Hvalasafninu á Húsavík barst heldur betur dýrgripur nú á dögunum þegar að hnýðingur (white-beaked dolphin) bættist í hóp beinagrinda safnsins. Þetta er tólfta beinagrindin sem mun heiðra Hvalasafnið með nærveru sinni og sú fyrsta sem bætist í hópinn frá því að steypireyðurinn kom árið 2015. Jafnframt er þetta síðasta hvalategundin sem safninu vantaði af þeim sem teljast algengastar í Skjálfandaflóa. Það var Garðar Þröstur Einarsson hvalfræðingur sem lagði land undir fót til þess að ná í hnýðinginn á strandstað sinn sem var á bænum Guðlaugsvík í Hrútafirði. Garðar Þröstur flensaði hnýðinginn á staðnum og ók svo með hann heim á leið þar sem beinin eru komin í hefðbundið rotnunarferli. Áætlað er að beinin verði klár til samsetningar eftir um það bil eitt ár. Hvalasafnið vill koma á framfæri þökkum til ábúenda í Guðlaugsvík fyrir gjöfina og liðlegheit á strandstað.
Vetrinum lýkur senn enda þótt eitt og eitt vorhret muni ef til vill líta dagsins ljós fram að sumrinu. Veturnir eru ekki síður mikilvægir safnastarfi eins og háannatími sumarsins en þó á gjörólíkan hátt. Á meðan að sumarið fer í stóran meirihluta gestamóttöku ársins eru veturnir notaðir til viðhalds, nýsköpunar og safnafræðslu.
Í febrúar smíðaði Trésmiðjan Val ehf. smíðað stigahús sem liggur frá frá 1. hæð niður á jarðhæð. Framkvæmdirnar eru tilkomnar vegna komu Hraðsins- nýsköpunarseturs á jarðhæð Hafnarstéttar 1 sem mun jafnframt tengjast Langaneshúsinu, Hafnarstétt 3 með þar til gerðu glerhýsi. Stigahúsið mun gera starfsfólki í húsunum tveimur kleyft að ferðast innanhúss um allt rými húsanna tveggja en töluvert samstarf verður milli fyrirtækja og stofnana sem hafa aðsetur þar.
Búið er að setja upp nýtt öryggis- og brunavarnakerfi í safninu en gamla kerfið var komið til ára sinna. Kerfið sjálft er keypt af Öryggismiðstöðinni en EG Jónasson ehf. sáu um lagnavinnu.
Á síðustu aðventu hýsti Hvalasafnið jólamarkað í þrígang. Markaðurinn sem var samvinnuverkefni Húsavíkurstofu og Fimleikadeildar Völsungs var haldinn á 1. hæð Hvalasafnsins. Fjölbreyttar vörur voru á boðstólnum, flestallar hannaðar í nærhéraði. Í undirbúningi markaðsins var veggur rifinn niður og 20 ára afmælissýning Hvalasafnsins fjarlægð en hún var opnuð í maí árið 2019. Til stendur að opna nýja sýningu á vordögum um náttúru hafsins. Textavinna er unninn innan safnsins en hönnun er í höndun Þórarins Blöndals. Þórarinn er safninu vel kunnur en hann hannaði heildrænt útlit steypireyðarsýningarinnar sem og hvalveiðisýningarinnar á safninu. Þá er nýja sýningin einnig unnin í samstarfi við Strýtan Divecenter á Hjalteyri sem útvega myndefni.
Árið 2021 heimsóttu 22 þúsund manns Hvalasafnið. Íslendingar voru fjölmennasta gestaþjóðin en sem kunnugt er voru utanlandsferðir í lágmarki sumrin 2020 og 2021 vegna Covid 19. Árið 2019 heimsóttu 31 þúsund manns safnið þannig að óhætt er að segja að Hvalasafnið eigi inni fyrir komandi sumri, gefið að ferðatakmarkanir verði litlar sem engar
Í liðinni viku heimsótti Eva Björk þær Litlu-Grá og Litlu-Hvít, mjaldrana sem fluttu á síðasta ári frá sædýragarði í Kína til Klettsvíkur í Vestmannaeyjum.
Heimsóknin var mjög áhugaverð og fræðandi. Hvalasafnið hlakkar til samstarfs með Mjaldragarðinum á komandi árum.
