2016 – viðburðaríkt ár á Hvalasafninu

Árið 2016 er búið að vera viðburðaríkt á Hvalasafninu. Safnið var lokað í janúar og febrúar vegna uppsetningar Steypireyðarsýningarinnar, en opnaði aftur um miðjan mars. Þessi nýja Steypireyðarsýning er stærsta einstaka verkefni sem unnið hefur verið á safninu á síðustu árum. Flutningur beinanna, uppsetning, hönnun og tilheyrandi vinna við sýninguna reyndist kostnaðarsöm, en þrátt fyrir það sýnir reynslan frá sýningaropnun að þessi framkvæmd muni reynast safninu vel til framtíðar litið. Hvalasafnið gerði langtíma varðveislusamning við Náttúrufræðistofnun Íslands um steypireyðargrindina. Slíkur samningur er þýðingarmikill fyrir safnið.

IMG_0397

Fræðslustarf í blóma
Í lok árs 2015 hófst svokallað New Bedford verkefni, þar sem Hvalasafnið og Hvalveiðisafnið í New Bedford, í Massachusetts, Bandaríkjunum unnu saman í gegnum safnasamstarf og ungmennaskipti. Tíu nemendur úr Framhaldsskólanum á Húsavík tóku þátt í verkefninu og 18 nemendur frá New Bedford, en verkefnið hlaut styrk frá Bandarísku safnasamtökunum (AAM) og að auki styrkti Utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna verkefnið í gegnum Sendiráð Bandaríkjanna á Íslandi. Er þetta umfangsmesta einstaka fræðsluverkefni sem safnið hefur ráðist í frá upphafi. Verkefnið miðaði að því að kynna annars vegar Húsavík og Skjálfanda og hins vegar New Bedford-svæðið fyrir nemendunum, auk almennrar fræðslu um hvali, lífíki hafsins og þær ógnir sem steðja að hafinu. Nemendur áttu samskipti að lágmarki einu sinni í viku í gegnum skype, en stóðu auk þess fyrir ýmis konar viðburðum. Í apríl heimsótti Bandaríski nemendahópurinn Húsavík og í lok maí fór Húsvíski hópurinn utan. Má segja að verkefnið hafi gengið vonum framar og munu söfnin tvö halda áfram að styrkja tengslin sín á milli. Þá lögðu fjölmargir  skólahópar á öllum skólastigum leið sína í safnið og var Hvalaskólinn á sínum stað með sína árlegu fræðslu og sýningu á verkum nemenda á vormánuðum.

2016-05-29-10-55-26

 

Gestum fjölgaði hratt
Heildar gestafjöldi á árinu 2016 er ríflega 36 þúsund.  Til samanburðar var gestafjöldinn um 26 þúsund árið 2015. Þessi mikla aukning skýrist af nokkrum þáttum. Í fyrsta lagi hefur nýja Steypireyðarsýningin slegið í gegn og á sinn þátt í aukningunni. Í öðru lagi hefur ferðafólki sem heimsækir Húsavík fjölgað mikið árið 2016. Í þriðja lagi hefur markaðsstarf Hvalasafnsins og samvinna með t.d. ferðaskrifstofum skilað góðum árangri – ekki síst á liðnu hausti.

Þjóðverjar fjölmennastir
Við komuna á safnið eru gestir spurðir um þjóðerni. Þær upplýsingar sem þar fást koma að góðu gagni, m.a. fyrir markaðsstarf og áherslur safnsins.  Á árinu 2016 voru erlendir gestir um 90% af heildar gestafjölda og íslenskir gestir  um 10%.  Þetta hlutfall íslenskra gesta er hátt í sögulegu samhengi og skýrist að hluta til af opnun steypireyðarsýningarinnar í mars þar sem t.d. heimafólki var boðið að skoða sýninguna.

Af einstökum þjóðum voru gestir frá Þýskalandi flestir – það er ekkert nýtt miðað við fyrri ár. Á árinu hafa komið 7.100 gestir frá Þýskalandi eða um 20% af heildarfjölda. Næst koma Bandríkjamenn, gestafjöldinn þaðan er 12% af heild. Í ár hafa komið ríflega 3.600 íslenskir gestir.  Þar á eftir koma Frakkar, Svisslendingar, Bretar og Hollendingar. Gestum frá hinum ýmsu löndum Asíu hefur fjölgað en eru þó enn einungis tæp 4% af heildar gestafjölda.

tafla2016