Langreyður

Langreyður
(Balaenoptera physalus)

Lengd

24 – 26 m

Þyngd

60 – 74 t

Blástur

4 – 6 m

Öndun

5 – 20 mín

Köfun

50 – 250 m

Fæða

krabbadýr, áta og smærri uppsjávarfiskar

 Hámarksaldur

80-90 ár

Staða stofns

ógnað

 

Helstu einkenni

Langreyðurin er næststærsta dýr jarðar, einungis steypireyðurin er stærri. Skrokkurinn er langur og fremur grannur, dökkur á baki en hvítur á kvið. Flestir einstaklingar hafa einkennandi litamynstur í gráum og brúnum tónum ofan og aftan við augun. Hægri kjálkinn er oft fölur eða ljós en sá vinstri dökkgrár eða svartur. Skíðin eru af samsvarandi litum. Hár blásturinn líkist keilu á hvolfi.

 

 

Hegðun

Langreyðar eru oftast einar eða í litlum hópum, stundum slást þær í för með steypireyðum og fyrir kemur að þessar tegundir æxlist saman. Að minnsta kosti þrír kynblendingar steypireyðar og langreyðar hafa fundist hér við land. Langreyðar eru ekki fjörugar við yfirborði og er mjög sjalgæft að þær lyfti sporði og enn sjaldnar stökkva þær. Langreyðar eru hraðsyndar og geta náð yfir 30 km hraða á klst. Eins og steypireyður gefa þær frá sér hátt baul á mjög lágu tíðnisviði. Baul þeirra er talið meðal kraftmestu hljóða í náttúrunni og berst hundruð eða þúsundir kílómetra í sjónum.

 

 

Veiðar og stofnstærð

Langreyðar voru mest veiddar allra hvalategunda á 20. öld en hafa verið verndaðar á heimsvísu síðan 1966. Stofnstærð á heimsvísu er áætluð um 120.000 til 150.000 dýr. Langreyðar er að finna í öllum helstu hafsvæðum en eru einkum á tempruðum svæðum og nærri pólunum. Þær halda sig nærri ströndum og á landgrunni.

Langreyðar eru meðal þeirra hvala sem veiddar hafa verið við Ísland frá því að bann við hvalveiðum í atvinnuskyni var innleitt. Frá 1986 til 1989 voru 292 dýr veidd í vísindaskyni og 7 dýr voru veidd í atvinnuskyni áríð 2006.