Hvalasafnið 20 ára í sumar

Eins og greint var frá á dögunum hefur hvalaskoðunarvertíðin farið vel af stað á Húsavík. Ferðir hófust hjá Norðursiglingu og Gentle Giants í mars og hefur aðsókn verið með ágætum. Sömu sögu er að segja af Hvalasafninu sem er nú opið daglega og hefur gestum verið að fjölga jafnt og þétt.

Hvalasafninu hefur nú borist liðsauki; Egill P. Egilsson, fjölmiðlafræðingur hefur verið ráðinn í ýmis tímabundin sérverkefni og verður starfsfólki safnsins innan handar næstu vikurnar. Vorverkin eru komin á fullan skrið enda þarf í mörg horn að líta fyrir stórvertíðina.

Hvalasafnið á tímamótum

Í sumar eru 20 ár liðin frá því Hvalamiðstöðin á Húsavik var formlega opnuð, sem síðar varð að Hvalasafninu sem við þekkjum í dag. Af því tilefni verður mikið um dýrðir. Þar ber hæst sérstök afmælis-sögusýning þar sem saga safnsins er rakin í máli, munum og myndum. Þá er hafinn undibúningur fyrir formlega afmælishátíð í tilefni af tímamótunum. Ekki hefur verið ákveðin endanleg dagsetning fyrir hátíðina en gera má ráð fyrir að hún verði haldin í kringum mánaðarmót júní-júlí.

 

huld klopp_preview

Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri Hvalasafnsins á Húsavík. Mynd/epe

Heiðursgestir hátíðarinnar eru nokkrir heimsfrægir fræðimenn og náttúruverndarsinnar sem allir voru viðstaddir opnun Hvalamiðstöðvarinnar árið 1998. Þeir munu einnig halda erindi á hátíðinni. Þetta eru Ásbjörn Björgvinsson, ferðamálafrömuður og forsprakki Hvalasafnsins, Erich Hoyt, hvalasérfræðingur og rithöfundur, Mark Carwardine, dýrafræðingur, rithöfundur og sjónvarpsmaður og Richard Sabin, aðalsafn­vörður spen­dýra við Natural History Muse­um í Bretlandi. „Þetta verkefni leggst vel í mig. Við sjáum fyrir okkur skemmtilega sögusýningu og fjölbreytta afmælisdagskrá enda þykir okkur þessi saga og tímamótin ákaflega merkileg. Það er líka gaman að finna áhugann á safninu erlendis frá, frá fræðimönnum og öðrum velunnurum. Það sýnir okkur svart á hvítu þann sess sem safnið og fræðastarfið hefur skipað í gegnum tíðina hér heima og á alþjóðavettvangi,“ segir Huld Hafliðadóttir, verkefnastjóri Hvalasafnsins á Húsavík.

Sextán daga í byggingu og stóð í 63 ár

Á dögunum var timbur frystiklefi sem byggður var við hús Hvalasafnsins að norðanverðu rifinn. Eins og þekkt er hýsti hús Hvalasafnsins lengst af slátur- og frystihús Kaupfélags Þingeyinga og var húsið fullbyggt árið 1931 og þótti á þeim tíma hin myndarlegasta bygging og afkastamikið sláturhús.

Hvalasafnið á Húsavík

Ásýnd hússins hefur nú breyst töluvert

 

Frystiklefi2

Þessi viðbygging sem rifin var á dögunum var í ágætu ásigkomulagi en var þó hvorki hluti af upprunalegu húsnæði KÞ né hluti af framtíðar skipulagi á starfsemi í húsinu. Kom í ljós að gólffjalir reyndust í ótrúlega góðu standi og voru þær nýttar af bændum í Útkinn. Ammoníakrörin sem voru í lofti og veggjum og voru hluti af frystikerfi hússins voru einnig boðin til nýtingar og komu hestamenn frá nærsveitum og söguðu niður rörbúta til að nota í gerði við hesthús. Stærstur hluti efnisins í húsinu var þó rifinn og settur í förgun. Það var Steinsteypir ehf sem sá um niðurrifin.

Frystiklefi

 

Merkileg saga
Fyrstiklefinn á sér merkilega sögu. Hann var byggður töluvert síðar en húsið, eða árið 1955 og var því 63 ára þegar hann var rifinn.  Í bókinni „Aldarsaga Kaupfélags Þingeyinga 1882-1982“ eftir Andrés Kristjánsson segir frá því þegar viðbyggingin var byggð. Orðrétt segir í bókinni á bls. 350:

„Haustið 1955 kom í ljós, að frystihúsið mundi ekki taka kjöt alls þess fjár sem slátra þurfti á vegum félagsins. Þá var ráðist fyrirvaralaust í viðbyggingu sem reist var á 16 dögum og tók 10 þúsund kjötskrokka í frystigeymslu. Þetta kom í veg fyrir að slátrun stöðvaðist í miðjum klíðum“.

