Hnýðingur / Blettahnýðir

Hnýðingur
(Lagenorhynchus albirostris)

Lengd

 2,5 – 3 m

Þyngd

 180 – 275 kg Þyngstur 355 kg

Blástur

 ógreinilegur

Öndun

 1 – 3 mín

Dýpi

  kafar grunnt

Hámarksaldur

um 50 ár

 Fæða

uppsjávarfiskur, smokkfiskur, krabbadýr

Staða stofns

Ekki í útrýmingarhættu

 

Helstu einkenni

Hnýðingur eða blettahnýðir er langalgengastur höfrunga við Ísland. Þrekvaxinn en rennilegur skrokkur, frekar stutt og svert trýni og lágt enni. Litamynstur er flókið og breytilegt,  hliðar og fremrihluti baks eru í svört eða dökk og kviður ljósgrár. Ljós svæði eru á hliðum og nær ljósi liturinn upp á bakið aftan við hornið. Hornið miðsvæðis á baki er grátt, sterklegt og aftursveigt, hægt er að þekkja einstaklinga á horninu. Trýnið er alhvítt eða ljósgrátt. Í efri skolti eru 23 til 28 tannapör og 22 til 28 í þeim neðri.

 

Hegðun

Hnýðingar halda sig í fremur smáum hópum, innan við 10 dýr. Stundum sjást þó allt að 1500 dýr saman, líklega eru það margar hjarðir sem safnast saman tímabundið e.t.v. við fæðunám. Hnýðingar laðast að vélknúnum farartækjum og leika sér gjarnan og stökkva í bógöldunni en endast ekki lengi í leik í einu. Hnýðingar hafa sést í hópum með stórhvelum t.d. langreyði, hnúfubak og háhyrningum.

 

Far og útbreiðsla

Hnýðingur er farhvalur sem  heldur sig á grunnsævi Norður Atlantshafsins. Hann er algengari við strendur Evrópu en Norður Ameríku. Á sumrin kýs hann gjarnan kaldan sjó nærri ísrönd eða ísmengaðan sjó. Hnýðingar eru mun algengari við Ísland að sumri en vetri.

 

 

Veiðar og stofnstærð

Hnýðingar eru annað slagið veiddir við Grænland og Færeyjar og nokkuð er um að þeir festist í veiðarfærum og drepist. Eitthvað var um að dýrin væru veidd við Ísland, oftast skutluð ef þau voru innlyksa í vökum í hafís. Áætluð stofnstærð er 10.000 til 12.000 dýr.