Hvalasafnið á Húsavík er eitt af fáum söfnum í heiminum sem er einungis tileinkað hvaldýrum. Í safninu eru ríflega 8 sýningarsalir með fjölbreyttum sýningum sem spanna náttúrufræði, list og vísindi.

Hvalagangurinn

Á Hvalasafninu má finna 11 beinagrindur af hvölum sem allir hafa dáið náttúrulegum dauðdaga, fyrir utan náhvalsgrind, en hún var gjöf frá Grænlenskum veiðimönnum.


 

Steypireyður

Beinagrindin á sýningunni er af 25 metra löngum steypireyð sem rak á land á Skaga síðsumars árið 2010. Grindin liggur á bakinu líkt og tíðkast þegar hvalhræ reka á land á náttúrulegan hátt.

Myndaröð inni í sýningarrýminu sýnir ferlið við að draga hræið á land, hreinsun beinanna í hvalstöðinni í Hvalfirði og uppsetningu grindarinnar í Hvalasafninu á Húsavík.

Ljósmyndir af steypireiðum í Skjálfandaflóa eru teknar af Christian Schmidt.

Á stóru korti má sjá hversu oft steypireyðar hafa sést í Skjálfandaflóa frá 2017.

Hvalnýtingarsýning

Árið 2017 opnaði ný og uppfærð hvalnýtingarsýning sem segir sögu hvalveiða við Ísland sem og sögu hvalaskoðunar.