Það er greinilegt að þessi fyrirvaralausa ákvörðun um byggingu frystiklefa á einungis sextán dögum vegna sérstakra aðstæðna á kjötmarkaði hefur ekki komið í veg fyrir að vandað hafi verið til verka. Viðbyggingin stóð fyrir sínu  í 63 ár og einungis tvö ár síðan slökkt var á frystipressunum í húsinu.

Eftirfarandi frétt birtist um málið í Tímanumþann 29. september 1955.

 

Frétt_1

Frystihús

Forsetinn heimsækir Hvalasafnið

Í dag var opnuð formlega ný sýning um sögu hvalveiða og sögu hvalaskoðunar við Ísland. Það var forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson sem vígði sýninguna, en hann er hér staddur í opinberri heimsókn í Norðurþingi.

Hönnuður sýningarinnar er Þórarinn Blöndal, en hann vann einnig að uppsetningu steypireyðarsýningarinnar. Auk starfsfólks safnsins lögðu fjölmargir hönd á plóg í vinnu við uppsetningu sýningarinnar. Sýningin gerir sögu hvalveiða við Íslandsstrendur, nýrri sögu hvalaskoðunar og framtíðarsýn er tengist mögulegri verndun hafsvæða skil. Dr. Marianne Rasmussen og Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík lögðu til efni er tengjast rannsóknum á hvölum í Skjálfandaflóa. Pétur Jónasson ljósmyndari kom að myndvinnslu sýningarinnar, Guðmundur Örn Benediktsson prófarkalas texta, Erich Hoyt hvalasérfræðingur frá Bretlandi las yfir enskan texta um hvalaskoðun, auk þess sem Gísli Víkingsson hjá Hafrannsóknastofnun aðstoðaði með textavinnu. Gestur Halldórsson fyrrverandi hrefnuveiðimaður lagði til sýningarinnar hvalveiðibyssu. Hvalasafnið þakkar öllum þeim er komu að gerð sýningarinnar

Forsetaheimsokn_Hvalasafn_02

.

 

Forsetaheimsokn_Hvalasafn_03

Forsetinn rýnir í nýja sýningu með framkvæmdastjóra safnsins og verkefnastjóra.

Forseti Íslands nýtti einnig tækifærið eftir opnunartahöfnina og átti samtal við aðila í ferðaþjónustu á svæðinu í ráðstefnusal Hvalasafnsins.

Alþjóðlegur vinnufundur haldinn í Hvalasafninu

Á dögunum var haldinn þriggja daga vinnufundur í Hvalasafninu um samstarf stjórnenda hafverndarsvæða (Marine Protected Areas) í Atlantshafi. Samstarfið ber heitið Transatlantic MPA Network og er um að ræða tilraunaverkefni á vegum Evrópusambandsins. Fundinn sátu aðilar frá löndum og svæðum beggja vegna Norður- og Suður- Atlantshafsins, og voru þátttakendur m.a. frá Bermuda, Grænhöfðaeyjum, Azoreyjum, Brasilíu, Bandaríkjunum, nokkrum löndum Evrópu og Íslandi.

 

Mynd af hóp

Mynd: Transatlantic MPA Network

Markmið verkefnisins er að stuðla að víðtækara samstarfi þvert yfir Atlantshafið og styðst það við nýtt alhliða hugtak; Atlantsisma (Atlanticism) sem felur í sér samstarf Afríku, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Evrópu. Áhersla er lögð á umhverfismál og umhverfisvernd en auk þess nær verkefnið yfir vísindalega samvinnu milli stjórnenda hafverndarsvæða (Marine Protected Areas), sem getur upplýst og stuðst við stefnumótun ESB og einnig stuðlað að alþjóðlegum samskiptum.

 

Hvalasafn_02

Mynd: Hafþór Hreiðarsson

Evrópusambandið leggur með þessu tilraunaverkefni áherslu á að efla víðtæka nálgun og samstarf um Atlantshafið með það að markmiði að auka skipti og miðlun á bestu mögulegu starfsvenjum og til að bæta skilvirka stjórnun verndarsvæða í sjó á strandsvæðum og ströndum Atlantshafsins. Verkefnið styður einnig við skuldbindingar ESB um að takast á við tap á líffræðilegum fjölbreytileika, hjálpa til við aðlögun loftslagsbreytinga og bregðast við innri stefnu ESB um umhverfismál, svæðisbundið samstarf og þætti er snúa að vistkerfi hafsins.

