Skynfæri

Sömu skynfæri og menn

Hvalir hafa öll sömu skynfæri og landspendýr að lyktarskyni frátöldu. Á tungunni eru bragðlaukar sem mögulega greina bragð fæðu en nýtast einnig til að skynja umhverfið og greina hvaða efni eru í sjónum. Húð hvala er um 80% vatn og er mjög næm fyrir snertingu, einkum í kringum blástursopið.

 

Bergmálsmiðun

Hvalir nota bergmálsmiðun til að átta sig á umhverfinu og rata í sjónum. Bergmálsmiðun byggist á heyrn hvalanna og hljóðum sem þeir gefa frá sér, þeir nema bergmálið og senda þannig upplýsingar til sjálfra sín. Bergmálsmiðun er notuð til að rata, veiða, eiga samskipti og finna aðra hvali í óravíddum hafsins. Við bergmálsmiðun senda hvalirnir frá sér hljóðbylgjur eða smelli og hlusta eftir bergmáli sem endurkastast frá umhverfinu, heili þeirra greinir bergmálið og les úr því mikilvægar upplýsingar. Tíminn sem líður frá því að hvalurinn gefur frá sér hljóð og þar til hvalurinn nemur bergmálið segir til um hversu fjarri viðkomandi hlutur er.

Hljóð hvala

Hljóðin eru mjög mismunandi að eðli, tíðni og styrk. Smellir og blístur höfrunga eru notaðir til samskipta innan hópsins og eru einkennandi fyrir tegundir og jafnvel einstaklinga. Búrhvalir gefa frá sér hljóðmynstur, sem kölluð eru „coda“ eða kódar og háhyrningar hafa mismunandi mállýskur sem greina að fjölskylduhópa.