Kvikmyndahátíð í Hvalasafninu

Dagana 18. og 19. ágúst næstkomandi verður kvikmyndahátíðin Ocean Films Húsavík haldin hátíðleg í Hvalasafninu. Hátíðin sem er samstarfsverkefni Hvalasafnsins og sjávarverndunarsamtakanna Whale Wise var fyrst haldin 2021 og er meginþema hátíðarinnar sérvaldar kvikmyndir sem snúa að hafinu og lífríki þess. Báða sýningardagana verða sýndar myndir frá kl. 19-23 og opnar húsið 18:45. Að þessu sinni verða myndir hátíðarinnar einnig algengar á internetinu frá 18. ágúst til 1. september. Hægt verður að horfa á myndirnar HÉR.

Lindi hættur sem formaður Hvalasafnsins

Í nóvember síðastliðnum var tilkynnt að stjórnarformaður Hvalasafnsins á Húsavík, Þorkell Lindberg Þórarinsson hefði verið ráðinn nýr forstjóri Náttúrufræðistofnunnar Íslands. Þorkell, eða Lindi eins og hann er jafnan kallaður hafði undanfarin 17 ár gengt embætti forstöðumanns Náttúrustofu Norðurlands Eystra, og raunar hafði hann verið sá eini sem gengt hafði því embætti frá stofnun hennar. Lindi kom inn í stjórn Hvalasafnsins árið 2005 og hafði verið í henni allar götur síðan, þar af formaður í tvígang. Hann er sá einstaklingur sem lengst hefur gengt einhverskonar störfum fyrir Hvalasafnið. Lindi hætti um áramótin í stjórn safnsins og er honum þakkað góð störf undanfarinna 15 ára. Hvalasafnið á Húsavík og Náttúrufræðistofnun Íslands hafa ávallt verið í góðu samstarfi og eru væntingar til áframhalds á því miklar. Stjórn Hvalasafnsins kom sér saman um að Jan Klitgaard tæki við stjórnarformennskunni fram að næsta aðalfundi sem verður haldinn á næstu vikum.

 

Aðspurður um helstu breytingar sem hafa orðið á starfi Hvalasafnsins í sinni stjórnartíð nefnir Lindi rekstrarumhverfi safnsins, auk þess sem húsnæði þess hafi tekið miklum stakkaskiptum. „Þegar ég kom fyrst inn sem varamaður í stjórn safnsins bar safnið enn öll einkenni frumkvöðlastarfs Ásbjörns Björgvinssonar. Hann stofnaði safnið upp úr engu og kom á legg með aðstoð góðs fólks, m.a. með því að koma því fyrir í gamla slátur- og frystihúsi K.Þ. þar sem Hvalasafnið hefur vaxið og dafnað síðan. Á þessum árum var safnið mjög háð opinberum styrkjum og velvilja fólks og fyrirtækja í samfélaginu hér á Húsavík, sem lagði til safnsins með ýmsum hætti. Eðli máls samkvæmt var margt mjög frumstætt á þessum tíma, bæði hvað varðaði húsnæði og rekstur. Safnið þróaðist síðan út í það að verða viðurkennt safn skv. safnalögum og mjög vel rekstrarhæf eining sem er sáralítið háð rekstrarstyrkjum, samhliða fjölgun ferðamanna. Með bættum rekstrargrundvelli gafst svo svigrúm til að sinna betur viðhaldi og frekari endurbótum hússins og umhverfi þess. Stórt skref í þeim málum var auðvitað sala á hluta jarðhæðarinnar til Steinsteypis ehf., sem safnið hefur átt gott samstarf við síðan. Það er því óhætt að segja að miklar breytingar hafa orðið á þessum tíma en það má þó ekki gleymast að enn eru það hvalagrindurnar sem Ásbjörn hóf að sanka að sér og setja upp sem eru kjarninn í safninu.“

 