Verkefnið var styrkt af Safnaráði.
Í nóvember síðastliðnum var tilkynnt að stjórnarformaður Hvalasafnsins á Húsavík, Þorkell Lindberg Þórarinsson hefði verið ráðinn nýr forstjóri Náttúrufræðistofnunnar Íslands. Þorkell, eða Lindi eins og hann er jafnan kallaður hafði undanfarin 17 ár gengt embætti forstöðumanns Náttúrustofu Norðurlands Eystra, og raunar hafði hann verið sá eini sem gengt hafði því embætti frá stofnun hennar. Lindi kom inn í stjórn Hvalasafnsins árið 2005 og hafði verið í henni allar götur síðan, þar af formaður í tvígang. Hann er sá einstaklingur sem lengst hefur gengt einhverskonar störfum fyrir Hvalasafnið. Lindi hætti um áramótin í stjórn safnsins og er honum þakkað góð störf undanfarinna 15 ára. Hvalasafnið á Húsavík og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa ávallt verið í góðu samstarfi og eru væntingar til áframhalds á því miklar. Stjórn Hvalasafnsins kom sér saman um að Jan Klitgaard tæki við stjórnarformennskunni fram að næsta aðalfundi sem verður haldinn á næstu vikum.
Aðspurður um helstu breytingar sem hafa orðið á starfi Hvalasafnsins í sinni stjórnartíð nefnir Lindi rekstrarumhverfi safnsins, auk þess sem húsnæði þess hafi tekið miklum stakkaskiptum. „Þegar ég kom fyrst inn sem varamaður í stjórn safnsins bar safnið enn öll einkenni frumkvöðlastarfs Ásbjörns Björgvinssonar. Hann stofnaði safnið upp úr engu og kom á legg með aðstoð góðs fólks, m.a. með því að koma því fyrir í gamla slátur- og frystihúsi K.Þ. þar sem Hvalasafnið hefur vaxið og dafnað síðan. Á þessum árum var safnið mjög háð opinberum styrkjum og velvilja fólks og fyrirtækja í samfélaginu hér á Húsavík, sem lagði til safnsins með ýmsum hætti. Eðli máls samkvæmt var margt mjög frumstætt á þessum tíma, bæði hvað varðaði húsnæði og rekstur. Safnið þróaðist síðan út í það að verða viðurkennt safn skv. safnalögum og mjög vel rekstrarhæf eining sem er sáralítið háð rekstrarstyrkjum, samhliða fjölgun ferðamanna. Með bættum rekstrargrundvelli gafst svo svigrúm til að sinna betur viðhaldi og frekari endurbótum hússins og umhverfi þess. Stórt skref í þeim málum var auðvitað sala á hluta jarðhæðarinnar til Steinsteypis ehf., sem safnið hefur átt gott samstarf við síðan. Það er því óhætt að segja að miklar breytingar hafa orðið á þessum tíma en það má þó ekki gleymast að enn eru það hvalagrindurnar sem Ásbjörn hóf að sanka að sér og setja upp sem eru kjarninn í safninu.“
Lindi segir að áskoranir Hvalasafnsins hafi sannarlega verið margar síðustu 15 ár og af ýmsum toga. Nýjasta áskorunin, Covid-19 faraldurinn, sé auðvitað sú sem fyrst kemur upp í hugann. Faraldurinn hafi sett mikið strik í reikninginn í rekstri safnsins síðasta árið og auðvitað ekki útséð hvernig verður með árið 2021. Vonandi muni þó að rofa til í ferðaþjónustu í sumar og þá ætti reksturinn að verða fljótur að taka við sér, því safnið hafi yfir að ráða mjög öflugu starfsfólki og það standi á traustum grunni bæði rekstrar- og sýningarlega séð. Af öðrum áskorunum síðustu ára segir Lindi að nefna mætti rekstrargrundvöllinn fyrstu árin sem hann var viðloða stjórn safnsins og húsnæðislagfæringar ýmis konar sem sumar hafi tekið í. Síðast en ekki síst mætti nefna steypireyðargrindina og uppsetningu hennar í safninu. Það hafi tekið langan tíma og mikla vinnu að fá grindina norður til Húsavíkur og þegar það var í höfn hafi tekið við mikil áskorun við að koma henni fyrir og setja upp í safninu.
