Háhyrningur

Háhyrningur
(Orcinus orca)

Lengd

8,5 m

Þyngd

5-6 t

Blástur

1-3 m

Öndun

2-4 mín

Dýpi

30 m

Fæða

fiskur, sjávarspendýr, hreifdýr, smokkfiskur

 Hámarksaldur

 Tarfar 60 ár, kýr 90 ár

Staða stofns

Háð verndun

Helstu einkenni

Háhyrningar eru stærsta tegundin af höfrungaætt. Skrokkurinn er gildvaxinn með sérkennandi og vel afmarkað svart-hvítt litamynstur og gráan söðulflekk aftan við hornið. Höfuðið er stórt og keilulaga en trýnið stutt og illa afmarkað frá enni. Hornið, sem tegundin dregur nafn sitt af, er á miðju baki, áberandi og mjög hátt (allt að 1,8 m á törfum) en mismunandi að lögun milli kynja og einstaklinga. Á kvendýrum og ungdýrum er hornið aftursveigt en upprétt og hvasst á fullorðnum körlum. Bægslin eru stór, breið og ávöl. Mismunandi lögun hornsins og söðulflekks eru grundvöllur greiningar milli einstaklinga. Tennurnar eru stórar og sterkbyggðar 20 til 28 í hvorum góm.

 

 

Hegðun og fæðuval

Háhyrningar synda hratt, allt að 50 km/klst. Þeir eru fjörugir í vatnsborðinu og er algengt að þeir stökkvi, slái bægslum í yfirborðið eða reki hausinn upp úr vatninu. Háhyrningar eru mjög félagslyndir og lifa í stöðugum fjölskylduhópum. Þeir eru þekktir fyrir vel skipulagðar veiðiaðferðir og sérstakar mállýskur innan hjarða. Þekkt eru tvö meginafbrigði háhyrninga, svokallað flakkaraafbrigði og staðbundið afbrigði, nokkur munur er á hegðun þessara afbrigða og fæðuvali. Flakkaraafbrigðið er sérhæft í veiðum á spendýrum og fuglum en staðbundna afbrigðið lifir að mestu á fiski. Almennt aðlagast háhyrningar mjög vel aðstæðum og er munur á fæðuvali þeirra og hegðun milli svæða. Fæðuvalið er fjölbreytt og eru þeir eina hvalategundin sem nærist að talsverðu leyti á öðrum sjávarspendýrum. Háhyrningar eru fremstu rándýr hafsins og oft nefndir „killer whale“ eða drápshvalur á ensku.

 

 

Hvalir í haldi / Keikó

Fáar hvalategundir hafa verið rannsakaðar jafn mikið og háhyrningar bæði úti í náttúrunni og dýr í haldi sem auðvelt er að fylgjast með í lengri tíma. Umræður um hvort réttlætanlegt sé að halda lifandi sjávarspendýrum í haldi náðu hámarki með Keiko, háhyrningnum í Free Willy bíómyndunum. Aumkunarvert ástand hans leiddi til mikils þrýstings á að honum yrði sleppt og aukinnar vitundar almennings um aðstæður sjávarspendýra í dýragörðum.

 

 

Útbreiðsla og far

Háhyrningar eru taldir útbreiddastir sjávarspendýra og umhverfisaðstæður svo sem sjávarhiti eða dýpi takmarka ekki búsvæði þeirra. Far þeirra virðist tengjast þeirra eftirlætis æti og mestur fjöldi er yfirleitt á norðlægari slóðum.

 

 

Veiðar og stofnstærð

Háhyrningar hafa ekki verið veiddir jafn mikið og aðrar hvalategundir en oft fangaðir lifandi til sýnis í dýragörðum. Á árunum 1976 – 1989 voru 63 háhyrningar veiddir lifandi við Ísland, 52 íslenskir háhyrningar voru fluttir út til sædýrasafna í Evrópu, Ameríku og Japan. Það sem helst ógnar háhyrningum í dag er skipaumferð, efnamengun og minnkandi fæðuframboð. Heildarstofnstærð er óþekkt en áætlað er að um 13.000 dýr séu í Norðaustur-Atlantshafi, þar af um 5500 dýr við Ísland.