Hvalasafnið á Húsavík er eitt af fáum söfnum í heiminum sem er einungis tileinkað hvaldýrum. Í safninu eru ríflega 8 sýningarsalir með fjölbreyttum sýningum sem spanna náttúrufræði, list og vísindi.

Hvalagangurinn
Á Hvalasafninu má finna 11 beinagrindur af hvölum sem allir hafa dáið náttúrulegum dauðdaga, fyrir utan náhvalsgrind, en hún var gjöf frá Grænlenskum veiðimönnum.

Steypireyður
Beinagrindin á sýningunni er af 25 metra löngum steypireyð sem rak á land á Skaga síðsumars árið 2010. Grindin liggur á bakinu líkt og tíðkast þegar hvalhræ reka á land á náttúrulegan hátt.
Myndaröð inni í sýningarrýminu sýnir ferlið við að draga hræið á land, hreinsun beinanna í hvalstöðinni í Hvalfirði og uppsetningu grindarinnar í Hvalasafninu á Húsavík.
Ljósmyndir af steypireiðum í Skjálfandaflóa eru teknar af Christian Schmidt.
Á stóru korti má sjá hversu oft steypireyðar hafa sést í Skjálfandaflóa frá 2017.

Hvalnýtingarsýning
Árið 2017 opnaði ný og uppfærð hvalnýtingarsýning sem segir sögu hvalveiða við Ísland sem og sögu hvalaskoðunar.
Hafsjór af plasti
Sýning gerð árið 2021 sem fjallar um sögu plastiðnaðar og þá gífurlegu þróun og ofnotkun sem hefur orðið á þessu byltingakennda efni. Markmið sýningarinnar er að vekja áhorfandann til umhugsunar um þann lífstíl sem við lifum við og hvernig hann bitnar á hafinu og vistkerfinu.

Líffræðsýningin
Líffræðisýning safnsins gefur greinargóðar upplýsingar um þróun hvala, þroska, mökun og ætisleit.
Heimildarmyndir

Whale Wisdom
Myndin er í sýningu í kvikmyndasal safnsins á 2. hæð.
Myndin fjallar um hvalamenningu, samvinnu þeirra og samskipti. David Attenborough talar inn á myndina.
Sýningartími: 50 mínútur.