Lindi segir að áskoranir Hvalasafnsins hafi sannarlega verið margar síðustu 15 ár og af ýmsum toga. Nýjasta áskorunin, Covid-19 faraldurinn, sé auðvitað sú sem fyrst kemur upp í hugann. Faraldurinn hafi sett mikið strik í reikninginn í rekstri safnsins síðasta árið og auðvitað ekki útséð hvernig verður með árið 2021. Vonandi muni þó að rofa til í ferðaþjónustu í sumar og þá ætti reksturinn að verða fljótur að taka við sér, því safnið hafi yfir að ráða mjög öflugu starfsfólki og það standi á traustum grunni bæði rekstrar- og sýningarlega séð. Af öðrum áskorunum síðustu ára segir Lindi að nefna mætti rekstrargrundvöllinn fyrstu árin sem hann var viðloða stjórn safnsins og húsnæðislagfæringar ýmis konar sem sumar hafi tekið í. Síðast en ekki síst mætti nefna steypireyðargrindina og uppsetningu hennar í safninu. Það hafi tekið langan tíma og mikla vinnu að fá grindina norður til Húsavíkur og þegar það var í höfn hafi tekið við mikil áskorun við að koma henni fyrir og setja upp í safninu.

Stjórn og framkvæmdastjóri Hvalasafnsins í kjölfar síðasta stjórnarfundar 2020. Frá vinstri: Jan Klitgaard, Eva Björk Káradóttir, Guðrún Þórhildur Emilsdóttir, Hjálmar Bogi Hafliðason, Lilja Berglind Rögnvaldsdóttir, Þorkell Lindberg Þórarinsson, Daniel Annisius.

 

 

Hvalasafnið opið á nýjan leik

Eftir 6 vikna lokun vegna Covid 19 opnaði Hvalasafnið á ný í dag. Opnunartímar í maí eru frá 12-16. Lokað verður á sunnudögum. Nóg til af spritti og verður tveggja metra reglan að sjálfsögðu virt. Þá er hámarksfjöldi gesta inni á safninu bundinn við 50 manns í einu.

Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra á Hvalasafninu er starfsfólki nokkuð létt að geta opnað safnið á ný, enda þótt sjálfsagt verði gestir mjög fáir fyrstu vikurnar. Strax í dag hafi komið nokkrir gestir á safnið og því nokkuð líflegt um að litast miðað við síðustu vikur á undan. Hvalasafnið ætti að sögn Heiðars að vera skylduviðkomustaður innlendra ferðamanna í sumar enda afar vel heppnað safn sem meðal annars hýsir aðra af tveimur steypireyðargrindum sem til sýninga eru í Evrópu.

Ágrip úr sögu Hvalasafnsins: 1998

Þann 17. júní Árið 1998 flutti safnið í um 200 m2 rými á efri hæð “Verbúðanna” við höfnina undir nafninu “Hvalamiðstöðin á Húsavík”. Gestafjöldi óx jafnt og þétt og samhliða því þörfin fyrir stærra húsnæði sem hentaði starfsemi safnsins betur.

Verbúðirnar á Húsavík urðu heimili Hvalamiðstöðvarinnar árið 1998 og gegndu því hlutverki næstu árin
Þorvaldur Björnsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur hér að hreinsun hvalbeina til uppsetningar á sýningu
Svipmyndir af safninu
Ásbjörn Björgvinsson við vígslu Hvalamiðstöðvarinnar í Verbúðunum

Ágrip úr sögu Hvalasafnsins: 1997

Forveri Hvalasafnsins á Húsavík var lítil sýning í sal félagsheimilisins á efri hæð Hótels Húsavíkur sem opnaði árið 1997. Á þessum tíma voru áætlaðar hvalaskoðunarferðir í boði þriðja árið í röð frá Húsavík og fékk hótelstjóri staðarhótelsins Páll Þór Jónsson þá hugmynd að opna sýningu á hótelinu tileinkaða hvölum. Ásbjörn Björgvinsson var fenginn til að leiða verkið og flutti hann norður ásamt fjölskyldu sinni í janúar 1997.

Þessi blaðagrein birtist í Morgunblaðinu þegar sýningin á Hótel Húsavík var orðin að veruleika.

