Hvalasafnið á Húsavík fékk heldur betur upplyftingu í dag þegar að listaverk eftir spænsku listakonuna Renötu Ortega voru sett upp utan á suðurhlið hússins. Það var Trésmiðjan Val ehf. sem sá um útfærslu og uppsetningu á listaverkunum. Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra safnsins kom hugmyndin um listaverkin upp í tengslum við miklar endurbætur á húsinu. Starfsfólki safnsins hafi langað til þess að útbúa ákveðið tilbrigði af hinum auðkennandi hvalamálverkum sem einkenndu ytra útlit safnsins á árunum 2001-2018. Listaverkin hafi því þótt kærkomin þar sem þau hylja gamla stálglugga sem voru farnir að láta verulega á sjá.
Heiðar sem einnig situr í Framkvæmda- og skipulagsráði Norðurþings segist vona að uppátækið hvetji fleiri til að gera slíkt hið sama. Listaverk sem þessi séu hin mesta húsprýði og lífgi upp á tilveruna.
Vorið nálgast æ meir enda þótt enn sé snjór á Húsavík. Í fær fengust fréttir af því að fyrstu lundarnir væru mættir í Grímsey og ætti því ekki að vera langt þar til að Lundey taki á móti sínum árlegu sumargestum í þeim tilgangi að ala upp ungviði sín.
Í dag hóf Húsavík Adventures sitt hvalaskoðunartímabil og hafa þá þrjú fyrirtæki hafið starfsemi sína fyrir árið 2019. Þetta er fimmta vertíðin hjá RIB-hvalaskoðunarfyrirtækinu sem var stofnað um mitt sumar 2015. Að þessu tilefni veitti Eva Björk Káradóttir forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík Ármanni Erni Gunnlaugssyni framkvæmdastjóra Húsavík Adventures blómvönd og teikningu eftir spænsku listakonuna Renu Ortega.
Það er kominn 1. apríl, sumarið er rétt handan við hornið og dagsbirtan eykst með hverjum deginum sem líður. Dagurinn í dag markar þau tímamót að hér eftir verður opið alla daga til og með 1. nóvember.
Verið velkomin til Húsavíkur og kíkiði á beinagrind stærsta dýrs jarðarinnar!