Þorvaldur Björnsson hamskeri frá Náttúrufræðistofnun Íslands hefur sett upp allar grindurnar í safninu. Hann kom strax við sögu þegar farið var að safna saman grindum til verkunar fyrir safnið. Meðal annars fóru hann og Ásbjörn á Suðurland og náðu þar í hnúfubaksbeinagrind og búrhvalskjálka. Búrhvalurinn í safninu var dreginn til Húsavíkur frá Steingrímsfirði á Moby Dick sem Arnar Sigurðsson átti. Fengin var jarðýta til að draga hann á land. Björgunarsveitin Garðar hjálpaði til við hvalskurðinn. Það tók um tvær vikur að verka utan af grindinni og var lyktin mjög slæm. Ásbjörn Björgvinsson var ekki vinsælasti maðurinn á Húsavík á þessum tíma enda dæmi þess að forvitin börn kæmu heim með grútinn undir skónum.

Þorvaldur Björnsson við störf á eini af fjölmörgum húsavíkurferðum sínum

Þorvaldur Björnsson hreinsar bein utan við verbúðirnar hvar Hvalasafnið var til húsa á árunum 1998-2002

Það er fróðlegt að rifja upp uppbyggingarsögu Hvalasafnsins með tilliti til nútíma umræðu um sjálfboðaliða. Hvalasafnið var að stóru leyti byggt upp með framlagi sjálboðaliða sem hönnuðu, smíðuðu og máluðu til að koma safninu á legg. Í þeim hópi voru meðal annars sjómenn, framhaldsskólanemendur og aðrir íbúar á Húsavík. Dæmi var um einstaklinga sem gáfu hundruðir klukkustunda í vinnu. Einn þeirra var Jón Ásberg Salómonsson, húsasmiður og þáverandi slökkviliðsstjóri. Hann ásamt konu sinni Jóhönnu unnu myrkranna á milli með Ásbirni í hinum ýmsu verkefnum. Safnið fær seint fullþakkað öllum þeim sem gáfu vinnu sína í þessum tilgangi. Það má fullyrða að safnið hefði aldrei orðið að veruleika án þessa framlags.

Jón Ásberg Salómonsson

Jón Ásberg ásamt nemendum Framhaldsskólans á Húsavík

Nemendur Framhaldsskólans á Húsavík  aðstoðuðu við framkvæmdir í Hvalasafninu

Nemendur Borgarhólsskóla máluðu hvali of veggina ofan á verbúðarþakinu. Listaverkin voru miðbæjarprýði á Húsavík til fjölda ára.

Til að auka fólkstraffík og líf í safninu yfir vetrartímann fékk Ásbjörn þá hugmynd að búa til púttvöll á neðri hæð safnsins. Keyptur var dúkur í Byko sem hafði svipað rennsli og meðalflöt á golfvelli. Völlurinn náði um meirihluta hæðarinnar eða það rými sem nú hýsir steypireyðinn og inn í hvalveiðrirými. Á þessum 18 holu púttvelli var haldið mót vikulega og varð hann fljótt vinsæll hjá meðlimum Golfklúbbs Húsavíkur enda fínasta æfing. Gólfin í Hvalasafninu halla þó nokkuð og gátu púttin þar með verið nokkuð strembin. Völlurinn var lagður nokkra vetur í röð á varð hvað vinsælastur meðal eldri borgara sem mættu oft í viku til að iðka þessa íþrótt og hitta annað fólk í leiðinni.

Mikael Þórðarsson og Reynir Jónasson í sjónvarpsviðtali. Þeir félagar voru tíðir gestir í mini golfi í Hvalasafninu.

Ytra útlit Hvalasafnsins frá árunum 2001-2018 einkenndist af verkum listakonunnar Namiyo Kubo. Hún er góðvinona Erich Hoyt, líffræðingsins sem var einn af þeim sem héldu erindi um hvalaskoðun í Keflavík árið 1995. Kubo kom til Húsavíkur þrjú sumur í röð og skreytti gamla sláturhúsið með verkum sínum. Hún var dugleg að kalla til sjálfboðaliða til aðstoðar og voru dæmi þess að hóað væri í einstaklinga á götum úti til þess að taka til hendinni með henni.

Namiyo Kubo

Barnahornið í safninu var hannað af Söru Tobiasson sem á þessum tíma var nemandi í listnámi við Listaháskólann á Akureyri. Þetta góða framlag Söru hefur í gegnum tíðina stytt ófáum börnum stundirnar.

Sara Tobiasson

Stóru málverkin sem prýða veggina í hvalagalleríinu eru eftir fjöllistamanninn Sigurð Hallmarsson (Diddi Hall) (1929-2014). Stærra málverkið sem er af Víknafjöllunum var málað á árunum 2001-2002 en minna málverkið af Bakkahöfða á Tjörnesi var málað 2004. Málverkin eru mikil augnakonfekt og frábær bakgrunnur fyrir beinagrindurnar sem endurspeglar heimkynni hvalanna hluta úr ári.

Sigurður Hallmarsson