Ásbjörn fór til Englands á Breska náttúrusögusafnið á fund Richard Sabin sýningarstjóra safnsins í þeim tilgangi að læra að verka af hvalbeinunum en þar er að finna stærsta beinagrindasafn heims. Richard Sabin hefur verið í tengslum við safnið og Húsavík allar götur síðan. Hann stjórnaði til að mynda aðgerðum við uppgröft hvalbeina á Keflavík á Ströndum árið 2001 en þeim fundi er gerð betur skil í einu af sýningarrýmum safnsins.

Richard Sabin og Ásbjörn Björgvinsson á góðri stundu við uppgröftinn í Keflavík á Ströndum.

Richard

Ágrip úr sögu Hvalasafnsins: 1992-1995

Hvalasafnið á Húsavík opnaði á vordögum 2019 veglega afmælissýningu í tilefni 20 ára afmælis safnsins ári áður.
Á næstunni munu birtast kaflar úr sögu safnsins hér á hvalasafn.is. Við hefjum leik árið 1992 en líkt og í öllum góðum sögum fylgir smá forsaga.

Uppruna þess að Hvalasafnið á Húsavík varð til má rekja til tilraunaferða í hvalaskoðun sem fyrst voru farnar frá Höfn í Hornafirði sumrin 1992-1994. Í fyrstu ferðinni var breskur leiðsögumaður Mark Carwardine að nafni ásamt Ásbirni Björgvinssyni sem síðar átti eftir að stofna Hvalasafnið á Húsavík. Þetta voru langar siglingar eða um 8 klst. Árið 1994 hófust hvalaskoðunarferðir á Húsavík hjá Arnari Sigurðssyni sem rak fyrirtækið Sjóferðir Arnars. Ári síðar komu nokkrir hópar í hvalaskoðun á Húsavík, meðal annars frá Discover the World. Hval hafði þá fækkað í nágrenni Hafnar, auk þess sem siglingatími var mun styttri á Skjálfanda. Vitað var að svæðið væri gamalt hrefnuveiðisvæði og því ætti að vera hval að finna. Haldið var námskeið í Keflavík 1995 þar sem fjallað var um hvalaskoðun sem atvinnugrein. Fengnir voru erlendir fyrirlesarar meðal annars Erich Hoyt til að gefa innsýn í þessa atvinnugrein sem átti eftir að verða gríðarstór síðarmeir. Þetta sumar fóru voru tvö fyrirtæki starfrækt í hvalaskoðun á Húsavík, Norðursigling og Sjóferðir Arnars.

Mark Carwardine ásamt Huld Hafliðadóttur, fyrrverandi verkefnisstjóra Hvalasafnsins (Mynd: Northsailing.is, 2011)
Erich Hoyt hefur komið við sögu hvalaskoðunar á Íslandi frá upphafi. Nú síðast hélt hann erindi á árlegri hvalaráðstefnu Hvalasafnsins í maí 2019 (Mynd: Erichhoytbooks.com)
Hnúfubakur stingur sér á kaf. Myndin er tekin um miðjan tíunda áratuginn.

Hvalir í Skjálfandaflóa: Hnúfubakur

Þá er komið að síðustu færslunni um algengustu hvalategundirnar í Skjálfandaflóa. Nú verður fjallað um hnúfubakinn sem er sú hvalategund sem oftast sést í skoðunarferðum í flóanum.

Latneskt heiti: Megaptera novaengliae              
Enskt heiti: Humpback whale   
Íslenskt heiti: Hnúfubakur        
Meðalaldur: 50 ár          
Fæðuval: Ljósáta og litlir fiskar 
Stærð: 13 – 17 metrar  
Þyngd: 25-45 tonn

Hnúfubakar skipa eina stærstu hvalategundina, þar sem karldýrin ná 14 metra lengd og kvendýrin upp í 17 metra lengd – svipað og meðalstrætisvagn! Bægslin eru rétt um þriðjungur af lengd dýranna og geta orðið allt að 6 metrar. Hnúfubakar hafa mikla hreyfiþörf og má reglulega sjá þá stökkva upp úr sjónum eða slá sporðum og bægslum. Kenningar eru til um að þessi hegðun sé þeirra aðfer til að hafa innbyrðis samskipti en einnig gæti þetta verið aðferð til að sýna félagslega yfirburði og góða heilsu á fengitíma. Hnúfubakar nota einnig hljóðmerki eril að hafa samskipti við hvern annan. Karldýrin syngja á fengitíma og getur hvert “lag” verið upp í hálftíma langt og heyrst í allt að 30 km fjarlægð.

