Ljósmyndagreining er mikilvæg aðferð

Ljósmyndagreining hefur skipað sér sess sem mikilvæg aðferð við rannsóknir á hegðun hvala, vistfræði og mat á stofnstærð. Við beitingu þessarar aðferðar er grundvallar atriði að mynda þá hluta sem einkenna tegundir og einstaklinga svo sem stærð og lögun horns (bakugga), litamynstur og lögun sporðblöðku, lit skrokks, ör, sigg eða ásætur.

Við greiningu á myndunum er megináhersla lögð á frábrigði innan einstakra tegunda svo sem óvenjulega lögun, skorur, hök og áverka. Þessi einkenni eru gagnleg til að bera aftur kennsl á einstaklinga sem þegar eru á skrá. Myndirnar eru færðar í spjaldskrá og eru grunnur frekari rannsókna.

Vilt þú taka þátt í rannsókninni okkar?

Hvalasafnið hvetur alla sem farið hafa í hvalaskoðun við Ísland til að senda okkur myndir af hvölum. Myndir sem sýna horn eða sporðblöðku eru sérstaklega gagnlegar til að greina einstaklinga. Til að myndirnar komi að gagni við rannsóknina þurfa að fylgja með upplýsingar um hvar og hvenær myndin var tekin (dagsetning og nákvæm staðsetning). Það má senda myndirnar á netfangið info@whalemuseum.is eða á eftirfarandi heimilisfang:

Hvalasafnið á Húsavík
Hafnarstétt 1
640 Húsavík

Við erum þakklát fyrir hverskonar stuðning við rannsóknirnar.