt kröfur um meðalhóf. Umboðsmaður bendir á að lög um hvalveiðar hafi ekki verið endurskoðuð í ljósi áætlanir um dýravelferð, sem fram koma í Alþjóðahvalveiðiráðinu.

Álitinu fylgir tímalína atburða frá eftirlitsskýrslu MAST árið 2022 fram að nýlega álitinu í janúar 2024. Umboðsmaður óskaði eftir upplýsingum frá matvælaráðuneytinu um reglugerð um tímabundna frestun á upphafi hvalveiða. Hann býður upp á endurskoðun á reglugerðum um hvalveiðar og beinir til ráðuneytisins að hafa sjónarmiðin í áliti hans í huga til framtíðar. Álitinu fylgja ekki sérstök átök eða framhaldsátak, en umboðsmaður fellst á skýringar ráðuneytisins um dýravelferðarsjónarmiði við hvalveiðar, hins vegar bendir á að meðalhóf og verndun hvalastofnsins ætti að vera grundvöllur laga á þessu sviði.

Lesið meira hér:
https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2024/01/05/Umbodsmadur-Althingis-skilar-aliti-vegna-frestunar-hvalveida/

Mynd frá Hafró

 

Rákahöfrungur með þumla

Í júlí 2023 fundu rannsakendur frá Pelagos Hvalrannsóknarstöðinni sérstakann rákahöfrung með afmynduð bægsli, sem líktust þumlum. Höfrungurinn sást synda með hópnum sínum og virtist þessi útlitsgalli ekki há honum.
Sérfræðingar telja að afmyndunin sé líklega erfðagalli þar sem bæði bægslin líta svona út. Þrátt fyrir að hvaldýr, þar á meðal rákahöfrungar, hafi fingurbein inn í bægslunum, sem leyfar af þróunarsögu hvala frá landgengum spendýrum, virðist eitthvað af þeim beinum vanta í þennan tiltekna höfrung. Þrátt fyrir þetta afbrigði, virðist höfrungurinn vera við góða heilsu.

Lesið meira hér:
https://www.livescience.com/animals/dolphins/extremely-rare-dolphin-with-thumbs-photographed-in-greek-gulf

Flæktur hvalur frelsaður í Alaska!

Í Alaska tókst hópi sérfræðinga að bjarga ungum hnúfubaki sem flæktist í stóra og þunga krabbagildru. Björgunarleiðangurinn, sem átti sér stað 11. október, var kölluð til af íbúum á staðnum sem höfðu komið auga á hvalinn í neyð nálægt bænum Gustavus. Íbúarnir greindu frá óvenjulegri hegðun hvalsins, þar á meðal að elta tvær baujur og átti bersýnilega erfitt með að hreyfa sig eðlilega. Björgunarsveitin, þar á meðal starfsmenn þjóðgarðsins og meðlimir samtakanna Large Whale Entanglement Response, komust að þeirri niðurstöðu að flækjan væri lífshættuleg hvalnum. Björgunarsveitin notaði drónaupptökur til að meta ástandið og eftir margra klukkustunda vinnu tókst að losa hvalinn með því að skera á línurnar. Samtökin munu fylgjast með ástandi hvalsins næstu vikurnar.

Nánar um fréttina hér: https://www.theguardian.com/us-news/2023/oct/30/rescuers-free-humpback-whale-hog-tied-crab-pot-alaska

Kvikmyndahátíð í Hvalasafninu

Dagana 18. og 19. ágúst næstkomandi verður kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík haldin hátíðleg í Hvalasafninu. Hátíðin sem er samstarfsverkefni Hvalasafnsins og sjávarverndunarsamtakanna Whale Wise var fyrst haldin 2021 og er meginþema hátíðarinnar sérvaldar kvikmyndir sem snúa að hafinu og lífríki þess. Báða sýningardagana verða sýndar myndir frá kl. 19-23 og opnar húsið 18:45. Að þessu sinni verða myndir hátíðarinnar einnig algengar á internetinu frá 18. ágúst til 1. september. Hægt verður að horfa á myndirnar HÉR.

Hnýðingur í Hvalasafnið

Hvalasafninu á Húsavík barst heldur betur dýrgripur nú á dögunum þegar að hnýðingur (white-beaked dolphin) bættist í hóp beinagrinda safnsins. Þetta er tólfta beinagrindin sem mun heiðra Hvalasafnið með nærveru sinni og sú fyrsta sem bætist í hópinn frá því að steypireyðurinn kom árið 2015. Jafnframt er þetta síðasta hvalategundin sem safninu vantaði af þeim sem teljast algengastar í Skjálfandaflóa. Það var Garðar Þröstur Einarsson hvalfræðingur sem lagði land undir fót til þess að ná í hnýðinginn á strandstað sinn sem var á bænum Guðlaugsvík í Hrútafirði. Garðar Þröstur flensaði hnýðinginn á staðnum og ók svo með hann heim á leið þar sem beinin eru komin í hefðbundið rotnunarferli. Áætlað er að beinin verði klár til samsetningar eftir um það bil eitt ár. Hvalasafnið vill koma á framfæri þökkum til ábúenda í Guðlaugsvík fyrir gjöfina og liðlegheit á strandstað.

Hnýðingurinn strandaði í Guðlaugsvík í Hrútafirði

Litið yfir árið 2021

Aðalfundur Hvalasafnsins fór fram í síðustu viku þar sem ársreikningur 2021 var lagður fram til samþykktar og farið yfir starfsemi safnsins á árinu sem leið.

