Starfsemi Hvalasafnsins blómleg í sumar

Starfsemi Hvalasafnsins hefur gengið vel í vor og sumar. Vinnu við nýja hvalveiði- og hvalaskoðunarsýningu lauk að mestu í vor og hefur hún vakið athygli gesta í sumar. Sýningin verður formlega opnuð síðar í haust. Steypireyðarsýningin heldur auk þess áfram að vekja athygli gesta og hefur safnið almennt fengið jákvæðar umsagnir frá gestum.

syning

 

Góð aðsókn
Aðsókn hefur verið góð það sem af er ári. Gestafjöldinn á safnið jókst í vor samanborið við árið 2016 en í sumar fækkaði lítillega. Á heildina litið stefnir í að aðsókn verði áþekk metárinu í fyrra þegar 36 þúsund gestir heimsóttu safnið. Reksturinn hefur gengið vel og var safnið heppið með sumarstarfsfólk líkt og áður. Safnið er opið alla daga vikunnar í september og október. Frá og með nóvember og út mars verður safnið opið alla virka daga frá kl. 10 – 16.

Safnastarf og fræðsla
Starfsemi Hvalaskólans hélt sínum sessi á vordögum og mættu nemendur elsta árgangs Tungu, auk 2. og 5. bekkjar Borgarhólsskóla til fræðslu í Hvalasafninu. Hvalasafnið bauð að venju 2. bekk í fjöruferð í Eyvíkurfjöru. Uppskeruhátíð var haldin 5. júní þar sem sýning á verkum nemenda var opnuð.

Árleg hvalaráðstefna var halding í fjórða sinn þann 21. júlí og var aðsókn ágæt. Fyrirlesarar voru meðal annarra Dr. Tom Amakatsu, Dr. Marianne Rasmussen og Francoise Breton og voru erindin hvert öðru áhugaverðara.

ráðstefna1

Safnahelgi í Þingeyjarsýslum var haldin síðsumars. Þar buðu söfn og sýningar í Þingeyjarsýslum upp á fjölbreytta dagskrá frá fimmtudegi til sunnudag. Hvalasafnið bauð upp á fjölskyldukvikmyndasýningar og opið hús. Sýndar voru myndirnar Free Willy, með íslenska háhyrningnum Keikó í aðalhlutverki, og In the Heart of the Sea, en hún byggir á sögunni frægu um Moby Dick.

Næg verkefni eru framundan á safninu í vetur. Hvalasafnið mun koma upp viðurkenndu skráningarkerfi á öllum munum safnsins, en safnið hlaut styrk til verkefnisins frá Safnasjóði fyrr á árinu. Þá hefst undirbúningur að afmælishátíð Hvalasafnsins, en árið 2018 verða 20 ár frá formlegri opnun safnsins. Stefnt er að veglegri dagskrá af því tilefni. Þá eru ótalin viðhaldsverkefni á safninu af ýmsu tagi.

Miklar framkvæmdir í kjallara
Fyrsta áfanga í framkvæmdum í kjallara Hvalasafnsins lauk í vor. Vegna utanaðkomandi vatnsleka inní húsakynni safnsins í kjallara reyndist nauðsynlegt að skipta um jarðveg, steypa nýtt gólf og styrkja burðarvegg. Umtalsverður kostnaður hlaust af þessu en framkvæmdirnar voru óhjákvæmilegar þar sem sem kjallarinn var ónothæfur vegna lekans.

IMG_3611

Burðarþol, niðurrif og ytra byrði
Í kjölfar sölu Hvalasafnsins á hluta af jarðhæð til Steinsteypis ehf kom fljótt í ljós að burðarþoli hússins var mjög ábótavant. Burðarstoðir voru skemmdar í þeim hluta sem áður hýsti frystigeymslur og þurfti að styrkja húsið umtalsvert með steypuviðgerðum. Sú framkvæmd gekk vel en reyndist  kostnaðarsöm eins og við var að búast. Á allra næstu vikum verða viðbyggingar við hús Hvalasafnsins sem snúa til norðurs og tilheyrðu frystigeymslustarfseminni fjarlægðar. Við þetta mun byggingarreitur safnsins til framtíðar stækka. Hvalasafnið og Steinsteypir hafa ráðið arkítekt til að hanna ytra útlit hússins og er stefnt að því að framkvæmdum (málningu, múrviðgerðum osfrv) verði lokið fyrir næsta sumar.

Facebook
Twitter
LinkedIn

More to explorer

A Whale Carcass in North Iceland

Last week staff from the Húsavík Whale Museum ventured to Eyjafjörður to take a closer look at a whale carcass on the

Lokað er fyrir athugasemdir.