Hnúfubak rak á land í Eyjafirði

Fyrir nokkrum dögum rak hnúfubak á land í Eyjafirði. Starfsmenn Hvalasafnsins á Húsavík fóru í vettvangsferð til að skoða dýrið, sem liggur nú neðan við bæinn Áshól, rétt sunnan við Grenivík.

Við heimsókn sína hittu starfsmenn safnsins Önnu Báru Bergvinsdóttur, bónda á Áshóli og rekstraraðila gistiheimilis á staðnum. Hún sagði að fyrst hefði hún séð hvalhræið fast á grynningum nokkuð langt frá landi, en hann hafi  svo losnað á háflóði og rekið nær. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Anna Bára verður vitni að hvalreka á þessum slóðum – á síðasta ári þurfti hún að nota dráttarvél til að ýta hvalhræi sem rak á land á næsta bæ aftur á flot til að losna við ólyktina sem fylgir slíkum reka.

Hnúfubakurinn reyndist vera 10 metra langt kvendýr. Með aðstoð samstarfsaðila okkar hjá hvalarannsóknarsamtökunum Whale Wise tókst að bera kennsl á einstaklinginn. Hver hnúfubakur hefur einstakt mynstur af hvítum og svörtum skellum neðan á sporðblöðkunni, sem gerir vísindamönnum kleift að bera kennsl á dýrin og fylgjast með ferðum þeirra.

Hnúfubakur er ein algengasta hvalategundin sem sést í hvalaskoðunarferðum við Ísland. Þar sem þeir lyfta sporðblöðkunni oft hátt upp úr sjónum áður en þeir kafa er tiltölulega auðvelt að safna ljósmyndum í gagnabanka fyrir rannsóknir.

Þessi einstaklingur bar einkennismerkið HW-MN0104313 á vefsíðunni Happywhale og sást fyrst í Eyjafirði fyrr á þessu ári.
Samkvæmt hvalarannsakandanum og skipstjóranum Babsi Neubarth sást þessi hvalur á lífi fyrir einungis nokkrum dögum.

Nánari upplýsingar um hvalinn má finna hér: happywhale.com/individual/142095

Dánarorsök er ókunn eins og er, en engir sjáanlegir áverkar fundust á dýrinu. Hafrannsóknarstofnun hefur verið látin vita og líklegt er að starfsmenn Rannsóknarstöðvar Háskóla Íslands á Húsavík fari á næstu dögum til að taka sýni og mælingar.

Facebook
Twitter
LinkedIn

More to explorer

Fleiri hvalrekar á Norðurlandi

Tvær fullvaxta andarnefjur (Hyperoodon ampullatus) rak á land í Öxarfirði í gærkvöldi, við Lónsós í landi Auðbjargarstaða. Starfsmaður Hvalasafnsins á Húsavík, Garðar

Hvalreki í Skjálfandaflóa

Hræ af ungri andarnefju (Hyperoodon ampullatus) rak nýverið á land við Skeifárbás, rétt fyrir neðan Skeifárfoss í landi Ytri-Tungu.Starfsmaður Hvalasafnsins á Húsavík

Lokað er fyrir athugasemdir.