Starfsemi í heimsfaraldri.

Heimsfaraldurinn hafði mikil áhrif á starfsemi safnsins á síðustu tveim árum, en í mótlæti myndast svigrúm til að koma auga á ný skapandi tækifæri. Tími sem einkenndist af samkomutakmörkunum og lokunum var nýttur í uppbyggingu og endurbótum á jarðhæð safnsins sem hafði ekki verið í notkun í áratugi. Ráðist var í metnaðarfullar endurbætur þar sem veggir voru rifnir út og endurbyggðir, gólf flotuð, drenað meðfram húsinu, múrverk lagað, lagt nýtt rafmagnskerfi, nýtt brunavarnakerfi og fleira.

Í kjölfarið var gerður var leigusamningur við Þekkingarnet Þingeyinga og Fab Lab smiðja hóf starfsemi í nýja rýminu nýlega. Fab Lab kemur af enska orðinu Fabrication Laboratory og er einskonar framleiðslu tilraunastofa. Smiðjan er búin tækjum og tólum til að búa til nánast hvað sem er og er opin öllum sem vilja þjálfa sköpunargáfuna og hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Samstarf milli Hvalasafnsins og Þekkingarnets Þingeyinga mun halda áfram að vaxa á komandi tímabili en nú standa yfir miklar framkvæmdir sem felast í því að sameina byggingarnar við Hafnarstétt 1 og 3. Með sameiningu verður faglegt samstarf milli stofnana eflst sem mun leiða til nýrra tækifæra á sviði rannsókna og miðlunar.

Hvalaskólinn tók aftur til starfa á árinu við mikla ánægju nemenda sem og starfsmanna safnsins auk þess sem unnið er að því að þróa hvalaskólann og gera hann aðgengilegan á netinu fyrir stærri hóp nemenda um allt land. Safnið leitar nú að samstarfsaðila til þess að þróa stafrænt námsefni fyrir komandi tímabil.

Í Maí heimsótti Eva Björk, framkvæmdastjóri safnsins,  Mjaldragarðinn í Vestmanneyjum og fundaði með Audrey Padgett um möguleika á samstarfi í tenglum við sýningu sem tengist Mjöldrunum.

 

Hömlur í faraldrinum leiddu til þess að Hvalaráðstefnan var í fyrsta sinn send út í beinni útsendingu í gegn um Facebook, þar sem ráðstefnan er enn aðgengileg og hafa 570 mann horft á fyrri útsendingu og 325 á þá seinni. Vanalega hafa um 40-50 manns geta fylgst með ráðstefnunni í sal safnsins.

Safnið fékk styrkveitingar frá Safnaráði fyrir mörgum verkefnum á árinu og gengur vel að vinna að þeim, má þar nefna endurbætur í safnageymslu, skráningu og ljósmyndun á gripum, uppsetning á nýrri sýningu um gróður og líf á grunnsævi og verkun á beinagrind af hnísu sem verður notuð sem kennsluverkfæri.

Hvalasafnið í samstarfi við Whale Wise hélt Ocean Film Festival í fyrsta sinn og voru sýndar myndir sem eru innblásnar af hafinu, bæði valdar heimildamyndir og myndir sem voru gerðar af aðilum sem tengjast vísindasamfélaginu á Íslandi. Viðburðurinn var vel sóttur og skemmtilegur. Á árinu verður hátíðin haldin í annað sinn og verður stærri í sniðinu en áður. Hátíðin er í ár skráð í gagnagrunn fyrir kvikmyndahátíðir og tekur við umsóknum alstaðar að úr heiminum.

Um sumarið var loksins var hægt að prufukeyra sýndarveruleikaupplifun safnsins og gekk það mjög vel. Starfsmaður leiðbeindi gestum í gegn um upplifunina þar sem þeir upplifa að synda í hafinu umhverfis háhyrninga, búrhvali, hnúfubaka, grindhvali, seli og mjaldri. Nú er upplifunin aðgengileg innan safnsins og geta gestur gengið að henni og prófað án aðstoðar starfsmanna.

Í október var sett upp ný listasýning eftir þau Katrina Davis og Jack Cowley og er blanda af list og ljóðum innblásin af reynslu þeirra sem leiðsögumenn í hvalaskoðun við Skjálfanda.

Í desember var haldin jólamarkaður í safninu í samstarfi við Húsavíkurstofu og vakti sá viðburður mikla lukku, bæði meðal söluaðila sem og þeirra sem komu til að versla jólavarning og skoða safnið.

Árið í tölum.

Á árunum fyrir covid var aðsókn í safnið í kring um 30.000 manns á ári. Þegar heimsfaraldurinn skall á féll gestafjöldi niður í 11.000 árið 2020, og jókst upp í 22.000 manns árið 2021.

21% gesta kom frá Bandaríkjunum, 18% voru Íslendingar, 13% Þjóðverjar, 9% frá Frakklandi, 5% frá Ítalíu og 34% frá öðrum löndum.

 

Eins og við var að búast er rekstrarniðurstaðan töluvert betri en árið 2020. Sala aðgöngumiða og minjagripa er að aukast um 32,4 m.kr. milli ára og verkefnastyrkir eru að aukast um 3,5 m.kr. Alls eru tekjur félagsins að aukast um 118%.

EBITDA ársins er 12,7 m.kr. en í fyrra var EBITDA neikvæð um 6,1 m.kr.

Ársreikningur safnsins er nú aðgengilegur á heimasíðu.