Hvalasafnið hlýtur styrk frá Bandarísku safnasamtökunum

Hvalasafnið á Húsavík hlaut ásamt Hvalveiðisafninu í New Bedford, Massachusettes í Bandaríkjunum, nýverið sameiginlegan styrk frá Bandarísku safnasamtökunum: American Alliance of Museums. Um er að ræða verkefnasjóð innan samtakanna sem ber heitið Safnatengsl (Museums Connect) og stuðlar að því að tengja saman ólíka menningarheima í gegnum safnasamstarf. Í fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og Bandarísku safnasamtakanna segir að árið 2015 sé um að ræða 15 samstarfssöfn, sem komi til með að mynda safnatengd ungmennaskipti með áherslu á umhverfis- og félagslegar breytingar.

Verkefni Hvalasafnsins og Hvalveiðisafnsins er til eins árs og miðar að því að tengja saman ólík samfélög sem eiga þó sameiginleg tengsl við hvali og hvalatengda menningu. New Bedford borg var á mestu hvalveiðiárum Bandaríkjanna kölluð ‚borgin sem lýsti upp heiminn‘, þá aðallega vegna veiða á búrhval sem þekktastur var til vinnslu á lýsi til ljósanotkunar. Síðasti hvalveiðibáturinn lagði frá höfn í New Bedford árið 1927, en þá hafði rafmagnið rutt sér braut sem nútíma ljósgjafi.  New Bedford búar eru stoltir af arfleifð sinni og ber borgin þess glögglega vitni, en auk þess er samfélagið sprottið frá ólíkum menningarheimum, þar sem meðal annars hvalveiðimenn frá Portúgal og Azoreyjum  settust að á New England svæðinu á uppgangsárum hvalveiðanna.

Saga hvalamenningar Húsavíkur er mun yngri og af öðrum toga, en samt sem áður þykir hún afar merkileg, þá sérstaklega hröð þróun í hvalaskoðun á sama tíma og Íslendingar stunda áframhaldandi hvalveiðar. Auk þess var Húsavík lengi vel eina bæjarfélagið á Íslandi sem skartaði safni til þess gerðu að fræða um hvali og hvalamenningu.

Verkefnið verður unnið í samstarfi við Ungmennahúsið Tún á Húsavík og mun ungt fólk á hvorum stað fyrir sig vera í forgrunni. Hópur ungmenna á aldrinum 15-18 ára frá Húsavík annars vegar og New Bedford hins vegar mun mynda vinnuhóp (‚Ocean Crew‘). Auk þess að fá fræðslu um hvali, líffræði og vistfræði hafsins mun hópurinn kynna sig og bakgrunn sinn fyrir hverju  öðru, kynnast sögu samfélaganna tveggja og kynna hana hvert öðru, kynna helstu kennileiti bæjarfélaga sinna og segja frá lífi unga fólksins á hvorum staðnum fyrir sig. Nemendurnir munu halda viðburði eins og lestrarmaraþon fyrir börn, fjölskyldu miðaðan Hvala-dag, auk þess sem þau munu halda úti verkefnisvefsíðu sem birtir stafrænar kynningar nemendanna. Verkefninu er skipt í þrjá hluta; kynningu á þátttakendum, nærumhverfi, söfnum og áhugaverðum staðreyndum og hugsjónum; sameiginleg verkefni og opinberar kynningar fyrir almenning í söfnunum; og að lokum ferðalög, þar sem ungmennin fá að hittast og eyða tíma saman, eftir að hafa þekkst í tæpt ár.

Að sögn Huldar Hafliðadóttir, verkefnastjóra Hvalasafnsins, sem jafnframt stýrir verkefninu af hálfu safnsins, er þetta mikill heiður fyrir safnið og heilmikil vinna og ferli sem átt hefur sér stað á undan þessari tilnefningu. Samstarfið við New Bedford Hvalveiðisafnið hafi í raun byrjað fyrir alvöru í haust, en hugmyndin kviknaði í ferð til austurstrandar Bandaríkjanna fyrir rúmu ári síðan, þegar 9 manna hópur frá Íslandi sótti safnið heim, ásamt því að heimsækja fleiri söfn, stofnanir og aðila í hvalaskoðun fyrir tilstuðlan Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna með milligöngu Bandaríska sendiráðsins á Íslandi.

Verkefnið hlaut hæstu mögulegu meðmæli Bandaríska sendiráðsins á Íslandi, auk þess sem borgarstjóri New Bedford sendi frá sér stuðningsyfirlýsingu vegna þess.

Sem fyrr segir er starfsfólk Hvalasafnsins skýjum ofar með þennan heiður, en aðeins  7 samstarfsverkefni og 15 söfn hlutu styrkveitingu, þetta áttunda starfsár verkefnasjóðsins. Þá mun Huld halda utan til Washington D.C. í september á ráðstefnu á vegum Bandarísku safnasamtakanna, auk þess sem hún mun funda með forsvarsmönnum verkefnisins í Hvalveiðisafninu í New Bedford. Í ágúst verður ungmennum úr Borgarhólsskóla á Húsavík gefinn kostur á að sækja um þátttöku í verkefninu og verður það nánar auglýst síðar.

Nánari upplýsingar má finna í fréttatilkynningu Utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna og Bandarísku safnasamtakanna hér og hér

Facebook
Twitter
LinkedIn

More to explorer

A Whale Carcass in North Iceland

Last week staff from the Húsavík Whale Museum ventured to Eyjafjörður to take a closer look at a whale carcass on the

Lokað er fyrir athugasemdir.