 

Hvalasafn_01

Mynd: Hafþór Hreiðarsson

Fulltrúar Hvalasafnsins og Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Húsavík sátu einnig fundinn.

Starfsemi Hvalasafnsins blómleg í sumar

Starfsemi Hvalasafnsins hefur gengið vel í vor og sumar. Vinnu við nýja hvalveiði- og hvalaskoðunarsýningu lauk að mestu í vor og hefur hún vakið athygli gesta í sumar. Sýningin verður formlega opnuð síðar í haust. Steypireyðarsýningin heldur auk þess áfram að vekja athygli gesta og hefur safnið almennt fengið jákvæðar umsagnir frá gestum.

syning

 

Góð aðsókn
Aðsókn hefur verið góð það sem af er ári. Gestafjöldinn á safnið jókst í vor samanborið við árið 2016 en í sumar fækkaði lítillega. Á heildina litið stefnir í að aðsókn verði áþekk metárinu í fyrra þegar 36 þúsund gestir heimsóttu safnið. Reksturinn hefur gengið vel og var safnið heppið með sumarstarfsfólk líkt og áður. Safnið er opið alla daga vikunnar í september og október. Frá og með nóvember og út mars verður safnið opið alla virka daga frá kl. 10 – 16.

Safnastarf og fræðsla
Starfsemi Hvalaskólans hélt sínum sessi á vordögum og mættu nemendur elsta árgangs Tungu, auk 2. og 5. bekkjar Borgarhólsskóla til fræðslu í Hvalasafninu. Hvalasafnið bauð að venju 2. bekk í fjöruferð í Eyvíkurfjöru. Uppskeruhátíð var haldin 5. júní þar sem sýning á verkum nemenda var opnuð.

Árleg hvalaráðstefna var halding í fjórða sinn þann 21. júlí og var aðsókn ágæt. Fyrirlesarar voru meðal annarra Dr. Tom Amakatsu, Dr. Marianne Rasmussen og Francoise Breton og voru erindin hvert öðru áhugaverðara.

ráðstefna1

Safnahelgi í Þingeyjarsýslum var haldin síðsumars. Þar buðu söfn og sýningar í Þingeyjarsýslum upp á fjölbreytta dagskrá frá fimmtudegi til sunnudag. Hvalasafnið bauð upp á fjölskyldukvikmyndasýningar og opið hús. Sýndar voru myndirnar Free Willy, með íslenska háhyrningnum Keikó í aðalhlutverki, og In the Heart of the Sea, en hún byggir á sögunni frægu um Moby Dick.

Næg verkefni eru framundan á safninu í vetur. Hvalasafnið mun koma upp viðurkenndu skráningarkerfi á öllum munum safnsins, en safnið hlaut styrk til verkefnisins frá Safnasjóði fyrr á árinu. Þá hefst undirbúningur að afmælishátíð Hvalasafnsins, en árið 2018 verða 20 ár frá formlegri opnun safnsins. Stefnt er að veglegri dagskrá af því tilefni. Þá eru ótalin viðhaldsverkefni á safninu af ýmsu tagi.

Miklar framkvæmdir í kjallara
Fyrsta áfanga í framkvæmdum í kjallara Hvalasafnsins lauk í vor. Vegna utanaðkomandi vatnsleka inní húsakynni safnsins í kjallara reyndist nauðsynlegt að skipta um jarðveg, steypa nýtt gólf og styrkja burðarvegg. Umtalsverður kostnaður hlaust af þessu en framkvæmdirnar voru óhjákvæmilegar þar sem sem kjallarinn var ónothæfur vegna lekans.

IMG_3611

Burðarþol, niðurrif og ytra byrði
Í kjölfar sölu Hvalasafnsins á hluta af jarðhæð til Steinsteypis ehf kom fljótt í ljós að burðarþoli hússins var mjög ábótavant. Burðarstoðir voru skemmdar í þeim hluta sem áður hýsti frystigeymslur og þurfti að styrkja húsið umtalsvert með steypuviðgerðum. Sú framkvæmd gekk vel en reyndist  kostnaðarsöm eins og við var að búast. Á allra næstu vikum verða viðbyggingar við hús Hvalasafnsins sem snúa til norðurs og tilheyrðu frystigeymslustarfseminni fjarlægðar. Við þetta mun byggingarreitur safnsins til framtíðar stækka. Hvalasafnið og Steinsteypir hafa ráðið arkítekt til að hanna ytra útlit hússins og er stefnt að því að framkvæmdum (málningu, múrviðgerðum osfrv) verði lokið fyrir næsta sumar.

