Af framkvæmdum og öðrum verkefnum

Vetrinum lýkur senn enda þótt eitt og eitt vorhret muni ef til vill líta dagsins ljós fram að sumrinu. Veturnir eru ekki síður mikilvægir safnastarfi eins og háannatími sumarsins en þó á gjörólíkan hátt. Á meðan að sumarið fer í stóran meirihluta gestamóttöku ársins eru veturnir notaðir til viðhalds, nýsköpunar og safnafræðslu.

Í febrúar smíðaði Trésmiðjan Val ehf. smíðað stigahús sem liggur frá frá 1. hæð niður á jarðhæð. Framkvæmdirnar eru tilkomnar vegna komu Hraðsins- nýsköpunarseturs á jarðhæð Hafnarstéttar 1 sem mun jafnframt tengjast Langaneshúsinu, Hafnarstétt 3 með þar til gerðu glerhýsi. Stigahúsið mun gera starfsfólki í húsunum tveimur kleyft að ferðast innanhúss um allt rými húsanna tveggja en töluvert samstarf verður milli fyrirtækja og stofnana sem hafa aðsetur þar.

Búið er að setja upp nýtt öryggis- og brunavarnakerfi í safninu en gamla kerfið var komið til ára sinna. Kerfið sjálft er keypt af Öryggismiðstöðinni en EG Jónasson ehf. sáu um lagnavinnu.

Á síðustu aðventu hýsti Hvalasafnið jólamarkað í þrígang. Markaðurinn sem var samvinnuverkefni Húsavíkurstofu og Fimleikadeildar Völsungs var haldinn á 1. hæð Hvalasafnsins. Fjölbreyttar vörur voru á boðstólnum, flestallar hannaðar í nærhéraði. Í undirbúningi markaðsins var veggur rifinn niður og 20 ára afmælissýning Hvalasafnsins fjarlægð en hún var opnuð í maí árið 2019. Til stendur að opna nýja sýningu á vordögum um náttúru hafsins. Textavinna er unninn innan safnsins en hönnun er í höndun Þórarins Blöndals. Þórarinn er safninu vel kunnur en hann hannaði heildrænt útlit steypireyðarsýningarinnar sem og hvalveiðisýningarinnar á safninu. Þá er nýja sýningin einnig unnin í samstarfi við Strýtan Divecenter á Hjalteyri sem útvega myndefni.

Árið 2021 heimsóttu 22 þúsund manns Hvalasafnið. Íslendingar voru fjölmennasta gestaþjóðin en sem kunnugt er voru utanlandsferðir í lágmarki sumrin 2020 og 2021 vegna Covid 19. Árið 2019 heimsóttu 31 þúsund manns safnið þannig að óhætt er að segja að Hvalasafnið eigi inni fyrir komandi sumri, gefið að ferðatakmarkanir verði litlar sem engar

Sumarlok

Aðsókn í Hvalasafnið á Húsavík í sumar var framar vonum en rétt um 11.500 þúsund gestir heimsóttu safnið í júní, júlí og ágúst. Það er vel rúmur þriðjungur af þeim fjölda sem heimsóttu safnið á sömu mánuðum árið 2019. Þegar Covid 19 faraldurinn stóð sem hæst síðastliðið vor hafði verið gert ráð fyrir að gestir yrðu 10-20% af því sem væri í venjulegu ári. Íslendingar sóttu safnið heim í mun meira mæli en búist hafði verið við en þeir töldu rétt um 4500 eða rúm 39% af gestafjölda. Þjóðverjar voru fjölmennastir af gestaþjóðum en heilt yfir má segja að heimsóknir erlendra ferðamanna eftir 15. júní hafi verið fleiri en fyrirfram var búist við.

Starfsfólk Hvalasafnsins vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem heimsóttu safnið í sumar.

Nú taka við vetrarverkefni hjá starfsfólki Hvalasafnsins. Þau eru ansi fjölbreytt og innihalda ýmiskonar viðhald, fræðslustarf og fleira. Heimsfaraldurinn mun áfram hafa sitt að segja um afdrif sumra verkefna en vonandi er komið fram í seinni hálfleik í þeirri baráttu.

Hvalasafnið er opið út þessa viku frá 11-17 en svo breytast opnunartímarnir sem hér segir:

Mánudagar-Föstudagar: 11-15
Laugardagar-Sunnudagar: 11-17

Vel heppnuð námsferð til New York City

Starfsfólk Hvalasafnsins fór um síðastliðna helgi ásamt mökum sínum í vel heppnaða námsferð til New York. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Ameríska Náttúrugripasafnið (American Museum of Natural History) með því markmiði að kanna raunhæfar leiðir til gagnvirkra- og stafrænna lausna fyrir Hvalasafnið. Fundað var með tveimur starfsmönnum Náttúrugripasafnsins, þeim Jennifer Chow framkvæmdastjóra markaðsmála og Raphael Pelegrino yfirmanni stafrænna tæknilausna. Auk þess var safnið skoðað hátt og lágt. Það sem eftir lifði helgar var eytt í allskyns afþreyingu í borginni enda að nægu að taka. Veðrið var Íslendingunum afar hagstætt, heiðskírt og sól enda þótt hitastigið hafi verið í takt við árstíma.

Starfsfólk Hvalasafnsins á Húsavík vill þakka kollegum sínum á Ameríska náttúrugripasafninu fyrir góðar móttökur og hlakkar til mögulegs samstarfs í framtíðinni.

