Hvalaskoðun

Upphaf hvalaskoðunar

Hvalaskoðun með leiðsögn var fyrst boðin  á Íslandi árið 1995 og hefur greinin vaxið stöðugt síðan. Hvalaskoðunarferð  er nú einn  af hápunktum á ferð margra sem heimsækja landið og nýtur hvalaskoðun vaxandi vinsælda innlendra ferðamanna. Flest hvalaskoðunar-fyrirtækin eru vestan- og norðanlands enda fjöldi hvala við landið mestur á þeim svæðum.

 

Sumarið er tíminn

Besti tíminn til hvalaskoðunar er júní til ágúst en ferðir eru í boði á öðrum tímum, allvíða apríl til október og ferðir frá Reykjavík eru í boði allan ársins hring.

 

Aðgát skal höfð

Fyrirtækjum sem bjóða hvalaskoðun hefur fjölgað ört. Samtök hvalaskoðunarfyrirtækja, „Icewhale“ sjá ástæðu til að reyna að hafa áhrif á umgengni

við hvalina á sjó og hafa gefið út leiðbeiningar til hvalaskoðunarfyrirtækja þar um. Hvalaskoðunarfyrirtækjunum er samt sem áður í sjálfsvald sett hvort þau fara eftir þessum leiðbeiningum þar sem ekki eru um lagasetningu að ræða.

Umræðan um hvort hvalveiðar og hvalaskoðun geti farið saman er sífellt lifandi. Þegar rætt er um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda er augljóst að hvalaskoðun er ekki nærri eins skaðleg náttúrunni og hvalveiðar. Umræðan hefur verið á efnahagslegum grunni og horft framhjá þeirri staðreynd að flestar hvalategundir eru enn á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Hvalaskoðunarferð þar sem ekki er gætt fagmennsku og virðingar við dýrin er þeim einnig skaðleg.