Fæða og fæðuleit

Veiðiaðferðir

Undirættbálkar hvala eru tveir, skíðishvalir og tannhvalir. Fæðuval og veiðiaðferðir tannhvala og skíðishvala eru talsvert ólíkar. Skíðishvalir nota skíðin til að sía fæðuna frá sjónum í kjaftinum. Tannhvalirnir veiða stærri sjávardýr s.s. fisk, smokkfisk og kolkrabba. Saman taka þessir tveir ættbálkar hvala fæðu úr nær öllum þrepum í fæðukeðju sjávar.

 

 

 

Fæðuöflun skíðishvala

Skíðishvalir nærast á algengustu og
ríkulegustu fæðu í sjónum, dýrasvifi, krabbadýrum og smáfiski. Skíðin eru afkastamikil sía sem skilur bráðina frá því sjónum. Hvalirnir opna kjaftinn upp á gátt, allt að 90°, til að gleypa sjó og átu, loka honum og þvinga sjóinn út milli skíðanna. Fæðuna sem eftir situr skrapa þeir af góm og skíðum með tungunni og kyngja.

 

 

Fæðuöflun tannhvala

Tengsl eru á milli bráðar tannhvala, stærðar hvalanna og hversu margar tennur þeir hafa. Tennurnar eru allar eins, keilulaga og henta til að grípa og slíta en ekki tyggja. Tannhvalir gleypa því bráðina oftast í heilu lagi eða sjúga hana ofan í sig.

 

Tengsl fæðu og fars hvala

Tannhvalir éta allan ársins hring og halda sig á svæðum þar sem bráð er alltaf til staðar. Flestar tegundir skíðishvala ferðast um langan veg til að éta og fæðuöflun þeirra  er takmörkuð við 3 til 5 mánuði á ári. Á þeim tíma auka þeir þyngd sína um 40%, spiklagið þykknar og minnkar síðan smátt og smátt það sem eftir lifir ársins. Skíðishvalirnir nærast mjög takmarkað þá sex til níu mánuði sem þeir eru fjarri bestu átsvæðunum.