Árið er tvískipta hjá hnúfubökum. Annarsvegar í fæðuöflun og hinsvegar fengitíma. Á sumrin má finna hnúfubaka í köldum og næringarríkum sjó, t.a.m. við strendur Íslands, Noregs og Kanada þar sem þeir borða ljósátur. Á veturnar flytjast þeir búferlum til hlýrri svæða nýr miðbaug, t.a.m. í Karabíahaf. Hnúfubakar makast og eignast afkvæmi í hlýjum sjó. Meðgöngutímabilið er 11 mánuðir. Þegar að kálfarnir koma í heiminn eru þeir um 4,5 metra langir og 900 kg að þyngd. Þeir geta drukkið upp í 600 lítra af mjólk á dag. Móðir og afkvæmi eiga samskipti með “hvísli” sem er til þess að varast rándýr svo sem háhyrninga.  

Hnúfubakar eru skíðishvalir og nota síunaraðferð (filter feeding) til fæðuinntöku. Þeir eru þekktir fyrir að hafa nokkrar aðferðir til fæðuinntökunnar. Ein af þeim er svokölluð loftbóluaðferð. Hún virkar þannig að hnúfubakurinn blæs lofti frá blástursopinu þannig að bráðin færist upp á yfirborð sjávar. Þá ráðast þeir til atlögu og gleypa fæðuna.

Hnúfubakar kafa að meðaltali um 5-10 mínútur í einu en geta kafað allt upp í 40 mínútur. Sundhraðinn er um 5-15 km/klst en þegar þeir eru að borða hægist á þeim niður í 2,5-5 km/klst. Hámarkshraði þeirra er hinsvegar um 25 km/klst.

Hnúfubakar eru sem áður segir mjög algeng sjón í Skjálfandaflóa og hefur viðvera þeira aukist síðustu árin. Aðaltímabil þeirra er vissulega á sumrin en það ætti þó að vera hægt að sjá hnúfubak flesta daga frá maí til nóvember.

Hvalir í Skjálfandaflóa: Hnýðingur

Þá er komið að því að kynna til leiks hnýðinga, en þeir eru ansi algeng sjón í Skjálfandaflóa.

Latneskt heiti: Lagenorhynchus albirostris   
Enskt heiti: White-beaked dolphin  
Íslenskt heiti:  Hnýðingur
Meðallíftími: 30 – 40 ár         
Fæðuval: Fiskar, krabbadýr og kolkrabbar  
Stærð: u.þ.b. 3 metrar           
Þyngd: 180-350 kg

Hnýðingar eru landlægir í Norður Atlandshafi. Þá má eingöngu finna frá norðausturströnd Bandaríkjanna og norðvestan við Evrópu upp að Spitsbergen á Svalbarða. Hnýðingar eru mjög félagssinnaðir. Þeir lifa í hópum sem telja allt frá fimm til 50, en við sérstakar aðstæður geta hóparnir orðið allt frá 100 upp í 1000 hnýðingar. Stundum kynjaskiptast hóparnir.

Hnýðingar geta synt mjög hratt eða upp í 45 km/klst. Þegar þeir ferðast á sem mestum hraða stökkva þeir stundum meðfram því sem þeir synda.
Hnýðingar verða kynþroska um 7 ára gamlir. Fengitími er frá maí og fram í September. Meðgöngutími er 11 mánuðir og þegar kálfarnir fæðast eru þeir 1 meter að lengd og 40 kg að þyngd.  

Ungir hnýðingar elska að leika sér í kjölsogi báta og stærri hvala. Þeim finnst það svo gaman að stundum áreita þeir hvali í þeim tilgangi að þeir syndi hraðar þanig að kjölsog skapist.

Hver og einn hnýðingar hefur sértækt tónsvið sem aðrir hnýðingar geta sundurgreint gegnum flaut og smelli sem þeir gefa frá sér.

Hnýðinga má finna í Skjálfandaflóa allt árið. Yfir sumarið er stundum hægt að sjá móður og afkvæmi saman.