Góðir gestir frá Ásbúðum á Skaga

Árlegt Safnakvöld í Þingeyjarsýslum var haldið í lok ágúst og buðu söfn og sýningar í Þingeyjarsýslum upp á fjölbreytta dagskrá í tilefni þess. Dagskráin náði yfir lengri tíma en venja hefur verið síðustu ár eða frá fimmtudagskvöldi til sunnudags. Var það gert til að gefa gestum kost á að sækja fleiri viðburði. Safnakvöldið er hluti af starfsemi Safnaþings, samstarfsvettvangi safna og annarra stofnana sem miðla menningu, sögu og náttúru í  Þingeyjarsýslum.

Um 60 manns sóttu Hvalasafnið heim á opnum degi Safnakvöldsins. Á meðal gesta voru hjónin Sigríður Magnúsdóttir og Höskuldur Þráinsson sem áttu leið um Húsavík, en þau eiga Ásbúðir á Skaga ásamt frændfólki Sigríðar. Eins og margir vita rak steypireyðina sem til sýningar er í Hvalasafninu á land í landi Ásbúða árið 2010 og kom það m.a. í verkahring hjónanna að ákvarða hvað gera skyldi við hræið. „Við höfðum fyrst samband við Hafrannsóknastofnun, en þar var okkur bent á að tala við Náttúrufræðistofnun Íslands og vorum við eftir það mest í sambandi við Ævar Petersen.“

 

Ásbðuðir

Sigríður og Höskuldur við steypireyðargrindina

Á ljósmyndasýningarhluta steypireyðarsýningarinnar má sjá hús þeirra hjóna á myndum og sést þar vel hversu nálægt bænum hræið fannst á sínum tíma.

Sigríður og Höskuldur voru bæði hæstánægð með sýninguna og hvernig til hafði tekist. Hvalasafnið þakkar þeim heiðurshjónum kærlega fyrir komuna.

Safnahelgi í Þingeyjarsýslum – Bíósýningar í Hvalasafninu

Safnaþing, samstarfsvettvangur safna og annarra stofnana sem starfa að söfnum, sýningum, setrum og annarri miðlun náttúru, menningar og sögu í Þingeyjarsýslu halda sitt árlega safnakvöld nú um helgina. Í ár nær dagskráin frá fimmtudegi til sunnudags og er það gert til að gefa fólki kost á að sækja fleiri en einn viðburð, safn eða sýningu heim.

Hvalasafnið býður gestum og gangandi ókeypis aðgang að safninu frá kl. 12 – 17 á sunnudag og býður í barnabíó í sal safnsins kl.13 og fjölskyldubíó kl. 15. Hvetjum Þingeyinga og nærsveitunga til að nýta sér dagskrá safnahelgarinnar og kíkja við hjá söfnum og sýningum.
Markmið Safnaþings er að stuðla að öflugu og metnaðarfullu starfi í menningarmiðlun í Þingeyjarsýslum.

Safnakvöld

Margar steypireyðar í Skjálfandaflóa

Undanfarna daga hafa háir og tignarlegir blástrar blasað við hvalaskoðunarbátum á Skjálfanda og einkenna slíkir strókar gjarnan blástur steypireyða. Dýrin eru heldur seinna á ferð í ár en síðustu ár, en þær hafa þó sótt Skjálfanda heim í júnímánuði síðastliðin ár. Allt að sex steypireyðar hafa sést í ferðum hvalaskoðunarfyrirtækjanna en slíkur fjöldi er sjaldséður í einni og sömu ferðinni, þar á meðal var kýr með kálf.

Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Húsavík stendur fyrir rannsóknum á hljóðum steypireyða með upptökutækni sem felur í sér röð neðansjávarupptökutækja og er tilgangur rannsóknarinnar að kanna viðbrögð steypireyða við afspilun lágtíðnihljóða úr stórum neðansjávarhátalara. Þá hafa einnig tvær steypireyðar verið merktar með hljóðupptökutæki (tag-merki) vegna rannsóknarinnar.

 

steypa

Mynd: Gentle Giants Whale Watching

Rannsóknin er unnin í samstarfi við Háskólann í Hannover, Háskólann í suður Danmörku og Tom Akamatsu frá Japönsku fiskveiðistofnuninni.

