Þann 17. júní Árið 1998 flutti safnið í um 200 m2 rými á efri hæð “Verbúðanna” við höfnina undir nafninu “Hvalamiðstöðin á Húsavík”. Gestafjöldi óx jafnt og þétt og samhliða því þörfin fyrir stærra húsnæði sem hentaði starfsemi safnsins betur.
Forveri Hvalasafnsins á Húsavík var lítil sýning í sal félagsheimilisins á efri hæð Hótels Húsavíkur sem opnaði árið 1997. Á þessum tíma voru áætlaðar hvalaskoðunarferðir í boði þriðja árið í röð frá Húsavík og fékk hótelstjóri staðarhótelsins Páll Þór Jónsson þá hugmynd að opna sýningu á hótelinu tileinkaða hvölum. Ásbjörn Björgvinsson var fenginn til að leiða verkið og flutti hann norður ásamt fjölskyldu sinni í janúar 1997.
Ásbjörn fór til Englands á Breska náttúrusögusafnið á fund Richard Sabin sýningarstjóra safnsins í þeim tilgangi að læra að verka af hvalbeinunum en þar er að finna stærsta beinagrindasafn heims. Richard Sabin hefur verið í tengslum við safnið og Húsavík allar götur síðan. Hann stjórnaði til að mynda aðgerðum við uppgröft hvalbeina á Keflavík á Ströndum árið 2001 en þeim fundi er gerð betur skil í einu af sýningarrýmum safnsins.
Richard
Gestir Hvalasafnsins á Húsavík í júlí 2019 voru tæpir 10 þúsund talsins. Það er fjölgun upp á rúm 11% frá árinu 2018 og ívið fleiri en heimsóttu safnið í júlí 2017. Þjóðverjar og Bandaríkjamenn eru áfram fjölmennir sem hlutfall af heildargestafjölda en þá hefur einnig verið góð aðsókn frá mörgum Mið-Evrópuríkjum, ekki síst Frakklandi.
Þessi fjölgun gesta á háannatímanum verður að teljast afar ánægjuleg og jafnvel óvænt tíðindi fyrir Hvalasafnið. Í kjölfar tíðinda um fall WOW Air síðastliðið vor þótti líklegt að mikil fækkun yrði á komum ferðamanna til landsins og myndi það koma illilega niður á landsbyggðinni. Það er því afar gleðilegt að upplifa vísi af því að ferðamönnum fækki ekki, enda þótt ekki sé hægt að heimfæra gestafjölda Hvalasafnsins yfir á heildarfjölda ferðamanna sem heimsækja Norðurland.
Í dag er 1. ágúst og má því sannarlega segja að hápunktinum í íslenska ferðasumrinu sé náð. Þegar þetta er skrifað er 22 stiga hiti á Húsavík, mikið af ferðamönnum og bærinn iðandi af lífi. Sumarið var ansi seint á ferðinni þetta árið. Júní var kaldur og votviðrasamur og stór hluti af júlí einnig. Fjöldi ferðamanna stóðst þó væntingar að miklu leyti. Þá hefur hvalaskoðun á Skjálfandaflóa gengið vel og mikið líf búið að vera í flóanum í allt sumar. Að vanda hefur verið mikið af hnúfubökum, hrefnum og höfrungum og einnig hafa steypireyðar sést mörgum sinnum. Þá hafa háhyrningar sést töluvert oftar en undanfarin ár.
Almennt hefur allur gangur verið á hvalaskoðun á Íslandi þetta sumarið. Samkvæmt vísi.is hefur til að mynda verið mjög lítið um hval í Eyjafirði í júlímánuði.
Mynd: Christian Schmidt
Hvalasafnið á Húsavík fékk heldur betur upplyftingu í dag þegar að listaverk eftir spænsku listakonuna Renötu Ortega voru sett upp utan á suðurhlið hússins. Það var Trésmiðjan Val ehf. sem sá um útfærslu og uppsetningu á listaverkunum. Að sögn Heiðars Hrafns Halldórssonar verkefnisstjóra safnsins kom hugmyndin um listaverkin upp í tengslum við miklar endurbætur á húsinu. Starfsfólki safnsins hafi langað til þess að útbúa ákveðið tilbrigði af hinum auðkennandi hvalamálverkum sem einkenndu ytra útlit safnsins á árunum 2001-2018. Listaverkin hafi því þótt kærkomin þar sem þau hylja gamla stálglugga sem voru farnir að láta verulega á sjá.
Heiðar sem einnig situr í Framkvæmda- og skipulagsráði Norðurþings segist vona að uppátækið hvetji fleiri til að gera slíkt hið sama. Listaverk sem þessi séu hin mesta húsprýði og lífgi upp á tilveruna.
Vorið nálgast æ meir enda þótt enn sé snjór á Húsavík. Í fær fengust fréttir af því að fyrstu lundarnir væru mættir í Grímsey og ætti því ekki að vera langt þar til að Lundey taki á móti sínum árlegu sumargestum í þeim tilgangi að ala upp ungviði sín.
Í dag hóf Húsavík Adventures sitt hvalaskoðunartímabil og hafa þá þrjú fyrirtæki hafið starfsemi sína fyrir árið 2019. Þetta er fimmta vertíðin hjá RIB-hvalaskoðunarfyrirtækinu sem var stofnað um mitt sumar 2015. Að þessu tilefni veitti Eva Björk Káradóttir forstöðumaður Hvalasafnsins á Húsavík Ármanni Erni Gunnlaugssyni framkvæmdastjóra Húsavík Adventures blómvönd og teikningu eftir spænsku listakonuna Renu Ortega.
Það er kominn 1. apríl, sumarið er rétt handan við hornið og dagsbirtan eykst með hverjum deginum sem líður. Dagurinn í dag markar þau tímamót að hér eftir verður opið alla daga til og með 1. nóvember.
Verið velkomin til Húsavíkur og kíkiði á beinagrind stærsta dýrs jarðarinnar!