Hvalveiðar fyrr

Fyrstu skipulögðu hvalveiðarnar

Baskar voru líklega fyrstir Evrópubúa til að stunda skipulagðar hvalveiðar. Þegar á 12. öld hófu þeir veiðar á Íslandssléttbak í Biskayflóa. Eftir að tegundinni var útrýmt úr spænsku hafsvæði  færðu Baskarnir veiðar sínar norður og vestur á bóginn. Í upphafi 17. aldar stunduðu Baskar hvalveiðar fyrir ströndum Labrador, Nýfundnalands og Íslands.

 

Veiðiaðferðir

Á þessum tíma voru hvalveiðar hættuspil, hvalir voru skutlaðir með handskutlum af trébátum. Tegundirnar sem voru veiddar, s.s. sléttbakurinn voru valdar vegna þess að þær voru auðveld skotmörk. Sléttbakur syndir hægt og þykkt spiklag heldur skrokk dauðra dýra á floti. Á ensku heitir sléttbakur „right whale“ eða „réttur hvalur“ enda var hann talinn rétta bráðin.

 

Baskar á Íslandsmiðum

Samkvæmt heimildum frá 17. og 18. öld voru umsvif Baska í hvalveiðum á Íslandsmiðum veruleg. Á Vestfjörðum má finna örnefni sem komin eru frá Böskum. Nýlegur fornleifauppgröftur bendir til að þeir hafi haft veiðistöð í Steingrímsfirði. Lítið er vitað um samskipti Íslendinga og Baska en líklegt er að þau hafi verið í sátt þar sem báðir aðilar högnuðust á veiðunum. Árið 1615 voru þó 32 baskneskir hvalveiðimenn myrtir af Íslendingum eftir að skip þeirra fórst. Þessi atburður hefur verið mjög umdeildur á sínum tíma. Jón Guðmundsson lærði skrifaði mjög gagnrýnin þátt um atvikið og fordæmdi þá ákvörðun sýslumanns að fyrirskipa drápin.

 

Gufuskipin

Tilkoma gufuskipa um miðja 19. öld gerði veiðar á hraðsyndari hvölum, svo sem sandreyði og búrhval mögulegar. Þróun skutla með sprengioddi og möguleiki á að dæla lofti í dýrin til að halda þeim á floti olli byltingu í hvalveiðum og markaði upphaf  stórfelldra hvalveiða í atvinnuskyni.

 

Hvalveiðistöð

Fyrsta nútíma hvalveiðistöð á Íslandi var reist fljótlega eftir 1860 af tveimur Ameríkönum Roys og Lilliendahl en hún var einungis starfrækt í fá ár.

 

Norðmenn

Árið 1883 fengu Norðmenn leyfi íslenskra stjórnvalda til að byggja hvalveiðistöðvar á Íslandi. Átta hvalstöðvar voru reistar á Vestfjörðum og aðrar fimm við austurströndina. Tvær þeirra voru taldar stærstu hvalveiðistöðvar við Norður Atlantshaf á þessum tíma. Þær voru starfræktar af Norðmanni, Hans Ellefsen.
Árið 1902 var búið að vinna 1305 hvali. Samkvæmt heimildum frá því um 1900 gaf einn búrhvalur af sér um 10 tonn af fitu, 3 tonn af kjötmjöli og 7 tonn af beinamjöli. Afgangurinn af dýrinu var einfaldlega skilinn eftir í fjörunni. Heimamenn kvörtuðu undan þessu þar sem hvalhræin voru hættuleg sauðfé í fjörubeit. Hvalveiðar frá Austfjörðum stóðu í rúman áratug. Fljótlega eftir 1913 hafði hvölum fækkað svo að ekki var grundvöllur fyrir rekstri hvalstöðva. Norsku hvalveiðimennirnir fluttu umsvif sín í Íshafið þar sem enn var nóg af hvölum og starfsemi þeirra arðbærari.

 

Lög um hvalveiðar

Um 1915 var búið að slátra um 17.000 hvölum og ljóst að það hafði veruleg áhrif á hvalastofna við Ísland. Það sama ár settu Íslendingar lög sem áttu að vernda hvali, þetta er talið fyrsta hvalveiðibann sögunnar. Lögin voru numin úr gildi árið 1928 þar sem talið var að hvalastofnar hefðu náð sér.

 

Íslendingar hefja hvalveiðar

Íslendingar hófu ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en 1935 á grundvelli nýrra laga um hvalveiðar. Samkvæmt þeim var einungis Íslendingum heimilt að veiða á íslensku hafsvæði og alla veidda hvali varð að nýta að fullu. Þessi nýju lög sköpuðu grundvöll fyrir fyrstu íslensku hvalstöðina sem var stofnuð í Tálknafirði og starfaða á árunum 1935 til 1939. Hvalstöðin í Hvalfirði hóf starfsemi árið 1948. Næstu fjóra áratugi voru árlega unnir 300 til 400 hvalir eða alls um 15.000 dýr.

 

 

Takmörkun veiða

Frá 1950 til 1985 voru hvalveiðar takmarkaðar við langreyðar, sandreyðar og hrefnur. Veiðar á steypireyði, búrhval og hnúfubak voru fljótlega bannaðar þegar menn gerðu sér grein fyrir hversu illa stofnarnir stóðu. Íslendingar höfðu orðið vitni að ofveiði og gjörnýtingu Norðmanna og reyndu að stunda hvalveiðar sem sjálfbæra nýtingu auðlindar.
Íslands sléttbakurinn er ekki eina tegundin sem var nánast útrýmt. Talið er að sandlægja hafi verið algeng við Ísland áður en tegundin hvarf úr Atlantshafi á 17. öld. Mögulegt er talið að hvalveiðar hafi valdið útrýmingu hennar. Kjörsvæði sandlægjunnar er nærri strönd sem gerði þær að auðveldri bráð. Frá 1935 til 1985 voru um 20.000 dýr veidd.

 

 

Hvalveiðibannið 1986

Árið 1983 gaf Alþjóðahvalveiðiráðið (IWC) út að frá 1986 yrðu hvalveiðar í atvinnuskyni bannaðar. Íslendingar mótmæltu ekki stöðvuninni en Norðmenn mótmæltu strax harðlega og var heimilað að halda áfram hvalveiðum í atvinnuskyni. Alþjóðahvalveiðiráðið heimilaði hvalveiðar í vísindaskyni og Japanir og Íslendingar nýttu sér strax þær heimildir. Umhverfissamtök hafa gangrýnt vísindaveiðarnar harðlega og haldið því fram að þær væru yfirskin til að fara í kringum hvalveiðibannið.

Vísindaveiðar 1986-1989

Ár

Langreyðar

Sandreyðar

Alls

1986

76

40

116

1987

80

20

100

1988

68

10

78

1989

68

0

68

Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu árið 1991 þegar beiðni vísindanefndar um að hefja hvalveiðar var hafnað en gekk aftur í ráðið árið 2002. Magar þjóðir sem eru andsnúnar hvalveiðum lögðust gegn því að Ísland fengi aftur inngöngu, þar sem Íslendingar höfðu ekki formlega mótmælt hvalveiðibanninu þegar það var sett 1986. Samt sem áður varð Ísland aðildarland að nýju og lofaði að hefja ekki hvalveiðar í atvinnuskyni fyrr en 2006.