Hvalir í Skjálfandaflóa: Hrefna

Þá er komið að umfjöllun no. 3 um algengustu hvalategundir í Skjálfandaflóa. Að þessu sinni kynnum við til leiks Hrefnu.

Latínskt heiti: Balaenoptera acutorostrata       
Enskt heiti: Minke whale           
Íslenskt heiti: Hrefna   
Meðallíftími: 50 ár        
Fæðuval: Ljósáta og smár fiskur              
Stærð: 6 – 10 metrar     
Þyngd: 10 tonn

Hrefnur eru meðal minnstu skíðshvala sem fyrirfinnast. Það eru til tvær gerðir af hrefnum, norðurhafshrefna og suðurhafshrefna. Þær fyrrnefndu finnast víða í kringum Ísland.  

Hrefnur líkt og aðrir skíðishvalir nota “síunaraðferð” til fæðuinntöku. Þær lifa að mestu leyti stakar frekar en í hópum. Hámarkssundhraði er um 40 km/klst og synda þær að jafnaði 5-25 km vegalengd á hverri klukkustund. Hrefnur verða fyrir árásum frá háhyrningum en þeir eltingaleikir geta staðið í allt að einni klukkustund. Hrefnur eru einnig þekktar fyrir illa lyktandi andardrátt sem hefur leitt af sér hið óeftirsóknarlega gælunefndi ”stinky minke”. Hrefnur kafa jafnan upp í 20 mínútur enda þótt meðalköfunartími sé aðeins 3-5 mínútur. Þær sýna yfirleitt ekki sporðinn þegar þær stinga sér til köfunar.

Hrefnur verða kynþroska Minke þegar þær ná 6 ára aldri. Líkt og flestar tegundir skíðishvala flytjast þær búferlum í enda sumarsins til hlýrri svæða í suðurhöfum. Þær nota hlýja sjóinn til þess að æxlast og eignast afkvæmi en meðgöngutími Hrefna er 10 mánuðir. Þunguð kvendýrin leggja því fyrr af stað til vetrardvalar í suðurhöfum en hinar hrefnurnar. Afkvæmin fæðast um 2,5 metra long og 450 kg að þyngd. Á fyrstu 6 mánuðum lífsins tvöfaldast þau að stærð.  

Hrefnur eru ein af þeim hvalategundum sem enn er gefið veiðileyfi á, til að mynda í Japan hvar yfirvöld hafa leyft veiðar á 52 hrefnum árið 2019. Suðurhafshrefnan er skráð í útrýmingarhættu samkvæmt rauða lista Alþjóða náttúruverndarsamtakanna.

Hrefnur í Skjálfandaflóa er hægt að sjá allt árið en fjöldi þeirra og líkur á að sjá þær fara engu að síður minnkandi. Er þar um að kenna hlýnun sjávar sem veldur því að bráðin leitar í kaldari sjó norðan við Ísland. Hrefnan hefur því undanfarin ár verið að færa sig norðar í takt við þetta.

Gestafjöldi í júlí fram úr væntingum

Gestir Hvalasafnsins á Húsavík í júlí 2019 voru tæpir 10 þúsund talsins. Það er fjölgun upp á rúm 11% frá árinu 2018 og ívið fleiri en heimsóttu safnið í júlí 2017. Þjóðverjar og Bandaríkjamenn eru áfram fjölmennir sem hlutfall af heildargestafjölda en þá hefur einnig verið góð aðsókn frá mörgum Mið-Evrópuríkjum, ekki síst Frakklandi.

Þessi fjölgun gesta á háannatímanum verður að teljast afar ánægjuleg og jafnvel óvænt tíðindi fyrir Hvalasafnið. Í kjölfar tíðinda um fall WOW Air síðastliðið vor þótti líklegt að mikil fækkun yrði á komum ferðamanna til landsins og myndi það koma illilega niður á landsbyggðinni. Það er því afar gleðilegt að upplifa vísi af því að ferðamönnum fækki ekki, enda þótt ekki sé hægt að heimfæra gestafjölda Hvalasafnsins yfir á heildarfjölda ferðamanna sem heimsækja Norðurland.