Sumarlok

Aðsókn í Hvalasafnið á Húsavík í sumar var framar vonum en rétt um 11.500 þúsund gestir heimsóttu safnið í júní, júlí og ágúst. Það er vel rúmur þriðjungur af þeim fjölda sem heimsóttu safnið á sömu mánuðum árið 2019. Þegar Covid 19 faraldurinn stóð sem hæst síðastliðið vor hafði verið gert ráð fyrir að gestir yrðu 10-20% af því sem væri í venjulegu ári. Íslendingar sóttu safnið heim í mun meira mæli en búist hafði verið við en þeir töldu rétt um 4500 eða rúm 39% af gestafjölda. Þjóðverjar voru fjölmennastir af gestaþjóðum en heilt yfir má segja að heimsóknir erlendra ferðamanna eftir 15. júní hafi verið fleiri en fyrirfram var búist við.

Starfsfólk Hvalasafnsins vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem heimsóttu safnið í sumar.

Nú taka við vetrarverkefni hjá starfsfólki Hvalasafnsins. Þau eru ansi fjölbreytt og innihalda ýmiskonar viðhald, fræðslustarf og fleira. Heimsfaraldurinn mun áfram hafa sitt að segja um afdrif sumra verkefna en vonandi er komið fram í seinni hálfleik í þeirri baráttu.

Hvalasafnið er opið út þessa viku frá 11-17 en svo breytast opnunartímarnir sem hér segir:

Mánudagar-Föstudagar: 11-15
Laugardagar-Sunnudagar: 11-17

Hvalasafnið opið á nýjan leik

Eftir 6 vikna lokun vegna Covid 19 opnaði Hvalasafnið á ný í dag. Opnunartímar í maí eru frá 12-16. Lokað verður á sunnudögum. Nóg til af spritti og verður tveggja metra reglan að sjálfsögðu virt. Þá er hámarksfjöldi gesta inni á safninu bundinn við 50 manns í einu.

Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra á Hvalasafninu er starfsfólki nokkuð létt að geta opnað safnið á ný, enda þótt sjálfsagt verði gestir mjög fáir fyrstu vikurnar. Strax í dag hafi komið nokkrir gestir á safnið og því nokkuð líflegt um að litast miðað við síðustu vikur á undan. Hvalasafnið ætti að sögn Heiðars að vera skylduviðkomustaður innlendra ferðamanna í sumar enda afar vel heppnað safn sem meðal annars hýsir aðra af tveimur steypireyðargrindum sem til sýninga eru í Evrópu.

Hvalaskoðunartímabilinu lokið

Síðastliðinn laugardag fóru hvalaskoðunarfyrirtækin Gentle Giants og Norðursigling í sína síðustu hvalaskoðunarferð á árinu 2019. Þar með lauk 9 mánaða tímabili en fyrstu ferðirnar voru farnar 1. mars. Samkvæmt frétt Gentle Giants var nóvember einstakur, þar sem hægt var að sigla alla daga og flóinn fullur af lífi. Þegar best lét sáust 30 hnúfubakar í sömu ferðinni auk annarra tegunda svo sem hrefnur, og höfrungar.

Hvalasafnið á Húsavík sigldi inn í veturinn eftir vel heppnað sumar þar sem gestafjöldi endaði í yfir 31 þúsund manns. Opið var alla daga frá 1. apríl- 31. október. Frá byrjun nóvember og fram í lok mars verður hinsvegar opið á virkum dögum frá 10-16.

Starfsmenn safnsins eru nú í óðaönn að vinna hefðbundin vetrarverkefni sem lúta að viðhaldi, skráningum muna, uppfærslum á sýningum og ýmsum samstarfsverkefnum svo eitthvað sé nefnt.

Mynd: Christian Schmidt