Starfsfólk Hvalasafnsins heilsar upp á Jennifer Chow, framkvæmdastjóra markaðsmála á ANHM
Hópurinn sem ferðaðist saman til New York

Ágrip úr sögu Hvalasafnsins: 1998

Þann 17. júní Árið 1998 flutti safnið í um 200 m2 rými á efri hæð “Verbúðanna” við höfnina undir nafninu “Hvalamiðstöðin á Húsavík”. Gestafjöldi óx jafnt og þétt og samhliða því þörfin fyrir stærra húsnæði sem hentaði starfsemi safnsins betur.

Verbúðirnar á Húsavík urðu heimili Hvalamiðstöðvarinnar árið 1998 og gegndu því hlutverki næstu árin
Þorvaldur Björnsson frá Náttúrufræðistofnun Íslands vinnur hér að hreinsun hvalbeina til uppsetningar á sýningu
Svipmyndir af safninu
Ásbjörn Björgvinsson við vígslu Hvalamiðstöðvarinnar í Verbúðunum

Hvalir í Skjálfandaflóa: Hnúfubakur

Þá er komið að síðustu færslunni um algengustu hvalategundirnar í Skjálfandaflóa. Nú verður fjallað um hnúfubakinn sem er sú hvalategund sem oftast sést í skoðunarferðum í flóanum.

Latneskt heiti: Megaptera novaengliae              
Enskt heiti: Humpback whale   
Íslenskt heiti: Hnúfubakur        
Meðalaldur: 50 ár          
Fæðuval: Ljósáta og litlir fiskar 
Stærð: 13 – 17 metrar  
Þyngd: 25-45 tonn

Hnúfubakar skipa eina stærstu hvalategundina, þar sem karldýrin ná 14 metra lengd og kvendýrin upp í 17 metra lengd – svipað og meðalstrætisvagn! Bægslin eru rétt um þriðjungur af lengd dýranna og geta orðið allt að 6 metrar. Hnúfubakar hafa mikla hreyfiþörf og má reglulega sjá þá stökkva upp úr sjónum eða slá sporðum og bægslum. Kenningar eru til um að þessi hegðun sé þeirra aðfer til að hafa innbyrðis samskipti en einnig gæti þetta verið aðferð til að sýna félagslega yfirburði og góða heilsu á fengitíma. Hnúfubakar nota einnig hljóðmerki eril að hafa samskipti við hvern annan. Karldýrin syngja á fengitíma og getur hvert “lag” verið upp í hálftíma langt og heyrst í allt að 30 km fjarlægð.

Árið er tvískipta hjá hnúfubökum. Annarsvegar í fæðuöflun og hinsvegar fengitíma. Á sumrin má finna hnúfubaka í köldum og næringarríkum sjó, t.a.m. við strendur Íslands, Noregs og Kanada þar sem þeir borða ljósátur. Á veturnar flytjast þeir búferlum til hlýrri svæða nýr miðbaug, t.a.m. í Karabíahaf. Hnúfubakar makast og eignast afkvæmi í hlýjum sjó. Meðgöngutímabilið er 11 mánuðir. Þegar að kálfarnir koma í heiminn eru þeir um 4,5 metra langir og 900 kg að þyngd. Þeir geta drukkið upp í 600 lítra af mjólk á dag. Móðir og afkvæmi eiga samskipti með “hvísli” sem er til þess að varast rándýr svo sem háhyrninga.  

Hnúfubakar eru skíðishvalir og nota síunaraðferð (filter feeding) til fæðuinntöku. Þeir eru þekktir fyrir að hafa nokkrar aðferðir til fæðuinntökunnar. Ein af þeim er svokölluð loftbóluaðferð. Hún virkar þannig að hnúfubakurinn blæs lofti frá blástursopinu þannig að bráðin færist upp á yfirborð sjávar. Þá ráðast þeir til atlögu og gleypa fæðuna.

Hnúfubakar kafa að meðaltali um 5-10 mínútur í einu en geta kafað allt upp í 40 mínútur. Sundhraðinn er um 5-15 km/klst en þegar þeir eru að borða hægist á þeim niður í 2,5-5 km/klst. Hámarkshraði þeirra er hinsvegar um 25 km/klst.

Hnúfubakar eru sem áður segir mjög algeng sjón í Skjálfandaflóa og hefur viðvera þeira aukist síðustu árin. Aðaltímabil þeirra er vissulega á sumrin en það ætti þó að vera hægt að sjá hnúfubak flesta daga frá maí til nóvember.

Hvalaskoðun í miklum blóma í Skjálfandaflóa

Í dag er 1. ágúst og má því sannarlega segja að hápunktinum í íslenska ferðasumrinu sé náð. Þegar þetta er skrifað er 22 stiga hiti á Húsavík, mikið af ferðamönnum og bærinn iðandi af lífi. Sumarið var ansi seint á ferðinni þetta árið. Júní var kaldur og votviðrasamur og stór hluti af júlí einnig. Fjöldi ferðamanna stóðst þó væntingar að miklu leyti. Þá hefur hvalaskoðun á Skjálfandaflóa gengið vel og mikið líf búið að vera í flóanum í allt sumar. Að vanda hefur verið mikið af hnúfubökum, hrefnum og höfrungum og einnig hafa steypireyðar sést mörgum sinnum. Þá hafa háhyrningar sést töluvert oftar en undanfarin ár.

Almennt hefur allur gangur verið á hvalaskoðun á Íslandi þetta sumarið. Samkvæmt vísi.is hefur til að mynda verið mjög lítið um hval í Eyjafirði í júlímánuði.

Mynd: Christian Schmidt