Gott ár að baki hjá Hvalasafninu

Ársfundur Hvalasafnsins á Húsavík ses. fór fram í dag, þar sem ársreiknungur  fyrir árið 2016 var samþykktur.  Reksturinn gekk vel á árinu. Rekstrartekjur námu tæpum 80 milljónum kr. og hagnaður ársins nam 8 milljónum kr.  Rekstrartekjur jukust um 30% á árinu 2016.  Það skýrist af stærstu leyti af aukinni aðsókn á safnið. Gestafjöldinn á safnið var ríflega 36.000 á árinu 2016 en var 26.000 árið 2015. Tekjur af miðasölu og minjagripasölu jukust umtalsvert vegna þessa. Styrkir vegna einstakra samstarfsverkefna jukust einnig en þeim verkefnum fylgja einnig talsverð rekstrarútgjöld. Hagnaður ársins (8,0 m.kr) var eilítið lægri en árið á undan (10,5 m.kr).  Rekstrargjöld jukust á heildina litið á árinu 2016. Ný steypireyðarsýning var opnuð á árinu. Uppsetning og hönnun á þeirri sýningu var kostnaðarsöm eins og vitað var. Hluti kostnaðarins var eignfærður en hluti gjaldfærður. Starfsmönnum á heilsársvísu var fjölgað á árinu. Sú ákvörðun var nauðsynleg í ljósi aukinna umsvifa á safninu. Þá fylgdi því nokkur kostnaður þegar slökkt var á frystirýmum á jarðhæð og þau tæmd.

tafla

Góð aðsókn
Góð aðsókn var á safnið á árinu 2016 og eru ýmsar skýringar á því.   Ný steypireyðarsýning sem opnuð var á árinu vakti mikla athygli og fékk safnið mikil jákvæð viðbrögð safngesta í kjölfar opnunar sýningarinnar í marsmánuði 2016.  Þá hafði almenn aukning í komum á erlendum ferðamönnum til Húsavíkur jákvæð áhrif á aðsóknina. Hvalasafnið á í góðu samstarfi við hvalaskoðunarfyrirtækin á Húsavík þar sem viðskiptavinir þeirra fá afslátt á aðgöngumiðum á Hvalasafnið gegn því að vísa fram miða í hvalaskoðun. Þetta fyrirkomulag hefur skilað auknum fjölda gesta á safnið. Loks skipti miklu máli að Hvalasafnið jók á árinu tengsl og samstarf við helstu ferðaskrifstofur sem skipuleggja ferðir erlendra ferðamanna um landið.

Fræðslustarf
Fræðslustarf á safninu hefur verið í blóma og gekk vel á árinu 2016. Fjölmargir skólahópar á öllum skólastigum heimsóttu safnið og var Hvalaskólinn á sínum stað með sína árlegu fræðslu og sýningu á verkum nemenda á vormánuðum. Svokallað New Bedford verkefni, þar sem Hvalasafnið og Hvalveiðisafnið í New Bedford, í Massachusetts, Bandaríkjunum unnu saman í gegnum safnasamstarf og ungmennaskipti gekk vel. Í apríl heimsótti Bandaríski nemendahópurinn Húsavík og í lok maí fór Húsvíski hópurinn utan. Má segja að verkefnið hafi gengið vonum framar og munu söfnin tvö halda áfram að styrkja tengslin sín á milli. Þá var árleg Hvalaráðstefna haldin í 3ja sinn og var hún afar vel sótt, en yfir 70 gestir mættu.

Framkvæmdir
Í janúar og febrúar í ár er vinna í gangi á safninu við að uppfæra svokallaða hvalveiðisýningu á safninu. Sýningunni verður breytt í hvalnýtingarsýningu þar sem hvalaskoðun verður gerð betri skil við hlið hvalveiðisýningar þar sem sögu hvalveiða við Ísland verður áfram rakin. Þórarinn Blöndal sýningarhönnuður hefur umsjón með þessari nýju sýningu líkt og með steypireyðarsýningunni í fyrra. Þá eru nú í gangi framkvæmdir í geymslurými safnsins á jarðhæð. Skipta þarf um gólf og jarðveg þar sem vatn hafði um árabil lekið inn í gegnum burðarvegg og gert það að verkum að rýmið var orðið ónothæft. Á næstu árum mun áfram þurfa að sinna viðhaldi af ýmsu tagi í sýningum á safninu.  Auk þess mun áfram þurfa að sinna viðhaldi af ýmsu tagi á á ytri byrði hússins.

Stjórn kjörin
Hvalasafnið er viðurkennt safn samkvæmt ákvörðun Safnaráðs og er sjálfseignarstofnun sem ekki er rekin á hagnaðarskyni.  Samkvæmt samþykktum safnsins er kjörið í stjórn eftir tilnefningu frá sveitarfélaginu Norðurþingi, aðilum í ferðaþjónustu á Húsavík, rannsóknarstofnunum á svæðinu og loks tilnefnir Menningarmiðstöð Þingeyinga fulltrúa í stjórn.

Á ársfundinum voru eftirtaldir kjörnir í stjórn:
Margrét Hólm Valsdóttir
Sif Jóhannesdóttir
Heiðar Hrafn Halldórsson
Þorkell Lindberg Þórarinsson

Facebook
Twitter
LinkedIn

More to explorer

Rákahöfrungur með þumla

Í júlí 2023 fundu rannsakendur frá Pelagos Hvalrannsóknarstöðinni sérstakann rákahöfrung með afmynduð bægsli, sem líktust þumlum. Höfrungurinn sást synda með hópnum sínum

Jólalokun í Hvalasafninu

Kæru safngestir, Nú þegar jólahátíðin nálgast viljum við láta vita að Hvalasafnið verður lokað yfir hátíðirnar frá 24. desember út 1. janúar.

Lokað er fyrir athugasemdir.