Andarnefja

Andarnefja
(Hyperoodon ampullatus)

Lengd

7- 9 m

Þyngd 

 3,5 -5,5 t

Blástur

 stuttur og hringlaga

Öndun

 15-70 mín

Dýpi

 1000 m

Fæða

Smokkfiskur, lítillega annar fiskur

 Hámarksaldur

kýr 27 ár / tarfar 37 ár

Staða stofns

ekki útrýmingarhættu

Helstu einkenni

Andarnefjur eru af svínhvalaætt og stærstar þeirra ættar, þær eru jafnframt næststærstar tannhvala í Norður-Atlantshafi. Búkur er sívalur, dökkur að ofan, allt frá svörtu og gráu yfir í súkkulaðibrúnt, en ljós á kvið. Megineinkenni Andarnefjunnar er höfuðlagið, ennið er hátt, og stækkar með aldrinum meira á karldýrum en kvendýrum. Á fullorðnum karldýrum er ennið oft  hvítt og flatt en kúptara og grátt á kvendýrum, trýnið er lítið en áberandi og framstætt.  Hornið er allt að 30 cm hátt staðsett aftarlega á baki um 2/3 af lengd frá trýni að sporði. Bægslin eru stutt og ávöl, jaðar sporðblöðkunnar er samfelldur. Fullorðin karldýr hafa tvær tennur fremst á neðrikjálka, kvendýrin eru tannlaus. Talið er að tegundir sem ekki hafa tennur sem gagnast þeim til átu gleypi fæðuna með því að sjúga hana ofaní sig.

 

 Hegðun og far

Andarnefjur eru djúpsjávarhvalir og halda sig mest á úthafinu á yfir 1000 m dýpi. Dýr sem flækjast nærri ströndum lenda oft í vandræðum og eru andarnefjur meðal þeirra hvala sem oftast finnast reknar á fjörur við Ísland. Eins og búrhvalir geta Andarnefjur kafað á mikið dýpi í fæðuleit og geta verið í kafi allt að tvær klukkustundir. Yfirleitt eru andarnefjur í litlum hópum tvö til fjögur dýr saman. Andarnefjur geta verið forvitnar og nýttu veiðimenn sér það og þá staðreynd að andarnefjur yfirgefa ekki særðan félaga, særð dýr voru skilin eftir í sjónum til að laða að önnur dýr.

 

 Veiðar og stofnstærð

Á sumum svæðum gæti stofninn hafa minnkað vegna veiða en andarnefjur voru veiddar vegna lýsis og hvalrafs sem er að finna í höfði þeirra eins og búrhvala. Veiðar voru stundaðar í miklum mæli á árunum 1890-1920, eftir það dró úr veiði. Tegundin hefur verið vernduð í meira en 25 ár. Norðmenn voru stórtækastir í veiðinn en einnig stunduðu Kanadamenn og Færeyingar skipulagðar veiðar. Áætluð stofnstærð í Norður-Atlantshafi er 50 – 100 þúsund dýr.