Árleg Hvalaráðstefna haldin í kvöld

Árleg Hvalaráðstefna Hvalasafnsins og Rannsóknaseturs HÍ á Húsavík verður haldin í kvöld í sal safnsins kl. 20. Er þetta fjórða árið í röð sem ráðstefnan  er haldin.

Meginmarkmið ráðstefnunnar er bjóða upp á vettvang til að ræða málefni hvala og lífríkis hafsins og deila nýlegum rannsóknum.

Meðal gesta og fyrirlesara í kvöld eru Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings, Dr. Tom Akamatsu sem sérhæfir sig í upptökum neðansjávar, Dr. Magnus Wahlberg, prófessor við líffræðideild Háskólans í S-Danmörku og Francoise Breton frá University of Autonomy, Barcelona en Francoise leggur áherslu á samspil samfélags og hvalaskoðunar, mannlífs og náttúru við Miðjarðarhafi og nú síðustu misseri á Norðurslóðum einnig.

Erindin eru haldin á ensku og eru allir velkomnir, boðið verður upp á léttar veitingar í lok dagskrár.

WhaleCongress17

Framkvæmdirnar í Hvalasafninu

Þeir sem eiga leið um hafnarsvæðið á Húsavík sjá og heyra líklega að umfangsmiklar framkvæmdir eiga sér stað á jarðhæð Hvalasafnsins. Nýlega keypti fyrirtækið Steinsteypir ehf hluta af jarðhæð Hvalasafnsins og áformar þar uppbyggingu á ferðaþjónustutengdri starfsemi. Fljótlega eftir að framkvæmdir hófust á jarðhæðinni kom í ljós að burðarveggir í húsinu þar sem áður voru frystiklefar KÞ og síðar Norðlenska voru margir hverjir í lélegu ásigkomulagi. Síðustu vikur hafa eigendur hússins, Hvalasafnið og Steinsteypir, unnið að því í sameiningu með smiðum að styrkja burð hússins með nauðsynlegum steypustyrkingum. Þessi vinna við burðinn í húsinu er nú langt komin og mun líftími hússins í heild vonandi lengjast fyrir vikið og viðhald minnka á komandi árum. Þegar vinnunni við burðarstyrkingu lýkur á næstu dögum getur Steinsteypir haldið áfram með sína áformuðu ferðaþjónustutengdu uppbyggingu sem mun bæði hleypa lífi í hús Hvalasafnsins og auka þjónustu á hafnarsvæðinu.

IMG_3606

IMG_3611

Niðurrif á tveimur viðbyggingum
Samhliða þessum framkvæmdum hefur Hvalasafnið samið við Steinsteypi um niðurrif á tveimur viðbyggingum til norðurs (frystiklefi og frystipressuhús) og grófjöfnun þeirrar lóðar. Þegar þessar tvær viðbyggingar verða horfnar verður til staðar stór byggingarréttur sem Hvalasafnið á til mögulegrar stækkunar í framtíðinni.

IMG_3608

Kjallari tekinn í gegn
Til viðbótar við framkvæmdirnar á jarðhæðinni og fyrirhuguð niðurrif lauk nýlega framkvæmdum í kjallara Hvalasafnsins undir anddyri safnsins. Þar voru geymslur safnsins hýstar áður. Mikill vatnsleki síðustu misserin utanfrá olli því að nauðsynlegt reyndist að jarðvegsskipta, drena, steypa styrkingar við burðarvegg og steypa nýtt gólf. Garðvík ehf tók að sér þessa vinnu og reyndist hún bæði flókin og umfangsmikil vegna þessa mikla leka.

IMG_3613

Skansinn
Á komandi misserum, þegar framkvæmdum innandyra og vinna við niðurrif lýkur, verður hugað  að ytri útliti hússins. Undirbúningur er þegar hafinn og arkítekt verið ráðinn til að vinna hugmyndir að útliti hússins. Loks er einnig hafinn undirbúningur að uppbyggingu „Skansins“ – sem er svæðið á milli Hvalasafnsins og Langaneshússins sem nú hýsir Þekkingarnet Þingeyinga og fleiri stofnanir. Sú uppbygging er í höndum eigenda svæðisins, sem eru í misstórum hlutföllum Hvalasafnið, Norðurþing og eigendur Langaneshússins. Uppbygging á Skansinum mun vonandi hafa jákvæð áhrif á heildarmynd hafnarsvæðisins.