Steypireyður

Steypireyður
(Balaenoptera musculus)

Lengd

22-33 m

Þyngd

110-190 t

Blástur

6-12 m

Öndun

10-30 mín

Köfun

50-100 m

Fæða

sviflæg krabbadýr

Hámarksaldur

80 ár

Staða stofns

í útrýmingarhættu

 

Helstu einkenni

Steypireyður, stærst hvala og stærsta dýr jarðar er blágrá að lit nema neðanverð bægslin sem eru hvít. Skrokkurinn er flikróttur og mynda misdökkir, gráir litatónar óreglulegt mynstur. Þekkja má einstaklinga af mismunandi litamynstri. Lóðréttur og mjór blásturinn er einkennandi fyrir tegundina, hann getur náð 12 m hæð og sést langt að. Sporðblaðkan getur orðið allt að 8 m breið, hún er blágrá beggja vegna, nánast bein með greinilegri rauf í miðju. Hornið situr aftarlega á bakinu og er mjög lítið og breytilegt að lögun, það og stærð dýranna er eitt helsta greiningareinkenni tegundarinnar á hafi úti.

Hegðun

Steypireiður sporðstingur sér oft fyrir djúpköfun en lyftir sporðblöðku sjaldan lóðrétt. Steypireyður eru meðal hraðsyntustu hvala og getur ferðahraði orðið allt að 33 km/klst. Þær eru oftast einar á ferð eða í litlum hópum, fyrir kemur að þær sjást í för með langreyðum. Þær eru raddsterkastar allra dýra og gefa frá sér lágtíðnihljóð sem berast hundruð kílómetra í vatni. Kynblöndun við langreyðar hefur verið staðfest bæði við Ísland og Spán.

 

Stærsta dýr jarðar

Steypireyður er stærsta dýr sem nokkurn tíman hefur lifað á jörðinni. Lengsta skráða dýr var 33,6 metra löng kýr og þyngsta skráða dýrið var einnig kýr, 200 tonn. Talið er að stærstu risaeðlurnar hafi einungis vegið helming þessarar þyngdar. Ástæða þessarar miklu þyngdar er tengd nauðsyn þess að viðhald stöðugum líkamshita í köldum sjó. Því stærri sem dýrin eru því skilvirkari verður hitastjórnun.

 

Far og fæðuöflun

Steypireyðar eru farhvalir og sækja í fæðuríkan sjó fjarri miðbaug á sumrin til að nærast. Talið er að dýrin innbyrði meirihluta ársneyslunnar á 4 til 6 mánuðum. Við át nærri yfirborði kemur steypireyður oft upp á yfirborðið með opinn kjaftinn og veltir sér á hliðina til að auðvelda sér að loka kjaftinum sem getur innihaldið allt að 70 tonn af sjó og átu.

Þjóðtrú

Í þjóðtrú ver steypireyður talin til góðhvela sem vörðu fiskibáta fyrir illhvelum, varasamt var að misgera henni þar sem hún er langminnug.

Veiðar og stofnstærð

Steypireyður var eftirsóttust allra hvala til veiða á tuttugustu öld og eru veiðar á tegundinni meðal mestu rányrkju sögunnar. Í dag er stofninn aðeins brot af upphaflegri stærð þrátt fyrir að tegundin hafi verið alfriðuð frá 1966 þó er fjölgun allnokkur. Talið að heildarstofninn í heiminum í dag sé um 10.000 dýr.