Stjórn og framkvæmdastjóri Hvalasafnsins í kjölfar síðasta stjórnarfundar 2020. Frá vinstri: Jan Klitgaard, Eva Björk Káradóttir, Guðrún Þórhildur Emilsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Daniel Annisius.
Aðsókn í Hvalasafnið á Húsavík í sumar var framar vonum en rétt um 11.500 þúsund gestir heimsóttu safnið í júní, júlí og ágúst. Það er vel rúmur þriðjungur af þeim fjölda sem heimsóttu safnið á sömu mánuðum árið 2019. Þegar Covid 19 faraldurinn stóð sem hæst síðastliðið vor hafði verið gert ráð fyrir að gestir yrðu 10-20% af því sem væri í venjulegu ári. Íslendingar sóttu safnið heim í mun meira mæli en búist hafði verið við en þeir töldu rétt um 4500 eða rúm 39% af gestafjölda. Þjóðverjar voru fjölmennastir af gestaþjóðum en heilt yfir má segja að heimsóknir erlendra ferðamanna eftir 15. júní hafi verið fleiri en fyrirfram var búist við.
Starfsfólk Hvalasafnsins vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem heimsóttu safnið í sumar.
Nú taka við vetrarverkefni hjá starfsfólki Hvalasafnsins. Þau eru ansi fjölbreytt og innihalda ýmiskonar viðhald, fræðslustarf og fleira. Heimsfaraldurinn mun áfram hafa sitt að segja um afdrif sumra verkefna en vonandi er komið fram í seinni hálfleik í þeirri baráttu.
Hvalasafnið er opið út þessa viku frá 11-17 en svo breytast opnunartímarnir sem hér segir:
Mánudagar-Föstudagar: 11-15
Laugardagar-Sunnudagar: 11-17
Eftir 6 vikna lokun vegna Covid 19 opnaði Hvalasafnið á ný í dag. Opnunartímar í maí eru frá 12-16. Lokað verður á sunnudögum. Nóg til af spritti og verður tveggja metra reglan að sjálfsögðu virt. Þá er hámarksfjöldi gesta inni á safninu bundinn við 50 manns í einu.
Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra á Hvalasafninu er starfsfólki nokkuð létt að geta opnað safnið á ný, enda þótt sjálfsagt verði gestir mjög fáir fyrstu vikurnar. Strax í dag hafi komið nokkrir gestir á safnið og því nokkuð líflegt um að litast miðað við síðustu vikur á undan. Hvalasafnið ætti að sögn Heiðars að vera skylduviðkomustaður innlendra ferðamanna í sumar enda afar vel heppnað safn sem meðal annars hýsir aðra af tveimur steypireyðargrindum sem til sýninga eru í Evrópu.
Starfsfólk Hvalasafnsins fór um síðastliðna helgi ásamt mökum sínum í vel heppnaða námsferð til New York. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Ameríska Náttúrugripasafnið (American Museum of Natural History) með því markmiði að kanna raunhæfar leiðir til gagnvirkra- og stafrænna lausna fyrir Hvalasafnið. Fundað var með tveimur starfsmönnum Náttúrugripasafnsins, þeim Jennifer Chow framkvæmdastjóra markaðsmála og Raphael Pelegrino yfirmanni stafrænna tæknilausna. Auk þess var safnið skoðað hátt og lágt. Það sem eftir lifði helgar var eytt í allskyns afþreyingu í borginni enda að nægu að taka. Veðrið var Íslendingunum afar hagstætt, heiðskírt og sól enda þótt hitastigið hafi verið í takt við árstíma.
Starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík vill þakka kollegum sínum á Ameríska náttúrugripasafninu fyrir góðar móttökur og hlakkar til mögulegs samstarfs í framtíðinni.
Hvalasafnið verður lokað 20. – 24. Febrúar vegna námsferðar starfsmanna til New York þar sem starfsmönnum er boðið í heimsókn á Ameríska náttúruminjasafnið. Tilgangur heimsóknarinnar er að skoða hvernig safnið nýtir gagnvirka sýningartækni til þess að efla fræðslu og þátttöku gesta sem heimsækja safnið.
Hvalasafnið opnar aftur þriðjudaginn 25. Febrúar.
Ferðin er styrkt af Safnaráði.