Búrhvalur

Búrhvalur
(Physeter macrocephalus)

Lengd

kýr 11m/ tarfar 15,9-18,5m

Þyngd

kýr 13,5 t/ tarfar 43,5 t

Blástur

 framhallandi til vinstri,dreifður

Öndun

 30-150 mín

Dýpi

 kafa á allt að 3000 m

Hámarksaldur

a.m.k. 60 -70 ár

 Fæða

Einkum smokkfiskur, ýmsar fisktegundir

Staða stofns

viðkvæmur

 

Helstu einkenni

Búrhvalur er stærstur tannhvala og eina stórhvelið meðal þeirra. Búrhvalaættin var algeng fyrir 2 til 20 milljónum ára og taldi margar tegundir, nú er búrhvalurinn eini fulltrúi hennar. Stærðarmunur kúa og tarfa er sá mesti sem þekkist meðal hvala. Skrokkurinn er jafnlitur, dökkgrár, efrivör er hvít og hvítir blettir koma fyrir á kvið. Höfuðið er fyrirferðarmikið, um 1/3 af heildarlengd dýranna, klunnalegt og tunnulaga. Hornið er frekar lítið, lágt og þykkt staðsett um 2/3 af lengd frá trýni, aftur af því eru nokkrir hnúðar og undir stirtlunni er kjölur. Bægslin eru stutt og breið og sporðblaðkan, þríhyrningslag, getur verið allt að 5 metra breið. Blástursholan er ein, framarlega á  höfðinu vinstramegin, blásturssúlan er framhallandi til vinstri og dreifist talsvert.

Neðri kjálkinn er lítill í samanburði við stærð hvalsins í honum eru 20 til 26 pör keilulaga tanna. Efri gómurinn er tannlaus. Með rót geta tennurnar orðið meira en 20 cm langar og yfir 1,5 kg að þyngd. Algengt var að sjómenn og handverksmenn skæru ýmsa muni út úr tönnunum.Tennurnar henta ekki til að tyggja fæðu, því gleypa búrhvalir fæðuna líklega með því að soga hana aftur í kok.

 

 

Hegðun og far

 

Í fæðuleit getur búrhvalur kafað niður á allt að 3000 metra dýpi og verið neðansjávar í tvær klukkustundir. Á milli þess sem þeir kafa eyða þeir oft löngum stundum „á reki“ við yfirborðið.

Kvendýrin halda sig í fjölskylduhópum, meðalsstærð þessara hópa er um 12 dýr, innan hópanna þróast samhjálp m.a. við uppeldi kálfa. Þau dveljast allan ársins hring í hlýsævi hitabeltisins. Ungir tarfar halda sig oft í hóp með dýrum á svipuðu reki, kynþroska tarfar eru einfarar. Á yngri árum halda tarfarnir sig í tempruðum sjó, eldri tarfar sækja í  fæðuríkan sjó frjósamari hafsvæða á norðlægari slóðum  til að herða á vexti sínum og auka styrk og samkeppnisfærni á mökunartíma. Karldýrin halda sig oftast á djúpsævi og sjást sjaldan nærri ströndum.

 

 

Veiðar og stofnstærð

Stofninn minnkaði talsvert á þeim tímai sem veiðar voru stundaðar á tegundinni, eða frá 1712 þar til þær lögðust nær alveg af um 1983, en er nú talinn stöðugur. Markviss veiði á stórum, þroskuðum karldýrum um margra ára bil leiddi til lækkaðrar fæðingartíðni. Vegna langs köfunartíma er erfiðara að meta stofnstærð búrhvala en annarra hvala. Heildarfjöldi búrhvala á heimsvísu er áætlaður um 1.000.000 dýr.